Laufey Steingrímsdóttir næringarfræðingur er frábær fyrirmynd

Laufey kímir þegar titillinn ,,næringarfræðingur Íslands“ er nefndur og hefur sínar skýringar á því af hverju hann kom til. ,,Ég kom nefnilega svo snemma inn á þetta svið,“ segir hún. ,,Það voru ekki margir fyrir hér á landi að fjalla um næringarfræði þegar ég kom heim úr námi 1979 með doktorspóf í faginu. Þegar ég hóf svo störf hjá Manneldisráði varð ég yfirleitt fyrir svörum út á við ef upp komu álitamál og þess vegna kom þessi merkilegi titill til,“ segir Laufey og brosir.

Laufey er prófessor emeritus í næringarfræði en hún hefur sannarlega lagt sitt af mörkum á vettvangi næringarfræðinnar í áratugi. Árið 2013 hlaut hún Fjöregg Matvæla- og næringarfæðifélags Íslands (MNÍ) fyrir mikilvægt starf í þágu rannsókna, kennslu og uppfræðslu á sviði næringarfræði. Hún hefur meðal annars unnið mikilvægt frumkvöðlastarf við setningu íslenskra manneldismarkmiða og ráðlegginga um mataræði og næringu. En nú er Laufey hætt að vinna og nýr kafli tekinn við.

Þótti fráleitt að flytja austur fyrir læk

Laufey og Daníel með barnabörnin Líneik Laufeyju og Ask sem þau njóta oft samvista við. Náttúran í kringum nýja heimili þeirra er sannarlega öðruvísi en í Vesturbænum.

Laufey hefur sannarlega umbylt lífi sínu eftir að hún hætti að vinna. Hún er innvígður Vesturbæingur og þótti fráleitt að flytja ,,austur fyrir læk“ þegar stóð til að skipta um húsnæði. En þegar upp kom hugmyndin að flytja úr Vesturbænum í Grafarholtið voru fyrstu viðbrögð hennar: ,,Hver vill nú eiginlega búa svona langt frá Vesturbænum.“ En skoðun hennar breyttist þegar hún fékkst til að skoða íbúð í blokk þar sem sést í fallega náttúruna allt um kring og nú hafa þau hjónin komið sér fyrir á nýjum stað og njóta þess að vera orðin ,,eldri borgarar“. Þau una vel við sitt við að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum einasta degi, og það langt frá Vesturbænum. ,,Það er svo gott að vera ekki fastur í sama farinu á þessum tímamótum og byrja svolítið nýtt og breytt líf í nýju umhverfi. Það er svo hressandi að takast á við eitthvað öðruvísi en maður er vanur.“

Í næsta nágrenni við nýjan samastað segir Laufey að sé stórkostleg íþróttamiðstöð í tengslum við Dalskóla. ,,Þar er flott sundlaug og aðstaða þar sem íþróttafélagið Fram er með sitt aðsetur. Þar er íþróttakennari sem þjálfar okkur og er mjög hvetjandi,“ segir Laufey og er nú alsæl með nýjan samastað.

Tilviljanirnar í lífinu

Líneik Laufey og Askur í ferð með ömmu og afa á Krít fyrir nokkrum árum.

Laufey segir að lífið snúist svo oft um tilviljanir og í hennar tilfelli hafi verið alger tilviljun að hún endaði með því að fara til Bandaríkjanna í líffræði á sínum tíma. ,,Fagið var þá ekki kennt hér á landi en ég hafði fengið styrk eftir stúdentsprófið 1967 til að fara til útlanda til að nema líffræði. Styrkurinn var til Bandaríkjanna en mig langaði miklu meira til Svíþjóðar,“ segir Laufey. ,,Ég afþakkað styrkinn þess vegna en sá mig sem betur fer um hönd og það var hægt að bjarga þessu. Reyndar var það þannig að kennarinn sem hafði átt að svara fyrir mína hönd og segja ,,nei takk“ var sem betur fer ekki mjög skilvirkur eða kannski trúði hann ekki að ég ætlaði að afþakka þennan góða styrk. Þegar ég hringdi í hann nokkrum vikum síðar til að athuga hvort væri hægt að skipta um skoðun sagði hann mér að hann væri nú ekki búinn að afþakka styrkinn enn þá. Það má því segja að allt mitt fullorðinslíf hafi hangið á þessari skemmtilegu tilviljun,“ segir Laufey og hlær. Hún fór þess vegna til Seattle þar sem hún dvaldi í þrjú ár og náði sér í BS í líffræði en þar hitti hún líka eiginmann sinn, Daniel Teague. Þau eiga saman tvö börn, Ellu Björt sem er taugasálfræðingur og Steingrím Teague tónlistarmann. Nú eru fædd tvö  barnabörn sem Laufey segir að auðgi lífið svo sannarlega.

