Ófelía orðin sjötug

Úr leynigarðinum

Úr leynigarðinum

Bakhúsin á Laugaveginum eru heill heimur útaf fyrir sig. Það er bara að smeygja sér í gegnum port og iðandi verslunargatan breytist í ævintýraheim gamalla húsa og garða. Þórunn Magnea Magnúsdóttir leikkona býr í einu þeirra. Þórunn fæddist á Lindargötunni í húsi langömmu sinnar sem var númer 29. Langafi hennar og langamma áttu tvö samliggjandi hús í götunni, númer 27 og 29 og bjuggu i sitt hvoru húsinu. Þórunn segir að þegar hún flutti á Laugaveginn í hverfið þar sem hún fæddist, hafi henni þótt sem hringnum væri lokað. Það er garður í kringum litla bakhúsið. „Frændi minn kallar hann leynigarð Tótu“, segir Þórunn þegar blaðamaður Lifðu núna kemur í heimsókn til hennar.

Leikur í nýjustu mynd Baltasars

Þórunn Magnea býr til kaffi og á meðan hún er að bauka í eldhúsinu, segir hún að það hafi verið himnasending að Leikhúslistakvennahópurinn 50 plús var stofnaður. „Þar með fékk ég að gera það sem ég elska“ segir hún. En Þórunn sem á að langi langan og farsælan feril sem leikona, er enn að leika. Hún er núna að leika í nýjustu mynd Baltasars Kormáks, Eiðinum og frábiður sér myndatöku. „Ég má ekki klippa mig, ég lít út eins og vitleysingur“, segir hún. Blaðamaður er ekki alls kostar sammála, en fylgist með Þórunni í eldhúsinu og kisunum hennar þremur sem spígspora um gólfin í íbúðinni.

Ein kisa er kostgangari hjá okkur

Köttur í sólstól

Kötturinn Momo ákvað að nýji sólstóllinn væri fyrir hann

„Ég er með fjórar kisur“, segir Þórunn Magnea og bætir við að fjórði kötturinn sé eiginlega kostgangari hjá þeim. „Hann var skilinn eftir uppi á Laugavegi, svo hann átti hvergi heima og flutti bara hingað. Hinar kisurnar vildu í fyrstu ekki taka hann alveg inn og litu á hann sem kostgangara. Hann var í forstofuherberginu en fékk að borða hér. Núna eru þær hins vegar búnar að taka hann í sátt. En hann er alinn upp. Hann má ekki fara uppá borð eða í vissa stóla, þó þau hin megi það. Þetta er svipað og hjá leikskólabörnum þegar þau eru að ala hvert annað upp“.

Ætlaði ekki að enda með 40 ketti

Þetta eru tveir fresskettir og tvær læður. Barneignir hópsins eru hins vegar ekki á dagskrá. Eitt sinn eignaðist læða hjá Þórunni 13 kettlinga. „Það var nóg“,segir hún „við fórum bara til dýralæknisins til að kippa þessu í liðinn. Ég ætlaði ekki að enda eins og Guðrún Símonar með 40 ketti. Þó kettir séu félagsverur líður þeim ekki vel innanum 40 aðra ketti. Dóttir mín býr hér uppá lofti og þeir fara stundum í orlof þangað. Þá finnst þeim gott að hafa alla athyglina. Að það sé einhver sem er bara að klappa þeim og kela við þá. Kettir haga sér afskaplega svipað fólk gerir“.

Þórunn Magnea með foreldrum sínum á fermingardaginn

Þórunn Magnea með foreldrum sínum á fermingardaginn

Úr öskunni í leiklistina

Þegar Þórunn Magnea var lítil stelpa að alast upp í Kópavogi ætlaði hún að verða öskukarl. Henni fannst öskubílar svo stórfenglegir. En fimm ára gömul ákvað hún að söðla um og vildi verða leikkona. „það var ekkert sem gat haggð því“ segir Þórunn og rifjar upp þegar hún týndi forláta teppi sem móðir hennar hafði ofið á húsmæðraskólanum að Staðarfelli, en Þórunn sem setti upp leikrit í holtinu neðan við húsið þar sem hún bjó ásamt foreldrum sínum, hafði notað það sem fortjald í leiksýningu. Þótt hana dreymdi um að verða leikkona, fékk hún ekki að leika í skólaleikritunum í skólanum, fyrr en hún var komin í 12 ára bekk. En þá var teningunum líka kastað og leiklistarferillinn að hefjast.

