Þungt á vinnumarkaði fyrir sextuga

Friðbert Traustason

Friðbert Traustason

Starfsmönnum fjármálfyrirtækja hefur fækkað um rúmlega 2.300 frá því  að hrunið varð og þeim heldur áfram að fækka. Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) segir að  uppsagnir síðustu missera hafi einkum bitnað á konum á miðjum aldri eða eldri.

20 til 40 ár í sama banka

Friðbert segir að í fyrstu hrinu uppsagna, í hruninu sjálfu og dagana þar á eftir, hafi skipting milli karla og kvenna verið nokkuð jöfn og yngra fólkið hafi frekar misst vinnuna en þeir eldri. „Síðan hefur rúmlega þúsund verið sagt upp  hjá fjármálastofnunum. Um áttatíu prósent eru konur, meirihlutinn  um og yfir 50 ára,“ segir Friðbert. Hann segir að skýringin á því sé sú að á síðustu árum  hafi um 50 bankaútibúum verið lokað og nær allir eða 9 af hverjum 10 starfsmönnum í útibúunum hafi verið konur.  „Margar þessara kvenna voru búnar að vinna í tuttugu til fjörutíu ár í sama bankanum eða frá því þær luku grunnskólanámi eða stúdentsprófi,“ segir Friðbert.

Hvetjum fólk til að taka hverju sem er

Mörgum kvennanna einkum þeim sem búa út á landi hefur reynst erfitt að fá aðra vinnu. Friðbert segir að SSF  hafi hvatt fólk til að taka hvaða vinnu sem væri. „Við höfum ráðlagt fólki að vera í vinnu við að sækja um aðra vinnu frekar en vera atvinnulaust.  Það er nánast útilokað fyrir fólk sem er fætt um 1960 að fá vinnu ef það hefur verið atvinnulaust í ár eða lengur. Það er okkar reynsla,“ segir hann og bætir við að sé fólk orðið sextugt sé orðið mjög þungt fyrir á vinnumarkaði.

Mikill mannauður

Hann segir að fólk hafi verið duglegt að ganga í hvaða störf sem er, séu þau á annað borð í boði.  Fyrrverandi banakstarfsmenn hafi farið að vinna í verslunum, við ummönnun og á skrifstofum.  „Ég held að sumir atvinnurekendur hafi áttað sig á hvaða mannauður býr í þessu fólki. Þetta er fólkið sem mætir alltaf í vinnuna er nákvæmt í vinnubrögðum og skilar sínu,“ segir Friðbert.

Ritstjórn febrúar 2, 2015 13:27