Kirkjur auka lífsgleðina

Bókin Augljóst en hulið kom út fyrir jól.

Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur og háskólakennari, sendi frá sér bók um síðustu jól sem ber heitið Augljóst en hulið: Að skilja táknheim kirkjubygginga. Í henni rekur hann sögu kirkjubygginga, allt frá fyrstu húskirkjunum til hinna íburðarmiklu dómkirkna miðalda og fram á okkar daga. Það sem er e.t.v. óvenjulegt við bókina er að hún fjallar ekki fyrst og fremst um byggingarlist, eins og algengast er í slíkum bókum, heldur það sem Sigurjón kallar „dýpri merkingu kirkjurýmisins“. Lifðu núna tók Sigurjón tali um bókina, prestsstarfið og fræðimennskuna.

„Mig langaði að skrifa um merkingarheim kirkjubygginga af sjónarhóli guðfræði,“ segir Sigurjón um bókina. „Kirkjur setja sterkan svip á borgir okkar og bæi og við hrífumst öll af fegurð þeirra og reisn, en margt er okkur hulið í umgjörð þeirra og starfsemi. Hvernig voru þær byggðar? Hvers vegna er í öllum kirkjum kross, Biblía, kertastjakar og blóm? Hvers vegna er skírnarfontur nærri altarinu og predikunarstóll? Hvað merkja tákn og myndir í kirkjugluggum? Þetta eru allt spurningar sem mig langaði að svara í bókinni.“

Kennslufræði kirkjubygginga

Sigurjón segist hafa tekið mið af því sem víða erlendis er nú orðið viðurkennt fag í háskólum og nefnist kennslufræði kirkjubygginga (kirkjupedagógía), en sú grein er upprunnin innan kennslufræðinnar og er að nokkru leyti afsprengi safnafræði. „Kirkjur eru í raun og veru eins og texti sem þarf að skýra og túlka. Á miðöldum þekkti almenningur tákn og myndir í kirkjunni, en síður texta. Það helgaðist af því að ekki voru allir læsir. Nú á dögum hefur þetta snúist við, nútímamaðurinn er vel læs, en hann þekkir síður tákn og myndir kirkjunnar. Kirkjan er semsé mörgum hulin jafnvel þótt kirkjugestir geri sér grein fyrir því að boðskapurinn blasir við augum hvert sem litið er. Þessu mætti líkja við einstakling sem kemst yfir bók sem honum þykir áhugaverð en kann bara hrafl í málinu sem hún er skrifuð á.“

Sigurjón segir að aðdragandi bókarinnar hafi verið býsna langur. „Sem prestur og fræðimaður hef ég verið mikið á ferðinni og varið löngum stundum í kirkjum, bæði hér heima og erlendis. Í staðinn fyrir að fara í golf og á sólarstrendur kýs ég að skoða söfn og kirkjur. Kirkjur eru auðvitað að sínu leyti söfn og sumar af hinum íburðarmiklu miðaldadómkirkjum eru svo vinsælar að þangað komast færri að en vilja. Þær hafa jafnvel sett upp bókunarkerfi til þess að stýra aðsókninni. Gott dæmi um slíkar vinsældir hér á landi er Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti, en hana sóttu árlega u.þ.b. ein milljón ferðamanna fyrir Covid-19, enda er kirkjan talin ein af tíu áhugaverðustu kirkjum heims á virtum vefsíðum ferðaskrifstofa.“

Kirkjusókn hefur stóraukist

Hjónin Martina Brogmus og Sigurjón Árni Eyjólfsson í Lundúnum. Þau sækja gjarnan söfn og kirkjur á ferðalögum sínum.

Hefur kirkjusókn þá ekki dregist saman eins og margir halda fram? „Nei, kirkjusókn hefur stóraukist og ekkert bendir til þess að það muni breytast. Kirkjuyfirvöld standa að sumu leyti ráðþrota gagnvart þessum mikla vexti, en aðsóknin hefur víða bætt fjárhag kirkna og komið söfnuðum upp úr fjárhagsvandræðum. Sannleikurinn er hins vegar sá að þessi aukni fjöldi kirkjugesta sækir ekki endilega kirkju til að taka þátt í guðsþjónustu, heldur kemur sem ferðalangar sem vilja skoða kirkjuna sem byggingu, sögu hennar og áhrif. Það er einmitt þetta fólk sem bókin er skrifuð fyrir, hún er hugsuð sem hagnýtt uppflettirit fyrir allt áhugafólk um kirkjur og sömuleiðis fræðirit fyrir þá sem vilja rannsaka guðfræðilegan merkingarheim kirkjubygginga.“

Er nútímamaðurinn þá ennþá trúhneigður eftir allt saman? „Nútímamaðurinn er enn að leita merkingar í lífi sínu, en hann spyr ekki aðeins „hver er ég?“ eða „hvað er ég?“, heldur einnig „hvar er ég?“ Áherslan hefur færst frá tíma yfir á rými. Kirkjubyggingin virðist einmitt vera slíkt rými sem fólk getur sótt í fyrir slíka íhugun. Ferðamenn í kirkjum eru að vissu leyti kristnir pílagrímar. Víða erlendis hafa verið gefnar út leiðbeiningar fyrir leiðsögumenn og fræðsluefni sem hjálpar kirkjugestum að skilja bygginguna og kynnast þeim heimi sem hún hefur að geyma. Þetta þurfum við að gera í auknum mæli hér heima,“ segir Sigurjón. „Við skulum ekki gleyma því að helgihald hefur breyst í stærstu kirkjum heims og þar eru nú kyrrðarstundir, bænagjörðir og tónlistarflutningur með reglulegu millibili á rúmhelgum dögum sem ferðamenn taka fullan þátt í. Þannig að í vissum skilningi má segja að fullyrðingin um að aukin kirkjusókn skýrist ekki af auknum áhuga á helgihaldi sé einfaldlega röng.“

Mikill áhugi á djass

Sigurjón er héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og stundakennari við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Eftir hann liggja einar 10 bækur og fjöldi ritgerða og greina á sviði guðfræðirannsókna. Hann er fæddur árið 1957 og er einn fárra Íslendinga sem lokið hafa tveimur doktorsprófum, annars vegar í Þýskalandi (1991), hins vegar við guðfræðideild Háskóla Íslands (2002). Þó að hann sé orðinn 64 ára leggur hann stund á BA-nám í listasögu við Háskóla Íslands um þessar mundir og stefnir að því að ljúka meistaraprófi í þeirri grein. Þá er Sigurjón með einleikarapróf í saxófónleik sem hann lauk árið 2016 með burtfarartónleikum í FÍH, en hann er mikill unnandi djasstónlistar.

Fer djass og guðfræði vel saman? „Já, alveg tvímælalaust. Það sem einkennir djasstónlistina er sterkur hrynjandi, dapurlegir tónar, einleikskaflar og melódíur sem eru leiknar af fingrum fram. Hún fer því vel saman við lútherska guðfræði sem hefur löngum verið spurul og gagnrýnin. Í gegnum sögu djassins hafa þessi einkenni verið sterkustu áhrifavaldarnir í að skapa þessa frumlegu tónlistarstefnu. Djassinn hefur einnig borið með sér ýmsar nýjungar í tónlistarheiminum. Saxófónninn er eitt af þeim hljóðfærum sem mest eru notuð í djassinum og ég hreifst snemma af honum.“

Lúther lífsglaður en raunsær

Sigurjón er af mörgum talinn einn helsti Lútherfræðingur okkar Íslendinga en rannsóknir hans hafa verið mest á því sviði. Hann segir að Lúther hafi verið raunsær maður en jafnframt lagt ríka áherslu á lífsgleðina. „Fjögur meginatriði eru í guðfræði Lúthers: Ritningin, Kristur, náðin og trúin. Ekki er óalgengt að menn bæti við þetta bæninni í ljósi þess hversu mikið Lúther lagði upp úr henni. Hann taldi að boðskapur Biblíunnar kæmi að litlu gagni nema hann væri meðtekinn í trú og að fagnaðarerindið um náð Guðs væri tengt daglegu lífi manna og breytni.“

Sigurjón segir að mynd okkar af miðöldum sé að mörgu leyti bjöguð. „Við höldum að miðaldir séu tímabil í sögu Evrópu þar sem kirkjan og ríkisvaldið, menning og veraldlegt vald, mynduðu eina samstæða heild og samhljóm. Þessi rómantíska sýn á miðaldir er vinsæl hér á landi, en hún stenst ekki. Síðmiðaldir og samtími Lúthers var tími menningarblöndu, fjölmenningar, hefðarrofs og afstæðishyggju, rétt eins og nú. Vissulega var kristindómurinn einhvers konar rammi um þjóðfélagsgerð miðalda, en straumar og stefnur innan hans voru svo ólíkar að færra sameinaði en það sem skildi að.“

Í Oxford.

Sigurjón segir að Lúther hafi litið svo á að í heiminum hvíldu allir menn, karlar og konur, undantekningarlaust í hendi Guðs. Vandi mannsins væri hins vegar sá að hann kynni ekki að meta þetta. Hann ætti erfitt með að trúa því. „Dæmi um slíkt er hve erfitt mörgum reynist að njóta líðandi stundar og þess sem þeir hafa þrátt fyrir mótlæti. Menn hafa tilhneigingu til að leita frekar að öðru. Þessi árátta getur tekið á sig leiðinlegar myndir. Lúther fjallaði m.a. um það mein í samtíð sinni að menn þrái ófrið þó að friður sé og þegar ófriðurinn sem þeir kölluðu yfir sig væri kominn, þá væri öðrum kennt um. Þetta þekkjum við vel úr okkar samtíð.“

Sigurjón segir að Lúther hafi margoft gefið góð ráð um hvernig sigrast megi á erfiðleikum með lífsgleðina að vopni. „Þó að ánægjustundir lífsins væru fallvaltar sagði Lúther að það drægi ekki úr vægi þeirra. Í Prédikaranum er maðurinn beinlínis hvattur til að virða gjafir Guðs með því að njóta þeirra. Okkur er hreinlega fyrirskipað: „Farðu“, „et með ánægju“, „drekktu“, „njóttu“ og „gleðstu“. Vissulega er lífsbarátta okkar oft erfið og lífið þverstæðukennt, en það á ekki að varpa skugga á ánægjuefni lífsins. Þetta var lífsafstaða Lúthers og hún hefur fullt gildi enn í dag.“

Dómkirkjan í Chartres, Frakklandi, er ein af mörgum kirkjum sem Sigurjón fjallar um í bókinni Augljóst en hulið. Mynd: Wikipedia.

Ritstjórn maí 7, 2021 08:00