Fékk undanþágu í Þjóðleikhúsinu

Yfirkennarinn í skólanum, Magnús B. Kristinsson var einn stofnenda Leikfélags Kópavogs. Leikfélagið setti upp verk sem hét Alvörukrónan árið 1960. „Þá vorum við Kjartan Thors fengin til að leika tvo dansandi unglinga“ segir Þórunn Magnea. Skömmu seinna fékk hún hlutverk í Línu langsokk og fannst að hún yrði að fara að læra leiklist. Hún skráði sig í Leiklistarskóla Ævars Kvaran og stundaði hefðbundið skólanám á kvöldin í skóla KFUM og K, til að geta helgað sig leiklistinni á daginn. Fimmtán ára var hún komin í leiklistarskóla Þjóðleikhússins á undanþágu, frá 16 ára aldurstakmarkinu sem þar var.

Lék í Þjóðleikhúsinu í þrjá áratugi

Leikkonan unga

Leikkonan unga

Eftir það lék hún aukahlutverk í nokkrum leiksýningum, en ferillinn komst á skrið þegar Þórunn Magnea, þá 18 ára gömul og nýútskrifuð, lék Ófelíu í Hamlet, á móti Gunnari Eyjólfssyni. Leiðin lá síðan í leiklistarskóla í París í Frakklandi þar sem hún var í tvö ár. Hún byrjaði að leika í þjóðleikhúsinu þegar hún kom aftur heim og lék þar til ársins 1992. Þá var henni sagt upp þegar starfsemi hússins var endurskipulögð. Hún var 47 ára, en tilkynnt var að fólki sem var orðið fimmtugt yrði ekki sagt upp. „Þá varð Bríet Héðinsdóttir reið“, segir Þórunn. „Hún spurði, er ég hér af því að ég er fimmtug, en ekki vegna þess að ég geti leikið?“. Hún segir að það sé ekkert nýtt að það sé litið þannig á að fólk sem er orðið fimmtugt, sé komið fram yfir síðasta söludag.

Fæddist sem drengur

Þórunn Magnea er fráskilin. Hún á tvö uppkomin börn og fimm barnabörn. Foreldrar hennar heita Magnús Vilmundarson og Magnea Bergmann. Hún ólst upp í hópi fjögurra systkina. Dóttir hennar býr eins og áður sagði á hæðinni fyrir ofan hana, en sonurinn upp við Úlfarsfell. Dóttirin Þóra er transmanneskja. Hún fæddist sem drengur. Þegar Þórunn er spurð hvernig reynsla það sé, þegar barnið manns fer þessa leið segir hún að það hafi verið ljóst að Þóra hafi ekki fundið sig sem drengur. „Fyrir mér er það aðalmálið að fólki líði vel í lífinu, hvort sem er í vinnu eða einkalífi“, segir hún. „Ég skrifa ekki undir það að lífið sé píslarganga. Lífið á að vera fullt af gleði. Mér fannst ekki koma til greina að hún væri að pína sig í ákveðið hlutverk. Ef hún er hamingjusöm er ég hamingjusöm“, segir Þórunn.

