Ungur, gamall eða bara miðaldra –

Sólveig Baldursdóttir

Á meðan við erum börn getum við ekki beðið eftir því að  eldast nógu mikið til að geta verið gildir þátttakendur í samfélaginu. Svo náum við því takmarki fyrr en varir og „þátttakan“ hefst en þá fylgir oft meiri ábyrgð en við gerðum ráð fyrir. Krafan um að standa okkur hellist yfir. Sumir kikna undan þeirri kröfu og ruglast í rýminu með tilheyrandi afleiðingum en aðrir halda sínu striki. Ástæðan fyrir því af hverju sumum farnast betur en öðrum er ekki alltaf svo augljós þótt búið sé að skilgreina hvað það er sem börn þurfa til að geta dafnað vel. En sem betur fer eru flestir foreldrar sér meðvitaðir og vilja börnum sínum allt það besta en það eru bara ekki allir færir um það.

Það er þetta með ábyrgðina sem hellist yfir þegar barnsárunum sleppir. Og mikið lifandis skelfingar ósköp er gott að bera ekki alla  ábyrgðina á þessum nýfæddu þótt amman og afinn komi oft sterk inn og aðstoði ef þau geta. En þau eru aftur á móti sjálf enn á mótunarskeiði í nýju hlutverki. Nú er ekki um það að ræða að hægt sé að reikna með að amma og afi séu búin að minnka við sig vinnu og hafi því sjálfkrafa meiri frítíma en unga fólkið því nýtt skeið hefur hafist í þeirra lífi líka.

Ungur eða gamall eða bara miðaldra

Nú má segja að í augum margra sé orðið „miðaldra“ nokkurs konar  skammaryrði því það er svo mikið á reiki hvenær miðaldra aldursskeiðið hefst. Sumir vilja alls ekki líta á sjálfan sig sem miðaldra þótt samkvæmt fyrri skilgreiningum sé miður aldur um fertugt. En nú er komið ójafnvægi í aldursdreifingu þjóðarinnar því þeir sem hafa tekið við splunkunýju hlutverki ömmu og afa eiga sjálfir ennþá foreldra á lífi. Einu sinni voru bara til ungir og gamlir en orðið miðaldra varð til síðar og nú sýna nýjar rannsóknir að fólk lítur ekk á sig sem miðaldra fyrr en 55 ára og að hugtakið eldri borgari eigi ekki við fyrr en fólk hefur náð 75 ára aldri. Hugtakið aldraður tekur síðan við en ekki fyrr en níræðis aldri hefur verið náð. En hægt er að fullyrða að flestir þekki í dag marga sem orðnir eru áttræðir og eru enn í fullu fjöri. Svo að þegar allt kemur til alls er það sannarlega einstaklingsbundið hvenær hvert aldursskeið nær okkur. Til að byrja með getum við ekki beðið eftir að verða eldri en á síðari hluta ævinnar finnst okkur tíminn líða hraðar en hann gerði áður. Þá gátum við ekki beðið eftir að verða eldri en nú er ekki um það að ræða að loka augunum fyrir þeirri staðreynd að við siglum öll hraðbyri að því að verða eldri og þar með gömul. En í því felst líka mikil fegurð. Við þurfum bara að koma auga á hana.

Sólveig Baldursdóttir nóvember 29, 2021 14:22