Kökubakstur, ísbíltúr eða ratleikur á sumardaginn fyrsta

Það er í raun og veru ótrúlega stutt síðan sumardagurinn fyrsti varð að lögbundnum frídegi, það gerðist ekki fyrr en með lagasetningu í lok árs 1971. Fyrsta dag sumars ber alltaf upp á fimmtudag á tímabilinu 19-25 apríl. Þetta var mikill hátíðardagur í gamla bændasamfélaginu. Ekki var unnið nema það allra nauðsynlegasta. Fólk gerði vel við sig í mat og drykk eftir efnum og ástæðum og gaf gjafir. Foreldrar gáfu börnum sínum einhverja flík eða hluti sem þau vanhagaði um. Hjón gáfu hvort öðru sumargjafir og húsbændur gáfu vinnuhjúum sínum gjafir. Oft voru gefnir útprjónaðir vettlingar, illeppar í sauðskinnsskó, ullarsokkar eða efni í svuntu. Farið var að halda samkomur í sveitum og bæjum seint á 19 öld. Eftir aldamótin tengdust þær ungmennafélögum en frá því á þriðja tug síðustu aldar hefur dagurinn verið helgaður börnum með skrúðgöngum, skemmtunum og útgáfustarfi. Fyrsti barnadagurinn var í Reykjavík 1921.

Í dag er haldið á sumardaginn fyrsta með skrúðgöngum, hoppkastölum og skemmtunum af ýmsu tagi og mörg börn fá sumargjafir frá foreldrum og stundum ömmum og öfum. Oftast er um að ræða litlar gjafir eða útileikföng eins og bolta, krít, badmintonspaða, sippubönd og sápukúlur. Sumir krakkar fá stærri gjafir eins og hjól eða rúlluskauta og aðrir fá sumarföt eða ný sundföt. Sumargjafir eru sér íslenskur siður sem gaman er að halda í heiðri.  En gjafir þurfa ekki alltaf að kosta eitthvað sérstaklega mikið. Lifðu núna rakst á skemmtilegan lista yfir hugmyndir að sumargjöfum á vefnum foreldrahandbokin.is. Þessar gjafir ganga allar út á samveru með börnum og nýtast jafnt foreldrum sem öfum og ömmum.

  • Fara saman í gönguferð og kaupa ís.
  • Fara saman í sund og í heimsókn til ömmu og afa í ísveislu.
  • Fara rúnt í sveitina og taka með nesti.
  • Fara í fótbolta saman og svo í sund.
  • Baka saman sumarköku og bjóða skemmtilegum vinum í kökuveislu.
  • Elda uppáhalds matinn ykkar, fara svo í kvöldgöngu og kaupa ís.
  • Heimsækja vini og taka með gómsætt úr bakaríinu.
  • Fara í húsdýragarðinn og labba Laugardalinn.
  • Fara í fjöruna og taka flottar myndir af fjölskyldunni og týna skeljar.
  • Fara út og týna flotta hluti sem hægt er að föndra úr.
  • Ratleikur með fjölskyldunni – hægt að skipta í lið ! HRIKALEGA GAMAN !

 

Ritstjórn apríl 25, 2019 07:37