Krossferð gegn Bítlunum

Hversu mjög sem ungt fólk leggur sig í framkróka við að ná athygli og jafnvel „stuða“ aðra með uppátækjum og orðum, er trúlega fátt sem fær kynslóðina, sem nú er að komast á eftirlaunaaldur, til að hneykslast og býsnast. Enda voru Bítlarnir, Rolling Stones og fleiri hljómsveitir á sama róli hennar átrúnaðargoð og þær lágu ekki á liði sínu við að ögra með klæðaburði, hárgreiðslu sem og fasi og yfirlýsingum af ýmsum toga.

Hugsanlega færi einnig fyrir brjóstið á sumum núna ef einhver heimsfrægur hætti sér út á þær hálu brautir að tala opinberlega um kristni – eða önnur trúarbrögð ef því væri að skipta, á svipuðum nótum og John Lennon gerði, 26 ára gamall, 4. mars 1966. Hann þótti altént hafa farið yfir strikið þegar hann lýsti því yfir í viðtali í London Evening Standard að að Bítlarnir væru vinsælli en Jesús Kristur – eins og það var a.m.k. túlkað.

Raunar vöktu ummælin fyrst í stað ekki sérstaka athygli, menn voru enda orðnir ýmsu vanir þegar Lennon var annars vegar. Það var ekki fyrr en bandaríska unglingablaðið Datebook hafði þau eftir afbökuð og án samhengis í ágúst sama ár, einmitt þegar Bítlarnir voru að leggja upp í sína þriðju og síðustu tónleikaferð til Bandaríkjanna, að fjandinn varð laus þar vestra ef svo má að orði komast. Einkum þó í svonefndu Biblíubelti í Suðurríkjunum.

Bítlaplötur brenndar á báli

Kirkjunnar þjónum víða um heim var að vísu brugðið, en út yfir allan þjófabálk tók þegar alls lags trúarofstækismenn og kverúlantar í Biblíubeltunum sameinuðust í nokkurs konar krossferð gegn Bítlunum. Bannað var að leika bítlalög í útvarpinu, bítlaplötur voru brenndar á báli, blaðamannafundir afboðaðir, haft var í hótunum við þá fjórmenninga og sitthvað fleira miður þekkilegt aðhafst til að lýsa vanþóknun á þessum meintu andkristilegu ummælum. Ku Kux Klan samtökin létu ekki sitt eftir liggja, negldu til dæmis nýjasta bítlaalbúmið upp á trékross og tóku sér síðan ógnandi stöðu við suma tónleikastaðina.

Heimspressan tók við sér og meira að segja Morgunblaðið, sem þá var mest lesna dagblað landsins, fjallaði um málið á forsíðu og sagði snurðu hafa hlaupið á þráðinn varðandi vinsældir Bítlanna, síðhærðu bresku söngvaranna, í Bandaríkjunum. Leiddi blaðið getum að því að áhrif krossferðarinnar breiddust til hinna þéttbýlu ríkja í norðri og vitnað í yfirmann útvarpsstöðvar í Ogdemburg í New York-ríki. Sá kvaðst hvorki æskja þess að börn sín né hlustendur stöðvarinnar, hlýddu á söngvara, sem væru andsnúnir kristninni.

Ókei þá, fyrirgefiði

Tónleikahaldið var vitanlega í miklu uppnámi. Bítlarnir óttuðust morðtilræði trúaröfgamanna og Brian Epstein, umboðsmaður sveitarinnar, íhugaði að hætta við ferðina. Honum snerist þó hugur og flaug þess í stað til New York þar sem hann efndi hann til blaðamannafundar. Epstein deildi harðlega á Datebook fyrir að snúa út úr ummælum Lennons og kvaðst fyrir hönd hljómsveitarinnar harma ef ummælin hefðu með einum eða öðrum hætti sært fólk með „sérstaka trú“ eins og hann orðaði það.

Þótt maður gengi undir manns hönd að leiðrétta misskilninginn og býsna sérkennilegri afsökunarbeiðni Lennons á blaðamannafundi í Chicago, fyrsta viðkomustaðnum, væri sjónvarpað, voru fjarri því allir sáttir. Lennon sagði að líklegast hefði hann komist upp með að segja að sjónvarpið væri vinsælla en Jesús, en lagði þó áherslu á að hann hefði einfaldlega verið að bera saman vinsældir Bítlanna og þverrandi kirkjusókn. Allt saman tómur misskilningur, sagði hann og að meiningin hefði aldrei verið að segja „eitthvað ömurlega andkristið.“ Þegar blaðamaður þrýsti á hann um að biðjast afsökunar svaraði hann: „Ef það gerir ykkur ánægð – ókei þá, fyrirgefðiði.“

