Með nýja strauma í farteskinu

Mótmæli í Vestur Berlín

Í þessum mánuði eru liðin fimmtíu ár, síðan miklar stúdentaóeirðir urðu víða í Evrópu, atburðir sem margir telja marka upphaf 68 byltingarinnar sem svo hefur verið kölluð. Á þessum árum fór bylgja nýrra hugmynda yfir Vesturlönd, hugmynda sem unga kynslóðin tók uppá sína arma, í viðleitni sinni til að breyta stöðnuðu þjóðfélagi.

Vestur-Berlín var suðurpottur nýrra hugmynda

Þröstur Ólafsson hagfræðingur steig út úr lestinni á Zoo-brautarstöðinni í Vestur- Berlín haustið 1961, skömmu eftir að Berlínamúrinn hafði verið reistur í andrúmslofti sem var í senn þrúgandi og frelsandi. Þar umluku hann nýir straumar gagnrýnnar hugsunar þar sem ríkjandi samfélagsskipan var dregin í efa og afneitað. Hann var þangað kominn til að stunda nám í hagfræði við Freie Universsität Berlin. Hann segir að borgin hafi á þessum tíma verið suðupottur nýrra hugmynda og umræðu um samfélagsmál í víðum skilningi. „Þarna voru margir nýflúnir að austan, einnig ungt fólk að vestan  og víða að úr heiminum. Þjóðverjar voru að rísa úr rústum stríðsins, nýbyrjaðir að kynnast neysluhyggju sem dró úr og hafnaði forréttindahugsun á því sviði“

Var pabbi stríðsglæpamaður eða ekki?

Hann segir að á þessum tíma hafi Þjóðverjar ekki verið búnir að gera upp nasistatímabilið. Fyrstu alvöru réttarhöld stóðu yfir í Frankfurt yfir Auschwitz fólkinu,  en uppgjör þjóðarinnar við sjálfa sig var eftir. „Unga fólkið vildi fá að vita hvað pabbi þeirra hafði gert í stríðinu. Hermennirnir þögðu þegar þeir komu heim af vígvellinum eftir styrjöldina. Þessi uppreisn var ekki síst til að kalla fram að hver og einn gerði hreint fyrir sínum dyrum. Þau sögðu að pabbi hefði ekki sagt þeim frá neinu og þau vissu því ekki hvort hann var stríðsglæpamaður eða ekki. Þetta má kalla þetta upphafið að uppgjöri og hreinsun nasismans innan heimilanna“.

Vestur Berlín 1968

Sumir gerðust hryðjuverkamenn

„Síðan breyttist þetta í hreyfingu sem breytir öllum samskipaformum. Samskipti og umgengni verða frjálslyndari, en þegar ég kom til Berlínar 1961 voru þau mjög stíf og höfðu verið það alveg frá aldamótunum 1900. Þú áttir að bera virðingu fyrir þeim sem voru hærra settir, en það fór að breytast. Þessi hreyfing dró öll umgengnisform í efa. Fólk breytti um klæðaburð og virðing fyrir yfirvaldinu varð nánast ekki nein. Þarna var að rísa það frjálslynda Þýskaland sem við þekkjum í dag og það var ekki síst þessari hreyfingu að þakka. En margir í hreyfingunni úrkynjuðust. Sumir gerðust hryðjuverkamenn og náðu ekki að gera annað, en myrða og drepa.  Það var ein kona sem ég kannaðist við í okkar hópi sem endaði í fangelsi fyrir aðstoð við hryðjuverk.“  Þröstur segir að í Þýskalandi hafi þessi hreyfing orðið til í tengslum við háskólana, í Frakklandi hafi hún náð tengingu við verkalýðshreyfinguna, en það hafi ekki náðst í Þýskalandi.

Leyfðu sér að hugsa öðruvísi en pabbi og mamma

Þröstur kom heim frá námi í Þýskalandi, seint á árinu 1968, inn í samfélag sem var staðnað og hafði verið tiltölulega óbreytt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Stjórnmálaflokkarnir voru allsráðandi og stjórnuðu hugsunarhætti fólks og umræðu. „Þannig var samfélagshugsunin föst í ákveðnum hjólförum“, segir hann. „Það sem gerist hér í þeirri pólitísku bylgju sem flæddi yfir öll vesturlönd, var að menn fóru að reyna að hugsa öðruvísi og koma samfélagsumræðunni uppúr gömlu hjólförunum. Stjórnmálaflokkarnir voru ekki lengur þeir einu sem höfðu leyfi til að túlka samfélagið. Menn fóru að leyfa sér að hugsa öðruvísi en pabbi og mamma gerðu“, segir hann.

