Króna á móti krónu skerðingin var aflögð 2017

Það er mikið talað um krónu á móti krónu skerðinguna hjá eldri borgurum  í almannatryggingakerfinu.  Það er hins vegar misskilningur að eldri borgarar búi við krónu á móti krónu skerðingu. Þeir gerðu það, en hún var felld niður með breytingum á  almannatryggingalögunum sem tóku gildi 1.janúar 2017. Öryrkjar búa hins vegar ennþá við krónu á móti krónu skerðingu. Hæstu mögulegu ellilífeyrisgreiðslur sem Tryggingastofnun greiðir eldra fólki í sambúð eru núna 248.105 krónur á mánuði sem hækkar þó ef viðkomandi ákveður að fresta töku ellilífeyris. Þeir sem búa einir fá hins vegar svokallaða heimilisuppbót til viðbótar sem gerir 310.800 krónur á mánuði.

Margir eftirlaunamenn eiga einhvern lífeyrissjóð og sumir vinna lengur en til 67 ára. Það er í þeim tilvikum sem tryggingakerfið fer að verða flókið.  Eftirlaunin frá ríkinu lækka þegar menn eru farnir að hafa tekjur annars staðar frá.  Enn aðrir hafa það háar tekjur að þeir fá engar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þeir sem eru er með 576.344 krónur á mánuði, eða meira fá ekkert frá almannatryggingum. Fjármálaráðherra hefur sagt að almannatryggingakerfið sé öryggisnet fyrir þá sem engar aðrar tekjur hafa, en lífeyrissjóðakerfið eigi að sjá um hina. Og það mun lífeyrirkerfið líklega gera, en ekki fyrr en eftir um það bil 15-20 ár.  Þá fyrst verður það fullþroskað. Á meðan búa flestir eldri borgarar við flókið kerfi skerðinga og skatta – og una því illa.

Þótt krónu á móti krónu skerðingin sé horfin, eru skerðingar ennþá miklar í kerfinu. Lífeyrissjóðstekjur skerða þannig greiðslurnar frá Tryggingastofnun um 45% og hafi menn atvinnutekjur yfir 100.000 krónur á mánuði, þá skerðast þær einnig um 45%, það er að segja allar atvinnutekjur umfram 100.000 krónurnar. Það eru nefnilega frítekjumörk í kerfinu, þannig að menn geta haft 100.000 krónur aukalega í atvinnutekjur, áður en þær fara að „skerða“ eða lækka greiðslur Tryggingastofnunar. Þá eru sameiginleg frítekjumörk 25.000 krónur þegar kemur að lífeyristekjum og fjármagnstekjum.

Grái herinn undirbýr dómsmál, til að fá úr því skorið,  hvort það standist stjórnarskrá að eldra fólk sé þannig tvískattað, bæði hjá Ríkisskattstjóra og Tryggingastofnun. Hvort það standist til að mynda meðalhófsreglu og jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Efnt verður til fjársöfnunar til að standa straum af málskostnaði, bæði meðal Félaga eldri borgara í landinu, verkalýðsfélaga og almennings

Ritstjórn apríl 30, 2019 00:50