Leikur Lé konung 82 ára

Leikarinn góðkunni, Christopher Lloyd, sem eldri kynslóðir þekkja best úr kvikmyndunum Aftur til framtíðar (I, II og III), er enn að leika karlpersónur sem virðast hafa tapað glórunni. Um þessar mundir er hann að túlka Lé konung á sviði hjá Shakespeare & Company í Lenox í Bandaríkjunum. Hann er hins vegar orðinn 82 ára, og þó að leikpersónan sé einnig á níræðisaldri er hlutverkið svo erfitt að oftast leika það miklu yngri menn.

Í viðtali við Washington Post á dögunum segir Lloyd að hann hafi vitað að Lér myndi taka á. „En ég fann á mér að ég gat mætt dýrinu á mínum forsendum.“ Flestar sýningar hafa verið uppseldar og lofsamlegir leikdómar birst í helstu blöðum. The Wall Street Journal sagði einfaldlega: „Stórkostlegur flytjandi.“

Leikur oftast utangarðsmenn og þorpara

Allar götur frá því að Lloyd lék raflostssjúklinginn Taber í One Flew Over The Cuckoo’s Nest — kvikmynd sem vann til fimm Óskarsverðlauna, sem er ekki slæmt fyrir fyrstu mynd — hefur leikarinn haldið sig við hlutverk utangarðsmanna og þorpara sem flestir eru á mörkum hins byggilega heims: Doc Brown (Aftur til framtíðar) séra Jim (Taxi), Fester frænda (Addams-fjölskyldan) og Doom dómara (Who Framed Roger Rabbit).

Í hlutverki Festers frænda í kvikmynd um Addams-fjölskylduna frá 1993. Paramount Pictures/Getty Images.

Látum aðra um að túlka sætu strákana í stjörnuhlutverkunum, segja vinir hans og samstarfsmenn — og aðdáendur sömuleiðis. Hlutverk Lloyds hafa öll verið keimlík og festust að lokum á honum. Hár og renglulegur virðist hann hafa lært að fela sjarmann og verða skrýtni gaurinn í kvikmyndaheiminum. Munngeiflur og vöðvakippir eru vörumerki hans. Hann hefur líka alltaf átt auðvelt með að leika sér miklu eldri menn. Hann var ekki orðinn fertugur þegar hann lék vísindamanninn sérvitra Doc Brown fyrst.

„Mér líka áskoranirnar sem felast í því að gera slíkar persónur raunverulegar og trúverðugar, þannig að áhorfendur sjái eitthvað af sjálfum sér í þeim,“ segir Lloyd.

Leikarinn hefur fengið hláturinn ríkulega að launum. Hann hefur hins vegar sjaldan fengið kossinn. Hann var orðinn 52 ára þegar hann fékk loks að leika einhverja rómantík, en það var í þriðju myndinni af Aftur til framtíðar, á móti Mary Steenburgen. Þá er að vísu ótalið hlutverk hans í Star Trek III þar sem hann lék kaftein Kruge. Þar á hann í rómantísku sambandi við konu sem hann hittir aldrei í eigin persónu — og sprengir að lokum í loft upp.

Öðru máli gegnir um raunheima. Í einkalífi hreppir hann jafnan stúlkuna. Og ekki bara einu sinni og ekki tvisvar. Hann hefur átt fimm eiginkonur og er nú kvæntur Lisu Loiacono fasteignasala, en þau hafa verið saman í 17 ár. Lloyd segir kíminn að hún sé „núverandi eiginkona og til allrar framtíðar“.

