Leikstýrir nýrri kvikmynd 91 árs og leikur aðalhlutverkið

Clint Eastwood er líklega elstur allra til að leika aðalhlutverk í kvikmynd og leikstýra samtímis, en hann er nú orðinn 91 árs. Nýjasta kvikmyndin, sem tekin verður til sýninga vestanhafs síðar í mánuðinum, heitir „Cry Macho“. Þar gerir Eastwood hvorttveggja í senn, að ríða hesti og gefa á kjaftinn, eins og honum einum er lagið.

Leikarinn var að vísu að stíga á bak í fyrsta sinn síðan í „Unforgiven“ — í þrjátíu ár. „Kjaftshöggið er kannski ekki eins tilkomumikið og áður, en það var sannarlega ánægjulegt,“ segir leikarinn í nýlegu viðtali við Los Angeles Times um nýju kvikmyndina.

Eastwood neitar að láta aldurinn hindra sig í því að gera það sem hann hefur mesta ánægju af. „Hvað með það þótt ég líti ekki út eins og þegar ég var tvítugur? Það merkir bara að það eru fleiri áhugaverð hlutverk sem ég get leikið,“ segir Íslandsvinurinn kokhraustur.

Fyrsta kvikmyndin sem Eastwood leikstýrði, „Play Misty for Me,“ er orðin hálfrar aldar gömul. Þegar hann er spurður hvort eitthvað hafi breyst, ypptir hann bara öxlum. „Ég hugsa aldrei um það. Ef ég er ekki lengur sami gaurinn, þá vil ég helst ekkert um það vita. Mér gæti mislíkað hann.“

„Cry Macho“ er unnin upp úr samnefndu handriti eftir bandaríska leikritahöfundinn N. Richard Nash. Söguhetjan er uppgjafa ródeó-knapi, Mike Milo, sem fellst á að hjálpa fyrrverandi yfirmanni sínum að bjarga syni hans frá Mexíkó.

Söguhetjan hefur fengið nóg af karldýrkun ródeó-leikjanna. Knapinn sigursæli neyðist til að horfast í augu við aldurinn og hvernig möguleikar á breytingum og endurnýjun hafa runnið honum úr greipum.

Myndin er sögð hafa á sér annað yfirbragð en fyrri kvikmyndir Eastwoods, hún sé bæði ljúfsárari og einlægari. Í myndinni er þó einnig spenna og hamagangur, kúrekinn gamli á mölinni þverskallast við bófalýðinn og brúkar kjaft.

Ritstjórn september 16, 2021 07:00