Námsmönnum var heitt í hamsi

Hann segir að kjarninn í hreyfingunni hér, hafi verið hagsmunabarátta námsmanna erlendis. Eftir tvær gengisfellingar hafi staða þeirra verið orðin bágborin, en tekist hafi að ná fram breytingum sem séu enn í gildi í öllum aðalatriðum.  „Það tókst að fá því framgengt að námslán voru miðuð við framfærslukostnað erlendis, en ekki ákveðna upphæð í íslenskum krónum. Þá var lánsþörf einstaklinga reiknuðút frá eigin aflafé en ekki lengur tekið tillit til tekna foreldra. þ.e. að framfærsla þín varð ekki lengur háð tekjum foreldra þinna, sem gerði til dæmis að verkum að konur sem hugðu á nám urðu frjálsari en þær voru áður.  Þær höfðu ekki haft sömu möguleika til tekjuöflunar í fríum sem strákar og voru því ekki lengur háðar því að fá peninga hjá pabba og mömmu til að fara í  nám“.

Stúdentamótmæli

Tóku sendiráð í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn

Þröstur segir að breytingarnar hér hafi mikið komið með námsmönnum sem voru erlendis og upplifðu þessar hræringar þar. „Eftir 1968 dalar þessi barátta og fer í pólitískan farveg. Græningjar urðu til í Þýskalandi og Willy Brandt tók þessi sjónarmið upp í þýska sósíaldemókrataflokknum. Það var mikill byltingarhugur í mönnum í Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum þegar baráttan hófst. Námsmenn tóku upp merkið hér og tóku sendiráðin bæði í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn“. Þröstur segir að við sendiráðstökurnar hafi fyrst og fremst skapast tækifæri fyrir námsmenn að koma sínum boðskap til skila og þeirri reiði sem ólgaði í þeirra hópi.

Klæðaburður breyttist

Á þessum tíma breyttist klæðaburður ungs fólks og það sást einna best á götum í háskólanum í Berlín. „ Áður voru námsmenn með bindi og í hvítum skyrtum í fyrirlestrum og þurftu að bera ómælda virðingu fyrir kennurunum og titla þá í bak og fyrir, uppá þýska vísu“, segir Þröstur. Slíkt hafi ekki verið jafn stíft hér í okkar litla samfélagi. „Þegar ég útskrifaðist úr Menntaskólanum 1960 voru þéringar nánast aflagðar“, segir hann og bætir við að á þessum tíma hafi menn fyrst og fremst orðið frjálslegri í hugsunahætti og gagnrýni. Það hafi orðið erfiðara að binda fólk á hugsanaklafa flokkanna. „Ég var formaður SÍNE á þessum tíma og hafði málfrelsi og tillögurétt í stúdentaráði og það kom mér á óvart hversu miklir flokkshestar voru í ráðinu, rúmlega tvítugir stúdentar“.

Unga fólkið á Íslandi mótmælti líka

Sóttu nýja strauma til útlanda

Þröstur segir að frjálslyndi í hugsun og klæðaburði hafi ekki breyst í einni svipan, en þetta hafi síast inn. „Heimurinn opnaðist mjög mikið. Eftir að námslánin breyttust, færðist í vöxt að menn færu til náms í útlöndum. Þeir koma svo heim með nýja strauma sem komu af miklu afli inní samfélagið. Á þessum árum spratt jafnréttisbaráttan fram, en hún var þá hvergi til staðar innan gömlu flokkanna. Þáttaka fólks í pólitík jókst,  Laxárdeilan var að komast á skrið og skipulagðir voru stuðningsfundir gegn virkjuninni. Þetta var borgaraleg óhlýðni. Það var mikil þáttaka í fundum. Þar mættu líka stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og það var gaman að sjá fólk byrja að losa sig úr viðjum flokkakerfisins“.

Allir vilja tjá sig

Breytingarnar í kringum 1968 hafa sett mark sitt á líf þeirra sem upplifðu þær og halda áfram að hafa áhrif. „Það má segja, hvort sem mönnum líkar það betur eða ver að þessi framboðafjöldi í  kosningum, sé huti af því frjálslyndi sem náði að skjóta rótum á þessum tíma. Það er þessi opnun hugarfarsins sem er í gangi og allir vilja tjá sig. Svo er það aftur kaldhæðni sögunnar að þetta frjálslyndi skyldi eiga uppruna sinn í frjórri en þröngsýnni  sósíalískri  hugmyndafræði.  Þá hæðist sagan ekki síður að því, að það alvarlega bakslag sem komið er í frjálslynda hugsun skuli koma frá því landi þar sem frjálslyndið var  talið eiga heimilisfesti“.

 

 

Ritstjórn maí 25, 2018 11:55