13% þeirra sem eru 67 ára og eldri, eru ekki með bíl á heimilinu. Þetta kom fram í könnun á högum og líðan aldraðra, sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði fyrir velferðarsvið Reykjavíkurborgar, velferðarráðuneytið og Landssamband eldri borgara. Könnunin náði til 1800 manna á landinu öllu, sem voru 67 ára og eldri þegar hún var gerð í lok síðasta árs.
87% þeirra sem svöruðu spurningunni um hvort þeir væru með bíl á heimili sínu, sögðu svo vera. 90% þeirra sem voru undir áttræðu voru með bíl á heimilinu, en vel innan við helmingur þeirra sem voru 88 ára og eldri. En hvernig kemst fólk ferða sinna, ef enginn bíll er á heimilinu? Yfir helmingur þeirra sem eru í þessari stöðu, fær börnin eða barnabörnin til að skutla sér og 45% fer ferða sinna fótgangandi. Öll svörin má sjá í töflunni hér fyrir neðan.