Stór kaka með vitlausum sneiðum

Grétar Júníus Guðmundsson

Grétar Júníus Guðmundsson verkfræðingur og doktorsnemi skrifar:

Misskiptingin í samfélaginu er að aukast og hún eykst hratt. Þetta er ekki bundið við Ísland, en víða er fólk þó farið að gera sér grein fyrir því að þetta gengur ekki til lengdar. Fátt er þó gert hér til að vinna gegn þessu, nema síður sé.

Talsmenn vinnuveitenda, einhverjir fylgjendur þeirra og helstu ráðamenn, lýstu mikilli ánægju með þá ákvörðun meirihluta formanna verkalýðsfélaga innan ASÍ um daginn, að segja ekki upp kjarasamningum á almennum vinnumarkaði þrátt fyrir forsendubrest og allt það sem kjararáð hafði ákveðið að færa toppum kerfisins umfram það sem aðrir höfðu fengið. Talað var um að formennirnir hefðu tekið skynsamlega ákvörðun. Það er frekar skondin lýsing þegar haft er í huga að það voru óskynsamlegar ákvarðanir varðandi toppana sem voru þess valdandi að formennirnir komu saman yfir höfuð. Að ætlast til þess launafólkið hagi sér skynsamlega á meðan toppliðið gerir það ekki, er eitthvað svo fyrirsjáanlegt. Það var hins vegar ekki fyrirsjáanlegt að formenn verkalýðsfélaga myndu endilega verða við slíkum óskum.

Sumir þeirra verkalýðsleiðtoga sem voru að fjalla um það, hvort segja ætti upp kjarasamningum eða ekki, eru fulltrúar þeirra sem lægst hafa launin í samfélaginu. Það launafólk verður því enn að bíða eftir launum sem gefa möguleika á mannsæmandi lífi. Og þó að það komi þessu ekki beint við, þá gildir það sama um marga ellilífeyrisþega og öryrkja, sem eru enn sviknir um það sem allir hafa lofað þessum hópum. Það er ekki mikið nýtt í þessu. Svona hefur þetta verið og svona verður þetta líklega, enda virðist skilningur ráðamanna á raunverulegum kjörum fólks ákaflega takmarkaður, nema þetta skýrist bara af áhugaleysi. Það er alls ekki útilokað.

Skýringarnar á því hvers vegna kjör þeirra sem minnst hafa eru ekki bætt í alvörunni eru oftast þær sömu og alltaf hefur verið gripið til. Það sé ákveðin kaka til skiptanna, og til að bæta hag hinna verst settu þurfi fyrst að stækka þessa köku. Þetta er enn í dag notað sem afsökun, sem er í raun óskiljanlegt með hliðsjón af því hvað kakan er í alvörunni stór. Að skiptingin geti verið réttlátari en hingað til virðist ekki koma upp í huga þessa fólks. Svo er reyndar vinsælt meðal ráðamanna að nefna aðra skýringu, nefnilega, að kaupmáttur hinna lægstlaunuðu hafi þrátt fyrir allt hækkað meira en annarra. Blöffið í þessu sambandi er auðvitað prósentureikningur. Það vita allir sem vilja vita, að þó hinir lægstlaunuðu fái hugsanlega eitthvað meiri prósentuhækkanir en aðrir, sem reyndar er alls ekki oft, þá fá hinir fyrir ofan alltaf sjálfkrafa meira, í krónum talið, sem er auðvitað það eina sem máli skiptir.

Það er fyrirsláttur að kakan þurfi nauðsynlega að stækka til að hægt sé að bæta kjör þeirra verst settu. Misskiptingin sést út um allt, til dæmis á hafnarbakkanum við Sundahöfn, í sjónvarpsþáttum þar sem fólk er heimsótt sem virðist geta næstum allt og í  fasteignaauglýsingum sem sýna íbúðaverð nánast bara fyrir hátekjufólk, á sama tíma og fleirum og fleirum er gert ómögulegt að eignast þak yfir höfuðið.

Fólk víða um heim gerir sér grein fyrir því að aukin misskipting getur ekki leitt neitt annað en illt af sér. Það stefnir í vitlausa átt í þessum efnum hér á landi. Líklega er þó fáir í eins góðri stöðu og einmitt við til að taka á þessu, vegna þess hve kakan sem við höfum til skiptanna er stór. Það verður bara að skipta henni með miklu réttlátari hætti en gert er.

 

 

 

 

Grétar Júníus Guðmundsson mars 5, 2018 09:18