Fyrstu merkin um að líkaminn sé að eldast, er að fólk fer að finna fyrir slitgigt og stoðkerfisverkjum, aðallega í mjöðmum og hnjám. „Ég er kominn á viðgerðaraldurinn“ er nokkuð sem Jón Snædal öldrunarlæknir heyrir stundum frá sjúklingunum. Hann segir slitgigt valda því að menn fái verki þar sem liðirnir séu slitnir, fái verki í hné eða mjöðm þegar þeir hreyfi sig. Menn finni líka að sjónin breytist, oftast vegna þess að ský er farið að myndast í augasteininum. Fyrstu merki gláku geta komið fram en eru mjög lúmsk því menn finna ekki svo mikið fyrir því að augnþrýstingur aukist að sögn Jóns, nema það sé mjög mikið.
Þreyta og úthaldsleysi
Úthaldsleysi og þreyta gera líka vart við sig að sögn Jóns. „Það getur verið merki um að blóðþrýstingur sé of hár eða að menn séu komnir með sykursýki. Stundum er fólk líka blóðlítið eða eitthvað annað að hrjá það. „Verkir, slitgigt, versnandi sjón, úthaldsleysi og þreyta hjá fólki sem er komið yfir miðjan aldur er nokkuð sem á að skoða. Stundum hefur fólk bætt á sig 10-15 kílóum og hefur því meira að bera. Það getur verið eðlileg skýring á úthaldsleysinu. Íslendingar hafa þyngst“, segir hann.
Nýr augasteinn algengasta aðgerðin í heiminum
„Langoftast kemur eitthvað í ljós við skoðun sem er hægt að laga. Nýr augasteinn er algengasta aðgerðin í heiminum í dag og sú sem hefur minnstar aukaverkanir. Ef fólk er með væga slitgigt fær það verkjarlyf eða sprautur í liði. Hvíldarverkirnir eru erfiðastir, en þá fær fólk verki þó það hreyfi sig ekki neitt. Það rænir fólk svefni og rýrir lífsgæði. En með því að skipta um þessa liði er hægt að bæta lífsgæðin verulega. Svo er ýmislegt sem fólk getur gert sjálft“, segir Jón.
Varadekkjunum fjölgar
„Það er aldrei of seint að breyta um lífsstíl og bæta heilsuna. Því fyrr sem þú tekur á því, því betur vegnar þér“, segir hann og bendir á að hreyfing og mataræði séu einnig forvörn gegn heilabilun. „Það gerir ekki mikið til þótt ungt fólk sleppi því að fara í ræktina. En með aldrinum fer varadekkjunum að fjölga og þá þarf fólk að breyta til. Ef það tekst geta menn átt mörg góð ár framundan“. Hann segir aldrei of seint að bæta sig. Þó fólk sé komið á níræðisaldur geti það samt gert eitthvað. Það sé hægt að styrkja vöðva hjá fólki yfir nírætt. „Á meðan þú dregur andann getur þú gert eitthvað í málinu“, segir Jón.