Mikilvægt að búa sig vel undir þriðja æviskeiðið

Gera þarf fólk meðvitaðra um mikilvægi þriðja æviskeiðsins og undirbúningur fólks fyrir það verður að hefjast fyrr en reyndin er í dag. Þetta er meðal niðurstaðna í fyrsta áfanga BALL verkefnisins og var kynnt fyrir Eygló Harðardóttur velferðarráðherra í dag. BALL stendur fyrir Be active through lifelong learning. Verkefnið fjallar um hvernig skuli staðið að undirbúningi þriðja æviskeiðsins, eða áranna eftir fimmtugt.

Forystumenn U3A ásamt Eygló Harðardóttur velferðarráðherra við afhendinguna í dag

Forystumenn U3A ásamt Eygló Harðardóttur velferðarráðherra við afhendinguna í dag

Staða fólks á þriðja æviskeiðinu

Verkefnið er stutt af Erasmus+ áætlun Evrópusambandisns en að því standa auk Íslendinga, aðilar í Póllandi og á Spáni. Ísland veitir verkefninu forystu og er verkefnisstjórnin í höndum ráðgjafafyrirtækisins Evris. Fagleg vinna er í höndum samtakanna U3A Reykjavík og systursamtaka þeirra í samstarfslöndunum. Ráðherra voru í dag afhentar tvær skýrslur, annars vegar um stöðu fólks á þriðja æviskeiðinu á Íslandi og hins vegar um samanburð milli landanna þriggja.

Lykill að ánægju og árangri

Um niðurstöðuna segir í fréttatilkynningu frá U3A í Reykjavík.

Meðal niðurstaðna er að skapa verði aukna meðvitund um mikilvægi þriðja æviskeiðsins. Undirbúningur fyrir þetta tímabil í lífi fólks verði að hefjast fyrr en reyndin er í dag. Sá undirbúningur verði að taka mið af þörfum einstaklingsins með hvatningu til umhugsunar um eigin stöðu. Þá er mikilvægt að fólk sé vel undirbúið undir þær breytingar sem verða á lífi þess þegar eftirlaunaaldurinn nálgast og líti á þetta tímabil sem tækifæri. Virkjun hugans er lykill að ánægju og árangri og hvetur til nýrra dáða.

Fólki á þriðja æviskeiði fjölgar hratt

Þá segir einnig að vonast sé til að Ball verkefnið og niðurstöður þess geti nýst íslenskum stjórnvöldum við stefnumótun og nauðsynlegar aðgerðir í þessum mikilvæga málaflokki. Hlutfall þeirra sem teljist á þriðja æviskeiði vaxi hratt og nauðsynlegt sé að taka mið af því á mörgum sviðum samfélagsins.

Annar áfangi BALL verkefnisins er víðtæk viðhorfskönnun á Íslandi, Spáni og í Póllandi sem stendur næstu vikur. Í þriðja áfanga verða þróaðar leiðbeiningar fyrir atvinnuveitendur og endurmenntunarmiðstöðvar. Verkefnið hóst haustið 2014 og lýkur haustið 2016.

 

Ritstjórn mars 25, 2015 18:13