Hún fæddist inn í fátæka verkalýðsfjölskyldu og var send til að vinna í keramíkverksmiðjum Bristol-borgar aðeins þrettán ára en vann sig upp í að verða einn vinsælasti keramíkhönnuður tuttugustu aldar. Clarice Cliff fór ekki troðnar slóðir í neinu og árið 2021 var gerð kvikmynd byggð á lífi hennar í Bretlandi, The Colour Room.
Clarice fæddist árið 1899 í Turnstall. Pabbi hennar vann í járnsmiðju og móðir hennar var þvottakona. Hún átti eina systur sem dó ung. Litir og form heilluðu Clarice frá því hún var barn og oft sótti hún sér endurnæringu og gleði í hæðirnar fyrir ofan Bristol. Á þessum árum var sú borg miðstöð keramíkframleiðslunnar í Bretlandi og kolreykurinn lá yfir öllu kolsvartur og sallinn litaði allt grátt. Kannski var það þess að vegna að Clarice þráði liti og ljós umfram allt.
Þrátt fyrir fátæktina og það að sjálfstæði væri ekki vel séð, sérstaklega hjá konum, leyfði hún sér að flakka milli vinnustaða. Venjan var sú að stúlkur réðu sig í einhvern tiltekin hluta framleiðsluferlisins sem þótti við hæfi kvenna og væru á læringskaupi til að byrja með en fengju kauphækkun þegar því tímabili lauk. Clarice lauk hins vegar lærlingnum og hélt þá til annars framleiðanda og lærði eitthvað nýtt. Hún sótti einnig tíma í listaskóla en hún hafði unnið skólastyrk til þess. Frá barnæsku hafði hún gaman af að teikna og mála og mótaði úr pappamassa verk fyrir landafræðitíma sína. Sextán ára tók hún kennarapróf en hugurinn stóð til annars en kennslu.
Clarice heillar verksmiðjueigandann
Hún var svo heppin að verksmiðjueigandinn Colley Shorter sá að eitthvað bjó í henni og bauð henni vinnu við mótun. Karlmenn voru í því hlutverki á þessum árum og hún eina konan. Mynstur, litir og form voru mjög fastmótuð og því trúað að matar- og kaffistellin ættu að vera klassísk og erfðagripir. Clarice vildi hins vegar dreifa gleði og fegurð inn í líf allra, bæði verkalýðsins og efri stéttanna. A.J. Wilkinson, fyrirtæki Colleys, var illa statt á þessum árum, eins og reyndar fleiri verksmiðjur og eigendurnir í leit að einhverri nýung sem gæti fleytt yfir erfiðleikana og skapað auknar tekjur. Clarice fann leið til að nýta vörur sem voru ofurlítið sprungnar en þeim var áður hent og mála með líflegum litum og fjörlegum mynstrum sem voru ekki jafnnákvæm og vönduð og það sem hafði tíðkast fram að því. Þá var hægt að hraða ferlinu og þar með spara peninga.
Í stað þess að framleiða undir þeirra eigin nafni lét Colley henni í té vinnustofu í gamalli verksmiðju sem hann hafði keypt eftir gjaldþrot. Þar var að finna mikið af hvítu postulíni, óskreyttu og fyrstu gripir hennar voru framleiddir undir hennar nafni hjá Newport-verksmiðjunni og komu á markað árið 1928. Clarice var þar með fyrst kvenna í heiminum til að framleiða postulínsvörur undir eigin nafni. Í fyrstu gekk ekkert að koma þeim á markað en Clarice gerði sér ljóst að karlar höfðu ekki smekk fyrir listrænum og glaðlegum vörum hennar en það höfðu konur. Hún fann því nýstárlega leið til að markaðssetja vöruna og ekki vert að spilla fyrir væntanlegum áhorfendum myndarinnar með því að segja frá hvernig hún var.
