Ljúfir tónar í hauströkkrinu

Hvað er betra í haustmyrkrinu en að hlusta á góða plötu? Haustið er tími notalegheita og af einhverjum ástæðum fyllumst við á Lifðu núna alltaf einhverri óstjórnlegri fortíðarþrá þegar hauströkkrið tekur að færast yfir. Það endurspeglast yfirleitt í tónlistarvali þegar sest upp í sófa og kveikt á kertum þegar myrkva tekur. Þessar fjórar plötur hafa átt huga okkar allan þetta haustið.

Ást fyrir tvo – Katrín Halldóra

Katrín Halldóra söngkona og leikkona sveif upp á stjörnuhimininn þegar hún lék Ellý Vilhjálms í Borgarleikhúsinu. Hún heltók þjóðina með túlkun sinni á söngkonunni ásamt því að heilla alla upp úr skónum með sönghæfileikunum. Á dögunum gaf Katrín Halldóra út nýja plötu sem ber nafn titillagsins Ást fyrir tvo. Lögin eru samansafn af ábreiðulögum. Platan einstaklega ljúf, einlæg og grípandi. Hún er stútfull af nostalgíu en hljómurinn afskaplega ferskur og nálægur. Það verður heldur enginn ósnortinn af rödd Katrínar sem er í aðalhlutverki í útsetningunni en hljóðfæraleikurinn er jafnframt dýrðlegur. Lagavalinu er raðað fallega upp og rennur platan vel. En hápunkturinn á plötunni er Draumalandið sem togar í hjartastrengina. Ást fyrir tvo er eins og faðmlag, nærandi, falleg og tilfinningarík.

https://open.spotify.com/album/6k8UJXGwkAdv3iuUFkFE1n?si=qmUMMazMTk6QBgy31jfaEA

La Llorona – Chavela Vargas

María Isabel Anita Carmen de Jesús betur þekkt sem Chavela Vargas var mexikönsk söngkona sem ögraði feðraveldinu með því að klæðast „karlkyns“ fötum, ganga með byssu og eiga í ástarsamböndum við konur. Meðal annars við Fridu Kahlo og Övu Gardner. Vargas ögraði mexíkönsku ranchera tónlistarhefðinni. Ranchera lögin voru yfirleitt sungin af karlmönnum og út frá sjónarhóli karlmanns við undirleik mariachi hljómsveitar. Vargas söng hins vegar ein og notaðist einungis við gítar og breytti ekki nöfnum eða kynjum í textum laganna. Platan La Llorona er róleg en stútfull af spennu. Rödd Chavelu Vargas er hrá og gróf en dásamlega alúðleg. Vargas leikur sér að taktinum og býr þannig til eftirvæntingu hlustenda. Platan er töfrandi og hjartnæm með dass töffaraskap eins og Vargas einni er lagið.

https://open.spotify.com/album/6STu4IifGmMPwDA9PFUch7?si=bj1qreVqRharS2laP4qjHg

Gravy – Yasuko Agawa

Japanska sönkonan Yasuko Agawa er djasssöngkona og þekktust fyrir einkennandi rödd og spunahæfileika í jazzi. Agawa hóf feril sinn ung að árum og söng í djasslúbbum og vann sem kvikmyndaleikkona en fljótlega fór hún að gefa út tónlist. Plata hennar Gravy kom út árið 1984 en þar blandast við djassinn áhrif úr sálartónlist, fönki og poppi. Á plötunni er að finna eitt vinsælasta lag Agawa, L.A. Night sem er hrífandi og skemmtilegt. Agawa er kraftmikil söngkona en leikur sér að flakka á milli djasshljómsins, kröftugra belta og dísæts poppsöngs. Þéttur takturinn, grípandi laglínur og síðast en ekki síst rödd Yasuko Agawa getur fengið hvern sem er til að dilla sér.

https://open.spotify.com/album/7cS1kMkHB5U5O2xXethG7s?si=wOs2GzNRRa67g0yACw1V4w

Keep Walkin’: Singles, Demos & Rarities 1965-1978 – Nancy Sinatra

Nancy Sinatra þarf vart að kynna. En elsta dóttir Franks Sinatra fetaði í fótspor föður síns og gerði garðinn frægan með laginu These Boots Are Made for Walking. Nýlega kom út safnplata með lögum Nancy Sinatra en í stað laganna sem gerðu hana fræga er búið að grafa upp lög af B-hliðum platna, lög sem aldrei voru gefin út og gamlar ábreiður. Við hlustun á plötuna verður maður strax meðvitaður um hvað rödd Nancy er einstaklega sérstök. Allnokkur lögin á þessari safnplötu voru mér ókunn þegar ég hlustaði á hana og mætti því segja að ég sé að enduruppgötva Nancy Sinatra. En útgáfa hennar af Ain´t no Sunshine er átakanleg og harmræn á virkilega fagran máta. Aðdáendur Nancy Sinatra ættu að skella Keep Walkin’: Singles, Demos & Rarities 1965-1978 á fóninn og uppgötva nýja hlið á Nancy Sinatra.

https://open.spotify.com/album/1jr1PJI5jdg30konzAbQJi?si=eC44hSpMSqGWFIpFOtklYw

Eva Halldóra Guðmundsdóttir sviðslistamaður skrifar fyrir Lifðu núna.

Ritstjórn nóvember 3, 2023 08:44