Viðsjálir dægurlagatextar

Þegar undirrituð var að alast upp hljómaði oft í útvarpinu lagið, Heilsaðu frá mér, með Elly Vilhjálms. Mér heyrðist söngkonan ævinlega segja, glenntu fuglinn góður gamlan föður minn, móður mína og bróður gleðji söngur þinn. Þetta var mér tilefni mikilla vangaveltna um hvernig fugl gæti glennt mann í sundur. Helst datt mér í hug að honum væri ætlað að fá manninn til að glenna upp augun eða glenna sig eitthvað án þess að ég skildi fyllillega hvað eða hvernig hann ætti að fara að því. Það var ekki fyrr en mörgum árum síðar að ég heyrði karl syngja þetta lag með djúpri baritónrödd að ég heyrði að þetta var gleddu fuglinn góður. Þá varð allt skiljanlegra.

Ég er hins vegar ekki ein um að nema ekki rétt það sem sungið er. Dóttir mín söng Maístjörnuna listavel þegar hún var lítil en textinn var í hennar meðförum; „Ó hve létt er þitt skóljóð, ó hve lengi ég beibí, það er vonlaust á glugga, napur vindur sem hvín.“ Kannski ekki alveg fylgt því sem skáldið orti og andinn ekki alveg sá sami.

Vinkona mín trúði mér einhverju sinni fyrir því að hún hafi haft mikið dálæti á Sálinni hans Jóns míns og þegar hún hlustaði á lagið þeirra, Ég þekki þig, fannst henni Stebbi Hilmars, syngja: „Ég þekki þig, og þína langömmu.“ Svona miðað við ættfræðiáhuga Íslendinga gæti það svo sem alveg staðist en réttur er textinn: „Ég þekki þig, og þínar langanir.“

Fann ég bólstraðan stól

Það getur vissulega verið nokkuð lýjandi ganga að arka upp á fjöll og heiðar en  hinn yndislegi skátasöngur, Fram í heiðanna ró kemur vel til skila tilfinningunni að vera ferð um óbyggðir, eða það fannst mér þar til ég heyrði kunningja minn syngja hátt og snjallt: „Fram í heiðanna ró fann ég bólstraðan stól.“ Flestir láta sér nægja að tylla sér á mosaþembu en vafalaust meiri hvíld í að koma sér fyrir í bólstruðum stól.

Lagið Skólaball með Brimkló virðist vera einkar opið fyrir misheyrn því nokkrar útgáfur eru af algengri misheyrn á línunni, Ég missti mig og til hennar gekk. Þeirra á meðal eru:
Ég missteig mig og til hennar gekk, ég hristi mig og til hennar gekk, ég byrsti mig og til hennar gekk, ég gyrti mig og til hennar gekk og eflaust eru þær fleiri afbakanirnar. Lagið Kanínan með Sálinni hans Jóns míns virðist líka sérlega móttækilegt  fyrir túlkunum meðal þess sem hljómsveitarmeðlimir hafa heyrt þegar þeir eru beðnir að flytja þetta stórskemmtilega lag er: „Æ, getið þið sungið, Feita Nína?“ „Væruð þið til í að taka Heybanína?“ „Mitt uppáhald er alltaf Hauka Nína.“ „Mig langar svo að heyra þarna æ, þið vitið, auka lína .. na na na na na nanna.“ Réttur er textinn: „Hei, kanína … nanananananana …“

Enn annað dæmi um texta sem auðveldlega miskilst er Vöðvastæltur með Landi og sonum. Meðal þess sem þar heyrist er: Blómin ráðast á mig, bróðir minn að slá mig, búið er að hrjá mig, jóðin hlaðast á mig en í textanum segir hins vegar: „Lóðin hlaðast á mig.“

Titrandi tær 

„Get ég fengið að heyra lagið Komdu, Hilmar?“ sagði maður nokkur sem hringdi Í Bylgjuna og bað um óskalag. Eftir smáspjall kom í ljós að hann vildi heyra lagið þar sem Nýdönsk syngur: „Konur ilma“.

Þjóðsönginn okkar er ekki sérlega auðvelt að syngja, enda hoppar lagið áttunda á milli, eins og einhver lýsti tónbilinu. Textinn getur líka flækst fyrir sumum … „Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tær,“ söng lítil stúlka í skólakór Austurbæjarskóla fyrir um 80 árum, kórvinkonunum næst henni til mikillar skemmtunar.

Önnur lítil stúlka söng lengi vel:  „Höfuð, herðatré og tær …“ í staðinn fyrir „Höfuð, herðar, hné og tær“.

Vinkona greinarskrifara hafði gaman af því að syngja Bjarnastaðabeljurnar við hin ýmsu tækifæri í æsku og fram á fullorðinsár. Lokalínan var henni þó alla tíð illskiljanleg en hún hélt þó áfram að syngja: „Hún kemur um miðasta spil.“ Mistökin  uppgötvaði vinkonan í kringum fimmtugt eða að kýrin sem vantaði kæmi „um miðaftansbil“.

Lítill sex ára snáði söng svo fallega á tónleikum Tröllalagið þar sem kemur fyrir laglínan „Þau þramma yfir þúfurnar svo fljúga burtu dúfurnar“. Elsku barnið ruglaði textanum þannig að línan varð: „Þau þramma yfir dúfurnar svo fljúga burtu þúfurnar,“ við mikla skemmtun tónlistarkennarans. Líklega eru þau ótalmörg fleiri dæmin um svona misheyrn sem tína má til og skemmta sér yfir en hér verður látið staðar numið í bili.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar með aðstoð Guðríðar Haraldsdóttur blaðamanns.

Ritstjórn júlí 2, 2024 07:00