Útrás í leiklistinni

Eftir að Þórunn Magnea hætti í Þjóðleikhúsinu, hélt hún áfram að vinna að leiklist á öðrum vettvangi. Hún setti upp leiksýningar hjá áhugaleikfélögum á landsbyggðinni og í Færeyjum og gekk til liðs við Svein Einarsson sem stofnaði leikhópinn Bandamenn. Hópurinn fór í útrás og sýndi leikverk á Norðurlöndunum, í nokkrum Evrópulöndum, Kanada og fór síðan alla leið til Seul í Suður-Kóreu. „Við vorum á ferðalögum í 20 ár“, segir Þórunn. Leiksýningarnar sem hópurinn sýndi voru þrjár og hétu Bandamenn, Amlóði og Edda.is. Þær voru allar á íslensku. „Sýningarnar voru þannig að það var ákaflega lítið talað í þeim“, segir Þórunn Magnea. „Við ætluðum með þær til útlanda og settum þær upp þannig að þær væru mjög skiljanlegar“.

Þórunn Magnea ásamt Vilborgu Halldórsdóttur leikkonu í 50+ hópnum

Þórunn Magnea ásamt Vilborgu Halldórsdóttur leikkonu í 50 plús hópnum

Kvikmyndaleikur

Hópur leikhúslistakvenna sem eru komnar yfir fimmtugt, var settur á laggirnar í fyrra. „Hún Magga Rósa í Iðnó kallaði saman nokkrar leikkonur og bauð þeim að setja upp sýningar í Iðnó og æfa þar frítt. Hópurinn hefur verið með sýningar í Iðnó á mánudögum. Það hafa verið ljóðadagskrár og leiklesin leikrit. „Þetta þýddi að ég gat aftur farið að stunda mína atvinnu“, segir Þórunn, en undanfarin ár hefur hún verið að leika töluvert í kvikmyndum. Hún lék í Mýrinni, Roklandi og LX. „Svo hef ég leikið í milli 10 og 12 stuttmyndum hjá nemendum í Kvikmyndaskóla Íslands og kvikmyndadeild Framhaldsskólanna“, segir hún.

Þórunn Magnea í hlutverki sínu í stuttmyndinni Einsemd

Þórunn Magnea í hlutverki sínu í stuttmyndinni Einsemd

Var eins og að fá Óskarinn

Þórunn Magnea fékk nýlega heiðursverðlaun á kvikmyndahátíð Framhaldsskólanna. Hún lék aðalhluverkið í verðlaunamynd hátíðarinnar, en sú mynd heitir Einsemd og er eftir Hrafn Helga Helgason. Hún fjallar um gamla konu sem fær símtal um miðja nótt. Verðlaunin komu Þórunni á óvart. „Fyrir mig var þetta eins og að fá Óskarinn“, segir hún og sýnir blaðamanni verðlaunin Fjöreggið, eftir listakonuna Koggu. Fleiri stuttmyndir sem Þórunn hefur leikið í hafa hlotið verðlaun á þessum kvikmyndahátíðum. Hún segir að nemarnir séu ótrúlega hugmyndaríkir og margar myndanna séu ótrúlega skemmtilegar. „Ég lék einu sinni gamla konu sem rændi bingói vopnuð hafnarboltakylfu, til að fjármagna hassneyslu sína“.

Þóttu tíðindi ef fólk milli 70 og 80 ára var með eigin tennur

Tveir af köttunum hafa fylgst með samtalinu og látið sér vel líka. Eftir fimmtíu ára leiklistarferil er Þórunn Magnea enn að. Hún er að leika í kvikmynd, er að undirbúa ljóðakvöld í Iðnó í næstu viku, þar sem ljóð Nínu Bjarkar Árnadóttur verða flutt og fyrir skömmu leikstýrði hún Guðrúnu Ásmundsdóttur vegna sýningar á listanótt. Hún segist varla koma við heima hjá sér þessa dagana, hún hafi svo mikið að gera. Þegar ég var barn og unglingur þóttu það tíðindi ef manneskja milli 70 og 80 ára, var með sínar eigin tennur. Nú er aðbúnaður allur betri og heilsugæslunni hefur fleygt fram. En við verðum að vera dugleg við að gera okkur sýnileg og mér finnst eins og okkur sé að takast það í hópi leikhúslistakvennanna.“

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 12, 2016 17:07