Dáður af samstarfsfólki

Mótleikarar Lloyds bera honum vel söguna. Michael J. Fox, meðleikari hans og félagi í því sem nú virðist vera orðið að hálfgerðri verksmiðju — Aftur til framtíðar ehf. — segir: „Það er bara öðruvísi að vinna með Lloyd en öðrum. Hann er snillingur í að skipuleggja sýningu.“

https://youtu.be/HV6wO_UVfWo

„Chris var alltaf sá rólegasti í hópnum,“ segir Marilu Henner, meðleikari hans í Taxi. „En hann var alltaf sá sem virtist vera best með á nótunum.“

„Hann er eins og lítill strákur þegar hann er að vinna,“ segir Danny DeVito, sem lék með Lloyd í Cuckoo’s Nest og Taxi. „Ég held að Chris hafi aldrei þurft að sviðsetja neitt. Hann vill bara komast út að leika sér með leikföngin sín. Hann setur alla orku sem hann á til í hvert hlutverk.“

Lloyd hefur hreppt þrenn Emmy-verðlaun og leikið í þremur stórmyndum (Cuckoo’s Nest, Back to the Future, Roger Rabbit). Hann tekur þó einnig að sér hlutverk í alls kyns léttmeti í kvikmyndaheiminum. Hann er ekki snobbaður. Kruge er meðal uppáhaldshlutverka hans. „En,“ segir hann, „ég verð að finna að ég ræð við hlutverkið og geti gert eitthvað með það. Svo kærulaus er ég ekki.“

Fjölbreyttur leiklistarferill

Eins og margir aðrir leikarar byrjaði Lloyd á Broadway. Snemma á ferlinum velti hann því fyrir sér hvort hann yrði undirlaunaður sviðsleikari um aldur og ævi. En síðan hann lék í Cuckoo’s Nest hefur hann í raun setið við háborðið í leikarastéttinni.

„Ég var svo þakklátur að fá vinnu og er enn. Þegar umboðsmaður minn slær á þráðinn til mín slær hjartað örar,“ segir Lloyd. „Ég get ekki beðið eftir að opna handritið og sjá um hvað það snýst.“

Lloyd hefur einnig lesið inn raddir á tölvuleiki, þar á meðal nokkra fyrir Back to the Future-verkefnið. Meðal nýlegra verkefna er jólamynd frá Hallmark, Next Stop Christmas, þar sem hann leikur lestarstjóra. Þá er hann að leika í The Tender Bar, kvikmynd sem George Clooney leikstýrir með Ben Affleck í aðalhlutverki og er væntanleg síðar á árinu.

Ævintýrið sem engan enda tók

Þegar Aftur til framtíðar fór af stað var Lloyd tregur til að fara í áheyrnarprufu. „Hann hafði efasemdir um myndina,“ rifjar leikstjórinn, Robert Zemeckis, upp. „Ég spurði hann spurninga og hann svaraði með einu orði. Hann var mjög feiminn. En við vissum það strax. Hann var sá rétti. Þetta var Doc Brown,“ segir Zemeckis.

Skemmst er frá því að segja að myndin sló algjörlega í gegn. Þetta varð vinsælasta myndin í Bandaríkjunum árið 1985 og seinna tvær framhaldsmyndir, sem enn laða að sér nýjar kynslóðir áhorfenda. „Vinsældir þeirra eiga ekki eftir að dvína,“ fullyrðir Lloyd. „Þær hafa svo mikið aðdráttarafl. Þær virkja ímyndunaraflið og eru rómantískar.“

Lloyd segist ekki hafa neina löngun til að setjast í helgan stein. „Það hyggst ég ekki gera fyrr en ég hætti að komast á tökustað,“ segir hann. „Þetta er nauðsynlegt. Þetta er tjáningarmáti minn, rétt eins og tónlistarmaður getur ekki hætt að senda frá sér einhver hljóð. Hvers vegna ætti maður ekki að reyna að fá eins mikið út úr þessu og maður getur á meðan maður getur?“

Tækifærin eru mörg. Nema eitt tækifæri hefur honum ekki hlotnast. „Ég myndi aldrei hafna aðalhlutverki,“ segir hann. „Sérstaklega ekki rómantísku karlhlutverki, þar sem persónan er ekki sturluð og ræðst ekki á vindmyllur.“

„Það er enn tími,“ segir hann vongóður. „Þetta væri áskorun, því ég hef ekki leikið nein slík hlutverk enn. Ég myndi vafalaust læra eitthvað.“


Þessu skylt:


 

Ritstjórn september 2, 2021 07:00