Clarice var framsýn og gerði sér ljóst að hversdagslegir búsmunir gátu verið listrænir og fagrir og hún sagði sjálf að draumur sinn væri að koma list til almennings. Hún lék sér þess vegna ekki síður með form en liti. Bizarre kallaði hún fyrstu línuna en seinna átti hún eftir að sækja sér innblástur í verk expressjónista, kúbista og tónlist Ravels. Leir- og postulínsmunir Clarice voru fyrstu Art Deco heimilisvörurnar sem komu á markað á Englandi. Bollar hennar, diskar, tekatlar, könnur, vasar og krúsir voru einnig ódýrari en hefðbundin matarstell. Sú staðreynd varð til þess að A.J. Wilkinson-verksmiðjan stóð af sér kreppuna miklu í Bretlandi meðan ótal aðrar fóru á hausinn og í raun var fótunum nánast kippt undan iðnaðinum meðan hún varði.
Fór í listaháskóla
Colley kostaði hana til náms í the Royal College of Art í London og kom upp stúdíói fyrir hana þar sem hún vann að hönnun sinni og valdi sér verkakonur að vinna með. Andinn var einstaklega góður í stúdíóinu hennar og mjög eftirsótt að komast þar að. Margar þeirra kvenna sem voru svo heppnar töluðu síðar við fjölmiðla og lýstu því að ólíkt öðrum sambærilegum vinnustöðum á þessum árum var bjart og hlýtt í stúdíóinu. Þar voru einnig blóm í vösum, nóg pláss og spjallað, hlegið og sungið án þess að fundið væri að við konurnar.
Það er Phoebe Dynevor sú sem lék Daphne í Bridgerton leikur Clarice en Colley Shorter leikur Matthew Goode. Í raunveruleikanum voru þau Clarice og Colley ástfangin og áttu í ástarsambandi í mörg ár. Þegar kona hans lést árið 1940 gengu þau í hjónaband. Hann var sautján árum eldri en hún og lést árið 1964. Þá seldi hún verksmiðjuna og dró sig í hlé. Hún bjó eftir það ein í Chetwynd House, heimili þeirra þar til hún lést skyndilega árið 1972.
Í dag eru verk hennar fremur sjaldséð og því safngripir og mjög eftirsóttir um allan heim. Sumir seljast fyrir metfé. Meðal annars má nefna að árið 2003 seldist fat, inniblásið af málverkum Modigliani hjá Christies frá árinu 1933 fyrir 39.950 pund, tekatlar hafa farið á 3000 dollar, vasar á allt að 10.000 dollara og drykkjarkönnur á bilinu 975-1800 dollara. Marga muni eftir hana má sjá í The Victoria and Albert Museum og the Metropolitan Museum í New York.
Mikið um falsanir
Vegna þess hve vinsæl hún hefur orðið á síðustu árum hefur töluvert verið gert af því að falsa gripi í hennar stíl og reyna að selja þá sem ekta. Nokkrir stimplar voru notaðir til að merkja vörur hennar meðan gripirnir voru enn í framleiðslu og sérfræðingar eiga yfirleitt mjög auðvelt með að þekkja blekið og stafagerðina sem notuð var. Það flækir hins vegar málið að sumt var alls ekki merkt. Þegar pöntuð voru heil matar- eða kaffistell var til dæmis stundum aðeins einn hlutur í stellinu merktur. Bizarre-línan var í framleiðslu frá 1928-1937 og þar kemur nafnið hennar ævinlega fyrir í merkingunni undir nafni verksmiðjunnar. Frá 1937-1963 var nafni verksmiðjunnar sleppt og nafn hennar haft eingöngu. Þegar Midwinters keypti verksmiðjuna af henni hættu þeir alveg að framleiða vörur hennar.
Framleiðsla á leirvörum og postulíni hefur mikið minnkað í Bretlandi á undanförnum árum en áhuginn á skapandi leirlist hefur síst minnkað. Um það vitnar ekki hvað síst þættirnir The Great Pottery Throwdown en þar keppa áhugamenn í keramíklistinni um hver verður Potter of the Year. Leirtau og leirvara af margvíslegu tagi er líka vinsæl söfnunarvara og verðmæti eldri leirmuna eykst stöðugt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna.