Krónan ekki sú umgjörð sem er nauðsynleg

Í flestum tilfellum er án efa ærið verkefni að færa í orð ævisögu meðalmanneskjunnar, enda hafa flestir komið víða við í atvinnu- og félagslífi. Þröstur Ólafssonn ræðst hins vegar í það verkefni að skoða og leitast við að skilja þann heim sem hann ólst upp í, mótaði hann sem fullorðinn mann og hvernig hann setti sitt mark á þá veröld sem við búum í. Í endurminningabók hans, Horfinn heimur, fær lesandinn innsýn í stjórnarfar í Þýskalandi og á Íslandi, verkalýðsbaráttu síðustu aldar og stjórnmálasögu lýðveldisins.

Í raun er þetta ekki ævisaga þótt hér sé farið yfir æviatriði þín. Inn í þetta fléttast stjórnmálasaga og mannkynssaga bæði Þýskalands og Íslands. Hvers vegna ákvaðstu að fara þessa leið að efninu?

„Vegna þess að sú saga sem ég hef upplifað hefur verið svo samofin veraldarsögunni og það flókin að hún verður eiginlega ekki skilin nema þú lítir á þetta sem eina heild,“ segir hann. „Til dæmis sá stóri hluti bókarinnar sem ég eyði í umfjöllun um Berlín kemur til vegna þess að mig langaði til að átta mig á þessari borg sem hefur verið örlagaborg Evrópu í styrjöldum. Flest stórstríð Evrópu hafa verið ákveðin í henni og mig langaði að skilja hvers vegna. Mörg af þessum stríðum hafa auðvitað haft áhrif á stöðu Ísland á Norðurlöndum og í heiminum. Mig langaði fyrst og fremst til að reyna að skoða af hverju þessi borg sem ég var þarna kominn til, ungur maður, varð svona mikill áhrifavaldur í Evrópskri sögu.“

Alltaf sundrung í verklýðshreyfingunni

Þröstur fylgir ekki endilega línulegum tíma í bók sinni heldur stekkur stundum aftur til æskuáranna eða fram á við á önnur æviskeið eftir því sem við á þegar hann vill tengja eigin reynslu við atburði úti í heimi. Það er mikill munur á Húsavík æskuáranna, sveitalífinu og mannlífi lítils þorps og Reykjavík. Stökkið er síðan einnig mjög stórt til Vestur-Berlínar á árunum eftir stríð. Hann er hins vegar þekktastur hér á landi fyrir störf sín í þágu Dagsbrúnar og sem aðstoðarmaður þriggja ráðherra. Þú leitaðist við að bæta kjör verkafólks hvar sem þig bar niður. Hvað finnst þér um stöðu þeirra mála í dag?

„Það var svolítið sorglegt að heyra hvað menn eru ósammála,“ segir hann. „En þannig hefur það reyndar alltaf verið í þessari hreyfingu. Menn hafa alltaf verið svolítið sundraðir. Ýmist hefur það verið pólitískt eða kjaralega. Þegar ég var í Dagsbrún fitjaði ég upp á lífskjarasamningum svokölluðum en það snýst um að semja mjög víðtækt um kjör, ekki kauphækkun endilega heldur kaupmátt. Svo voru aðrir sem fannst þetta fyrir neðan allar hellur að menn ætluðu að hætta að fara í verkföll og berjast fyrir sínum kjörum fremur semja um þetta bara þarna við borðið. Þannig að þetta er ekkert nýtt. Það kemur hins vegar við hverja einustu samninga í ljós að kjaramál almennings þurfa miklu róttækari og víðtækari breytingar til þess að eitthvað stöðugt náist út úr samningum.“

Fjölskyldan skömmu fyrir aldamót. Aftast frá vinstri: Klemens Ólafur, Valtýr Björn, Brynjar Snær, Þröstur og Guðríður sem heldur um háls móður sinnar, Þórunnar. Fremstur er Eilífur Örn. (Ljósm.: Leifur Rögnvaldsson)

Örlagavaldurinn króna

Nú ertu sjálfur kominn á eftirlaunaldur og margt eldra fólk hér á landi hefur verið ósátt við kjaraskerðingar lífeyris sem ríkisstjórnir fyrri ára hafa staðið að. Hvað finnst þér um það? Hvernig finnst þér að lifa af eftirlaunum í dag?

„Ég þarf nú ekki að kvarta. Ég hef ágætis lífeyrisréttindi. Hins vegar þekki ég og heyri af fólki sem lepur dauðann úr skel og aðra sem rétt ná að vatna yfir útgjöld með sínum tekjum. Það eru margir sem ekki hafa notið mikils góðs af því sem talið hefur verið góðæri.“

Er eitthvað að þínu mati sem fólk getur gert til að breyta þessu og bæta stöðu sína?

„Ég held að það sé ekkert sem eldri borgarar geti sérstaklega gert. Það þarf hins vegar að búa til alvöru umgerð um þetta efnhagslíf og það er krónan sem alltaf er sá örlagavaldur sem keyrir verðlag upp og kjörin niður. Meðan við höldum í þessa krónu þá verður þetta svona áfram jafnvel þótt við semjum nýja lífskjarasamninga þá duga þeir ekki nema þrjú til fjögur ár. Það er vegna þess að krónan er ekki sú umgjörð og grundvöllur sem þetta efnahagslíf þarf til að standast smá áföll.“

Nú er komin frá þér bók, Horfinn heimur, sem reikna má með að hafi tekið talsvert af tíma þínum undanfarið. Hefur þú einhver önnur áhugamál sem þú stundar?

„Já, já,“ segir Þröstur. „Ég hef stundað skógrækt svolítið, verið að pota niður trjám. Ég hef gaman að lesa og hlusta á tónlist. Ég hef nóg að gera.“

Þröstur þegar hann var lítill drengur á Húsavík.

Konan ýtti honum af stað

Fannst þér gaman að sitja við og skrifa?

„Já, mér fannst það gaman. Ég hafði nú hummaði það fram af mér, enda hafði ég aldrei ætlað mér að skrifa ævisögu mína enda er þetta ekki ævisaga. Þetta eru endurminningar frá liðinni tíð. Konan mín ýtti mér svona soldið út í þetta. Henni leiddist að hafa mig alltaf heima,“ segir Þröstur kíminn. „Henni fannst ég þurfa að gera eitthvað og þá byrjaði ég á þessu.“

Sá heimur sem Þröstur lýsir í bók sinni er vissulega horfinn en engu að síður hafa atburðir og þær hugmyndir sem fæddust á liðinni öld enn áhrif á líf okkar og munu án efa gera það áfram um ókomna tíð. Það er alltaf hollt að líta um öxl og velta fyrir sér hvort menn hafi gengið til góðs og endurminningar manns sem stóð í fremstu víglínu kjarabaráttu og stjórnmálalífs landsins eru fengur ef leitast er við að fá skýra yfirsýn yfir þá veröld sem var.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn desember 22, 2023 07:00