Eins og gamlir strangir kirkjuverðir

Mörgum ofbauð atgangurinn og báru blak af Bítlunum. Landi þeirra og blaðamaður á Daily Express sagði hræsina ekki ríða við einteyming hjá Bandaríkjamönnum. Sjálfir stæðu þeir fyrir innflutningi á alls lags menningarfyrirbærum til Bretlands, sem í samanburði fengju Bítlana til að líta út eins og gamla og stranga kirkjuverði. Útvarpsstöð í Kentucky hóf að spila bítlalögin sem aldrei fyrr til að sýna fyrirlitningu á persónugerðri hræsni og Jesúítatímarit nokkurt sagði Lennon einungis hafa staðfest það sem margir kennarar myndu fúslega viðurkenna.

Íslensk dagblöð og útvarpið fylgdust grannt með andstreymi átrúnaðargoða unglinganna og fjölluðu um málið frá ýmsum sjónarhornum. Til dæmis hafði Tíminn eftir danska biskupnum Dons Christensen að Jesús hefði aldrei verið vinsæll og af þeirri ástæðu einni væri hann alveg sammála John Lennon um að Bítlarnir væru vinsælli en Kristur. „Ræninginn Barrabas var einnig miklu vinsælli en Kristur,“ sagði biskup og tók fram að Jesús hefði aldrei gert neitt til að vera það.

Samkvæmt orðanna hljóðan

Byltingarsinninn John Lennon nokkrum áður eftir uppistandið í Bandaríkjunum

Byltingarsinninn John Lennon nokkrum áður eftir uppistandið í Bandaríkjunum

Fjaðrafokið kom Lennon gjörsamlega í opna skjöldu, hann rétt rámaði í viðtalið, enda stöðugt í viðtölum, og var allsendis óviðbúinn að þurfa að greina ummæli sín ofan í kjölinn, hvað þá að neyðast til að biðjast afsökunar á þeim.

Í opnuviðtali hafði blaðamaður London Evening Standard m.a. beðið hann að lýsa trúarsýn sinni í fáum orðum. Svarið er aðeins brot af viðtalinu og birtist orðrétt svona: „Kristnidómur mun líða undir lok. Hann mun skreppa saman og hverfa. Ég þarf ekki að deila um það; ég hef rétt fyrir mér og ég mun reynast hafa rétt fyrir mér. Núna erum við vinsælli en Jesús. Ég veit ekki hvort hverfur fyrr, rokk og ról eða kristindómur. Jesús var allt í lagi en lærisveinar hans voru heimskir og venjulegir. Útúrsnúningar þeirra skemma kristnidóminn fyrir mér.”

Púðurkerlingar

Þótt múgæsingin rénaði var borgarráðið í Memphis í fyrstu ekki á þeim buxunum að leyfa Bítlunum að „nota umráðasvæði borgarinnar sem vettvang til að gera gys að trúarbrögðum fólks“ og lýsti því aukinheldur yfir að Bítlarnir væru ekki velkomnir í Memphis.

Að endingu gaf borgarráð eftir og hljómsveitin steig á svið þann 19. ágúst. Þar eins og í öðrum borgum Bandaríkjanna gengu tónleikarnir stórslysalaust fyrir sig, fyrir utan að einhverjir sáu sér leik á borði og vörpuðu púðurkerlingum á sviðið. Bítlarnir urðu flemtri slegnir og töldu sig hafa lent í skothríð, en létu uppákomuna þó ekki slá sig út af laginu og þraukuðu tónleikaferðina. En þeim var ekki skemmt. Þetta varð þeirra síðasti túr. Eftir að hafa jafnað sig á hörmungunum vestra komu þeir saman og luku við gerð plötunnar Sgt. Pepper’s Lonely Heart Club Band, sem kom út 1967.

Guð blessi Bandaríkin

Þremur árum eftir tónleikaferðina á ferð sinni í Kanada var Lennon spurður út í ummæli sín og upphlaupið, sem þau ollu. Hann kvaðst standa við þá skoðun sína að Bítlarnir hefðu meiri áhrif á unga fólkið en Kristur, kallaði mótmælendurna kristna fasista og kvaðst vera mjög mikið fyrir Krist. „Guð blessi Bandaríkin. Takk Jesús,” sagði hann svo í lokin.

Þegar kannski minni spámaður en John Lennon, Noel nokkur Gallagher í hljómsveitinni Oasis staðhæfði árið1997 að Oasis væri „stærri en guð” fór enginn á límingunum svo vitað sé. Og hann ekki til Biblíubeltisins.

 

 

 

 

Ritstjórn ágúst 18, 2014 11:15