Eina sem ég sakna er siginn fiskur og svið

Beðið eftir lestinni.

„Mér líður alltaf jafn vel í Berlín. Þetta er indæl borg og nóg um að vera. Það eru tónleikar, leik- og myndlistarsýningar um alla borg,“ segir Kristján E. Guðmundsson fyrrverandi framhaldsskólakennari en hann ákvað að flytja til Berlínar fyrir tveimur árum. Lifðu núna ræddi við hann skömmu eftir að hann flutti og ákvað að slá á þráðinn aftur og athuga hvernig hefði gengið.  Kristján býr í Lichtenberg hverfinu í Austur Berlín. Fékk íbúð á leigu þar þegar hann flutti og hefur búið í henni síðan. „Já alltaf í sömu íbúðinni. Ég hef verið að dunda mér við að laga hana síðan ég flutti. Þegar fólk flytur á milli íbúða hér tekur það allt með sér, eldhúsinnréttingin er þar með talin. Þess vegna eru eldhúsinnréttingar hér yfirleitt ekki veggfastar heldur eru þetta lausar innréttingar. Ég hef verið að setja upp Ikea innréttingu hjá mér. Ef að ég flyt úr íbúðinni hef ég þann möguleika að bjóða þeim sem taka við henni að kaupa innréttinguna af mér.“

Laus við íslenska rokið

Kristján segist ekki vera á þeim buxunum að flytja til Íslands í bráð. „Það er voðalega fínt að búa hér. Hér er maður laus við íslenska rokið og ég sakna þess ekki. Ég fann strax mikinn mun á því hvað eftirlaunin mín dugðu mikið betur hér en heima. Þau duga helmingi betur. Ég fæ hálfgert menningarsjokk þegar ég kem heim og fer að kaupa í matinn. Matur er svo miklu ódýrari hér og það sama má segja flestan annan kostnað. Fatnaður er til dæmis ódýr, allavega svona venjulegur fatnaður eins og ég kaupi. Ég er nú kannski ekki mikið í því að kaupa tískufatnað,“ segir Kristján og hlær. Annað sem honum líkar vel er hversu ódýrt er að fara út að borða. Hér getur maður farið á veitingahús og borðað vel fyrir brot af því sem maður gerir á Íslandi enda fer ég nokkuð oft út að borða. Samt borða ég nú oftast heima þar sem ég hef mjög gaman af að búa til mat.

Frí læknisþjónusta

Hér þarf maður heldur ekki að eiga bíl. Almenningssamgöngurnar eru mjög góðar og ódýrar. Það væri nánast fáránlegt að vera á bíl í Berlín. „Ef mig langar að skreppa eitthvað lengra leigi ég einfaldlega bíl. Það kostar ekki mikið að leigja bíl hér í nokkra daga. Það sama gildir um læknisþjónustu  og lyf. Maður borgar sáralítið fyrir slíka þjónustu. Um leið og ég flutti til Berlínar flutti ég lögheimilið mitt þangað. Það þýddi að ég gekk beint inn í þýska heilbrigðiskerfið. Ég fékk mér heimilislækni sem er stöðugt að sinna mér. Senda mig í allskonar tékk og prufur sem ég þarf ekki að borga neitt fyrir. Hann fylgist mjög vel með heilsu minni. Eftirlaunaþegar borga ekki komugjöld til læknis hér. Aðrir greiða ársfjórðungslega 10 evrur. Það sama gildir um tannlæknaþjónustu hún er ókeypis þegar kemur að venjubundnu viðhaldi á tönnum. En fólk þarf að borga ef það þarf tannplanta eða þarf að fara í aðrar stórar aðgerðir,“ segir Kristján og bætir við að Íslendingar í Berlín sem ekki séu með lögheimili þar geti notað Evrópska sjúkratryggingarskírteinið þurfi þeir að leita læknis. Þeir fái ágætis þjónustu út á það.

Náði góðum tökum á málinu

Kristján var ekkert sérlega sleipur í þýsku þegar hann flutti til Berlínar. „Ég var svona slarkfær, hafði lært þýsku í menntaskóla. Síðar dvaldi ég einn vetur í Berlín var á kúrs í Evrópufræðum en þar töluðu menn nú mest megnis ensku.  Ef maður ætlar að setjast að einhvers staðar er nauðsynlegt að læra það tungumál sem þar er talað, almennilega. Annars einangrast maður og verður aldrei hluti af samfélaginu. Ég ákvað því skömmu eftir að ég flutti að fara á þýskunámskeið. Það gagnaðist mér vel. Ég var með einkakennara og það gekk fínt. Ég náði góðum tökum á þýskri málfræði en þó maður sé búinn að læra hana vel veit maður aldrei hvers kyns orð eru, það hefur reynst mér svolítið erfitt að mörg nafnorð hafa annað kyn í þýsku en í íslensku“ segir hann og bætir við að fyrir þá sem ekki tala þýsku sé Berlín svo alþjóðleg borg í dag að það sé vel hægt að komast af þar með því að tala ensku.

Eftirlaunaþegum fjölgar í Berlín

Sonardæturnar á leið í dýragarðinn með afa.

Kristján segir að honum líki almennt vel við Berlínarbúa. „Þeir eru góðir í viðkynningu. Það orð hefur farið af þeim að þeir séu lokaðir en ég hef ekki orðið var við það. Ég hef alltaf mætt notalegu viðmóti hér. Svo búa hér margir Íslendingar. Það er alltaf að koma nýtt fólk hingað og eftirlaunaþegum frá Íslandi fer fjölgandi. Ég hef kynnst mörgu nýju fólki eftir að ég flutti. Við erum nokkur hér sem hittumst yfir bjór einu sinni í mánuði. Við erum komin með fastaborð á veitingastað þar sem við hittumst. Þar ræðum við heimsmálin og spjöllum um daginn og veginn og rifjum upp gamla tíma. Svo hef ég fengið nokkrar heimsóknir frá Íslandi síðan ég flutti. Maður er langt í frá félagslega einangraður hér.“

Vill hafa árstíðir í lífinu

Eins og heyra má á Kristjáni er hann alsæll með lífið og tilveruna í Berlín. Hann segist hafa viljað flytja eitthvert þangað sem væru árstíðir. „Margir eldri borgar flytja til Spánar. Það á ekki við mig, ég vil hafa vetur, sumar, vor og haust í mínu lífi. Það er meginlandsloftslag í Berlín en veðrið er mjög stillt og gott. Á veturna geta komið miklar frosthörkur en það hefur ekki gerst síðan ég flutti hingað.“  Kristján segist einskis sakna. Hann sé í góðu sambandi við börnin sín og barnabörnin sem búa í Noregi og á Íslandi. Svo sé sáralítið mál að skreppa á milli staða og kosti ekki svo mikið, hann heimsæki börnin og barnabörnin því reglulega. „Það eina sem ég sakna er siginn fiskur og svið,“ segir hann að lokum.

Ritstjórn desember 8, 2017 10:12