Alveg tilbúinn í ævintýrið Ísland

Þau Laufey og Daníel fóru frá Seattle til Columbia í New York þar sem Laufey lauk doktorsprófi í næringarfræði. Daniel, sem er lögfræðingur, var þá að vinna á Wall Street en þótti spennandi að henda sér í djúpu laugina með Laufeyju og flytja til Íslands þótt hann kynni ekki stakt orði í íslensku. ,,Daniel hefði þurft að fara eins og nýstúdent inn í Háskólann til að ná sér í lögfræðiréttindi hér á landi en var ekkert að standa í því. Hann fékk vinnu hjá ágætu fyrirtæki hér, Hildu hf., og starfaði lengst af hjá þeim og nú síðustu árin við þýðingar,“ segir Laufey.

Fór allra sinna ferða á reiðhjóli

,,Þegar við komum til Íslands byrjaði ég á að kenna við Háskóla Íslands í hjúkrunarfræði, tannlæknadeildinni, matvælafræðinni og í Kennaraháskólanum,“ segir Laufey sem fór á þeim tíma allra sinna ferða á reiðhjóli. Deildirnar sem hún kenndi í voru sannarlega ekki allar á sama stað en hún vílaði ekki fyrir sér að þeytast á milli þeirra á hjóli. ,,Ég var því að kenna næringarfræði úti um allan bæ sem var kannski ekki alveg það sem ég hafði séð fyrir mér en það var allt í lagi, það var mjög fjölbreytt og skemmtilegt.“

Landið og menningin á Íslandi togaði

Laufey fær líka rauðar paprikur og þessi var notuð í salat dagsins.

Ástæða þess að við Íslendingar erum svo heppin að Laufey ákvað að koma heim eftir nám er að hún segist ekki hafa getað hugsað sér að ala upp börn í Bandaríkjunum. ,,Mér þótti samfélagið betra hér. Ég átti seinna eftir að komast að því að það eru staðir í Bandaríkjunum þar sem er yndislegt að vera með börn, stórkostlegir skólar og vel haldið utanum barnafólk en það sama er ekki hægt að segja um marga aðra staði þar. Öll félagsleg réttindi eru á verulega lágu plani miðað við það sem við erum vön. Við Daniel fórum seinna í rannsóknarleyfi til Madison og þá áttum við orðið tvö börn og þar var dásamlegt að vera. Þegar við komum aftur til Íslands var ég ráðin til Manneldisráðs og eftir það var ég lengi vel talsmaður næringarmála á Íslandi. Þá var ég fulltrúi hins opinbera og talaði fyrir alls konar hollustumálum. Það var mjög skemmtilegur tími og ég og Hólmfríður Þorgeirsdóttir unnum saman að ýmsum áríðandi og áhugaverðum málum. Seinna var Manneldisráð lagt niður sem sjálfstæð stofnun og Lýðheilsustofnun komið á laggirnar og þá fluttum við þangað. Eftir nokkurn tíma þar fór ég að vinna við Landbúnaðarháskólann en fór svo aftur til Háskólans og var þá búin að loka hringnum og nú er ég Prófessor Emeritus,“ segir Laufey og bætir brosandi við að hún hafi aldrei haft svona glæsilegan titil.

Sjálfboðaliðastarf gefandi

Laufey heyrði frá kunningjakonu sinni af starfi hjá Rauða krossinum og þótti áhugavert að leggja lið. ,,Þetta er verkefni sem heitir ,,tölum saman“. Þá parast maður við útlending sem vill læra íslensku og í mínu tilfelli var það ung, þriggja barna móðir frá Sýrlandi. Hana langar til að vinna á leikskóla en af því hún á svo lítið barn hefur hún ekki getað farið út á vinnumarkaðinn enn þá. Þetta er yndisleg stúlka og við erum orðnar mjög góðar vinkonur. Við hittumst einu sinni í viku og spjöllum og þótt þetta verkefni Rauða krossins sé búið höldum við áfram að hittast vikulega. Þetta er mjög elskulegt fólk sem vill spjara sig og mjög ánægjulegt að aðstoða þau.

