
Emil B. Karlsson
Ferðalagið sjálft er stundum meiri upplifun en áfangastaðurinn sjálfur. Þetta á til dæmis við um lestaferðir gegnum gamlar borgir, bleika akra, fjöll og firnindi. Kannski er ástæða til að við ferðaglöðu Íslendingar nýtum okkur þennan ferðamála í meira mæli. Því valmöguleikarnir í framboði lestarferðalaga um Evrópu aukast sífellt og margir afar spennandi kostir eru í boði fyrir þá sem vilja prófa nýjan, spennandi og umfram allt þægilegan ferðakost.
Það er frekar stutt síðan ég áttaði mig á því að Interrail lestakerfið, gildir fyrir alla aldurshópa, ekki aðeins fyrir ungt fólk, eins og hér áður fyrr, og Interrail-passar eru seldir með afsláttarkjörum til eldri borgara. Slíkir passar leyfa handhöfum þess að ferðast frjálst bæði innan landa og milli landa í Evrópu með lestum. Passinn getur bæði verið rafrænn eða prentaður miði sem veitir aðgang að lestum í allt að 33 löndum í Evrópu. Þeir sem kaupa Interrail-passa geta valið á milli þess að ákveða fjölda ferðadaga innan ákveðins tímabils (t.d. 7 ferðadagar innan 1 mánaðar) eða ótakmarkaðan fjölda ferða í ákveðinn fjölda daga (t.d. 15, 22 eða 30 daga samfleytt ferðalag). Báðir kostirnir veita mikinn sveigjanleika í ferðum þannig að hægt er að dvelja mislengi á stöðum sem ferðalangnum þykir spennandi að skoða betur, hvort sem er stórborg eða sveitaþorp. Sammerkt er að passinn er frábær kostur fyrir þá sem vilja ferðast um mörg lönd með lítilli fyrirhöfn. Interrail passinn veitir auk þess afslátt af ýmsum ferðatengdum kostum eins og hótelgistingu, ferjum o.fl.
Hægt er að kaupa miða í gegnum vefsíðuna www.interrail.eu eða hjá öllum helstu lestarfélögum í Evrópu.
Baltic-Express
Dæmi um nýja og spennandi lestaferð, sem Interrail-passinn gildir í, er um sögulegar slóðir frá stórveldistímum austurhluta Evrópu. Lestarleiðin nefnist Baltic-Express og nær yfir alls 878 km leið um Tékkland og Pólland. Ferðin er sögð gefa ferðalöngum einstaka sögulega upplifun um forna stórveldistíma hinna ýmsu tímabila í sögu Evrópu, m.a. Þýska keisaradæmið, Austurrísk-ungverska heimsveldið, Sovéttímann, auk ummerkja eftir tímabil nasismans. Þetta er engin hraðlest, en býður engu að síður uppá notaleg sæti, netteningu, veitingar og öll nútíma þægindi. Þeir sem ferðast með lestinni geta yfirgefið hana á einhverri þeirra 20 lestarstöðva þar sem stoppað er og komið aftur um borð – allt að eigin vild.
Upphaf ferðarinnar er í hinni fornfrægu aðallestarstöð í Prag í Tékklandi Hlavní Nádraží-stöðinni. Lestarstöð þessi hefur verið nefnd „dómkirkja járnbrautarsamgangna“, þar sem tvöfaldar hvelfingar hennar rísa upp af þakinu líkt og rómverskt hof. Stöðin var byggð árið 1871, þegar Austurrísk-ungverska heimsveldið var og hét.
Hlavní Nádraží-stöðin í Prag er aðeins dæmi um það sem er í vændum fyrir ferðalanginn. Endastöð Baltic-Express lestarlínunnar er í borginni Gdynia við Eystrasaltsstrendur Póllands, skammt norður af pólsku borginni Gdansk, sem er mörgum Íslendingum kunnug. Á leiðinni gegnum Tékkland og Pólland gefst ferðalangnum tækifæri á að upplifa borgir og þorp sem ekki eru þéttsetnar ferðamönnum. Nefna má tékknesku borgina Pardubice, með merkilegu torgi og húsum í skrautlegum pastellitum, þá pólska heilsulindabæinn Kłodzko eða pólsku miðaldaborgina Leszno. Matur og menning á þessum stöðum er oft önnur en við eigum að venjast. Þá ber fyrir augu miðaldakastala, íburðarmiklar kirkjur og miðaldaborgir, svo eitthvað sé nefnt.
Emil B. Karlsson skrifar.