Kvæðakonan góða gerði garðinn frægan í Berlín

Kvæðakonan góða er hópur kvenna sem gerði garðinn frægan í Berlín í sumar. Þangað fóru þær og kváðu á strætum og torgum. Þær stilltu sér meira að segja upp við Brandenburgarhliðið, án þess að gera sér grein fyrir að það er bannað að vera með slíkar uppákomur þar. Þeim var vísað burt af lögreglunni.  En hvaðan kom þessi hugmynd, að flytja íslenskan kveðskap á götum stórborgarinnar? Kristín Jónsdóttir sagnfræðingur og ein kvennanna í hópnum, segir að hugmyndin eigi rætur að rekja til Hallfríðar Gísladóttur sem lést langt um aldur fram. Hún átti sér þann draum að fara út í heim og kveða á stærstu torgum og strætum stórborga. Þegar hún féll frá hétu mágkonur hennar því að láta drauminn rætast. Og til að gera langa sögu stutta, varð þetta að veruleika í sumar, þegar Kvæðakonan góða fór til Berlínar til að kveða í minningu Hallgerðar. Tiltækið vakti athygli, þannig að nú er búið að bóka þær til að kveða við önnur tækifæri og fyrsta „giggið“ hjá þeim verður á Menningarnótt í Reykajvík, þar sem þær munu kveða við Alþingishúsið, Hafnarhúsið og Kjarvalsstaði, en nákvæma dagskrá er að finna á netinu.

Kvæðakonan góða kveður rímur og lausavísur. Elstu vísurnar sem hópurinn flytur eru frá 17. öld og þær yngstu glænýjar. Í rímum er sögð saga og það gera lausavísur einnig. Rímnaskáldin gömlu sóttu efnivið sinn í Íslendingasögurnar, ýmsar aðrar þekktar sögur og ævintýri, en jafnhliða voru ortar lausavísur undir sömu háttum. Vísurnar sem hópurinn hefur valið eru langflestar eftir konur og fjalla um líf þeirra, dagleg störf, náttúrufegurð, tilfinningar eða jafnvel gríska goðafræði. Margar stemmanna sem þær kveða eru gamlar og sumar mjög þekktar, en aðrar eru nýjar og enn aðrar spunnar um leið og kveðið er. Markmið hópsins er að halda menningararfinum okkar á lofti og endurnýja hann um leið.

 

Ritstjórn ágúst 23, 2019 17:16