Áhuginn á umhverfismálum og Aldin

Laufey gekk fyrir nokkru í félagsskap sem ber nafnið Aldin. ,,Ég gekk í þennan félagsskap af því að ég hef lengi haft áhuga á umhverfismálum. Það tengist líka rannsóknum mínum í næringarfræði sem fóru í seinni tíð að sveigjast að umhverfismálunum af því næringin og umhverfismál tengjast mikið. Ég rak einn daginn augun í mynd í blaði þar sem ég sá gamlan skólabróður, Ludvig Guðmundsson lækni, þar sem hann var að störfum í þessum umhverfishópi. Ég hafði samband við Ludvig og hann hvatti mig eindregið til að koma á fund þar sem þau hittast einu sinni í mánuði í Neskirkju. Ég fór á einn fund og það var ekki að sökum að spyrja að ég gekk í þennan félagsskap. Þarna var skemmtilegt og áhugavert fólk sem allt brennur fyrir umhverfismálum. Allt þetta fólk er  komið yfir miðjan aldur og hefur látið til sín taka í samfélaginu og vill vera virkt áfram. Þetta er kynslóðin sem hefur komið okkur á þann stað sem við erum á núna, er reynslunni ríkari og veit að við getum ekki haldi áfram  á sömu braut. Ég fann mig strax í þessum hópi og var umsvifalaust sett í hóp sem skrifaði grein um gjaldfrjálsar máltíðir í grunnskólum og var birt nýlega á Vísi. Það er svo mikil þekking og reynsla í þessum félagsskap þar sem kemur saman öflugt og kraftmikið fólk. Það skiptir svo miklu máli að eldra fólk vinni alls konar sjálfboðaliðastarf því þarna er samankominn hópur sem hefur tíma, þekkingu og reynslu og þeir yngri ættu að geta nýtt sér,“ segir Laufey ákveðin.

Hefur verið í kórum frá barnæsku og er enn

Laufey hefur alla ævi verið í kórum og á fullorðinsárum hefur hún verið í stóru kórunum eins og Fílharmoníukórnum og Mótettukórnum en nú er hún orðin of gömul til að geta verið í þeim kórum. ,,Það var visst áfall þegar ég áttaði mig á því að það væri aldurstakmörk inn í kóra af því þetta er tómstundastarf margra. Það er öðruvísi þegar vinnan segir að nú sé kominn tími til að draga sig í hlé en ég varð bara svolítið döpur þegar ég varð fyrir þessari höfnun. En þá var það að Sigrún systir mín, sem organisti og mikil kórsöngkona sem sagði við mig: ,,Laufey, ég veit um kór þar sem þú getur notið þín og er gaman að taka þátt í.“ Og það reyndist sko alveg rétt. Þetta var Valskórinn sem er í tengslum við íþróttafélagið Val. Ég hef aldrei á ævinni verið í íþróttafélagi en þarna fann ég yndislegt samfélag og kórstjóra sem er ekki síðri og er Bára Grímsdóttir tónskáld. Það er mjög gaman að hitta þau einu sinni í viku og Bára er metnaðarfull án þess að setja of mikla pressu á okkur. Við syngjum alls konar lög, alltaf eitthvað eftir Báru og svo fórum við til dæmis til Vestmannaeyja með tónleika og þá voru auðvitað sungin Eyjalög. Við erum  alltaf að syngja  skemmtileg lög og flytja fallega tónlist þótt við séum ekki að syngja Bach og þessi stóru kórverk sem var líka skemmtilegt að taka þátt í. En nú er bara hafið nýtt tímabil,“ segir Laufey og er mjög ánægð með það.

Hópurinn fór til Madeira fyrir tveimur árum og voru hér tilbúnar með atriði sitt.

The Golden Age Gym Festival

Laufey hefur stundað leikfimi hjá Hafdísi í Kramhúsinu áratugum saman þar sem sami hópur hefur verið allan tímann undir stjórn Hafdísar. ,,Við höfum verið svo lengi saman í þessari leikfimi að hópurinn hvílir á mjög sterkum grunni. Við vorum til dæmis að koma úr gönguferð norður í landi og fram undan er ferð á ,,The Golden Age Gym Festival“ sem haldið er annað hvert ár. Það er Fimleikasamband Evrópu sem stendur að þessu og þar koma saman fimleikahópar eldri borgara og sýna atriði. Þetta er yfirleitt haldið á einhverjum skemmtilegum strandstað í Evrópu og hefur alltaf verið gífurlega vel heppnað. Við réðum okkur til dæmis flottan danshöfund með Hafdísi til að semja atriði og æfa okkur í danssporum og það var meira að segja frumsamin tónlist,“ segir Laufey og skellihlær. ,,Nú erum við að byrja að æfa fyrir næstu hátíð sem verður haldin í Burgas í Búlgaríu í septemberlok. Svo nú erum við að byrja að æfa atriðið okkar.

Auðvitað eigum við að gera allt sem er skemmtilegt á meðan heilsan heldur,“ segir þessi jákvæða og hressa kona sem hefur sannarlega lagt sitt af mörkum í næringarmálum okkar Íslendinga.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn ágúst 26, 2024 07:00