Leyndardómasetrið og næturböð

Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar.

 

Nú er ég búin að yfirgefa Azoreyjar – að sinni, langar mig til að segja, því að ég er næstum viss um að ég á eftir að koma þangað aftur. Ég á jú enn eftir að heimsækja fjórar af eyjunum níu og á öllum þeim sem ég heimsótti eru svo margir staðir sem mig langar til að sjá og kynnast. Ég er þó ekki alveg búin að yfirgefa Portúgal enn, er í Lissabon þegar þetta er skrifað en ætla að eyða síðustu dögunum í Estoi, smáþorpi rétt hjá Faro. (Nei, ekki í sólbaði þótt þetta sé á Algarve, það er spáð rigningu allan tímann sem ég verð þar.)

Ég var semsagt í tíu daga í Ponta Delgada á eynni Sao Miguel, eða öllu heldur: ég hafði bækistöð þar, því að ég fór tvisvar í burtu og eyddi 1-2 nóttum annars staðar en skildi mestallan farangurinn eftir í íbúðinni sem ég leigði í Ponta Delgada. Það er mjög þægilegt ef hægt er að koma því við og þarf ekki að þvælast með allt saman með sér.

Ég hafði ákveðið fyrir nokkru að ég ætlaði að heimsækja meira en helming eyjanna; var búin að ganga frá flugferðum og gistingu á fjórum þeirra, Terceira, Pico, Faial og Sao Miguel, en var í vafa um hvort ég ætti að velja Sao Jorge eða Santa Maria sem þá fimmtu. Sú fyrrnefnda varð fyrir valinu en eftir á að hyggja hefði ég kannski frekar átt að fara þangað frá Faial og þá með ferju. Eyjarnar þrjár, Pico, Faial og Sao Jorge eru nálægt hver annarri (oft kallaðar Þríhyrningurinn) og á milli þeirra ganga ferjur allt árið.

Á jarðhæð hússins hafði meðal annars verið hesthús og mylla. Mylluhjólið er þar enn – í setustofu gestanna – en engin hross.

En í staðinn flaug ég þangað frá Ponta Delgada og gisti tvær nætur. Ég var mjög spennt fyrir gistingunni sem ég hafði fundið. Hún var á gömlu höfðingjasetri rétt hjá flugvellinum, í yfir 500 ára gömlu húsi, Quinta dos Misterios, sem mætti þýða sem „Sveitasetur leyndardómanna“. Ég er sannfærð um að húsið á marga leyndardóma en engir þeirra upplýstust þó fyrir mér. Þarna hefur sama ættin búið frá upphafi og gamla konan sem á og rekur gistiheimilið sem er þar núna er að mér skilst afar fróð um sögu hússins og það er fullt af antikmunum og alls konar gripum úr eigu ættarinar. Því miður treysti hún sér ekki til að tala mikla ensku, annars hefði ég orðið stórum fróðari.

Ég var eini gesturinn í húsinu, enda komst ég að því seinna að gistiheimili er eiginlega lokað fram í febrúar, líklega hafði gleymst að láta booking.com vita … En ég fékk frábæran viðurgjörning og allur maturinn á veglegu morgunverðarborðinu var annaðhvort gerður á staðnum eða var a.m.k. frá eyjunni. „Mitt hús er þitt,“ sagði blessuð konan hvað eftir annað og vildi allt fyrir mig gera.

Húsið var við hliðina á flugvellinum en engin truflun að honum, þarna lenda yfirleitt tvær flugvélar á dag. Svo eru um 5 km til höfuðstaðarins, þorpsins Velas. Ég gekk þangað en þar sem Sao Jorge er hálend og fjöllótt eyja, græn upp á hæstu tinda en víða þverhnípt í sjó fram eða a.m.k. sæbrött, lá vegurinn sem ég þurfti að ganga hátt uppi í fjalli svo að gangan tók meira á en ég hafði haldið. Þar sem farið var að rigna örlítið tók ég því leigubíl til baka.

„Rauða torgið“ í Velas. Hér var allt rautt, bekkir, ljósastaurar, hús, blóm, tré …

Á þessum árstíma er mjög fátt um ferðamenn, kannski enginn nema ég; allavega var ég eini gesturinn á veitingahúsinu þar sem ég borðaði hádegismat.

Daginn eftir gekk ég í andstæða átt, álíka langt, og skoðaði þorpið Urzelina, sem er þekkt fyrir það að árið 1808 fór meirihluti þess undir hraun í eldgosi. Þess skjást þó engin merki núna, allt er grænt og þakið gróðri – eyjan er ótrúlega frjósöm og gróðurinn sem kýrnar hér bíta þykir gefa af sér sérlega góðan ost, sem eyjan hefur verið fræg fyrir allt frá landnámi á 15. öld. Ég smakkaði Sao Jorge-ost sem búinn var að þroskast í tvö ár og get vottað að hann var einstaklega góður.

Gróðurinn á þessum frjósömu eyjum er fljótur að fylla húsarústir.

Ég hefði gjarna viljað vera lengur á þessari fallegu eyju, sem er meðal annars fræg fyrir fallegar og skemmtilegar gönguleiðir, en líklega er heppilegast að hafa þá yfir bíl að ráða til að geta komist á þá staði þar sem best er að hefja göngurnar.

Ég flaug svo aftur til Ponta Delgada og tveimur dögum seinna fór ég til Furnes. Ég sagði frá Furnes, jarðhitanum þar og hverasvæðinu á dögunum en nú ætlaði ég ekki að skoða hveri. Ég hafði pantað gistingu á lúxushótelinu Terra Nostra, sem ekki aðeins stendur í stórum og ótrúlega fallegum skrúðgarði – ofan í eldgíg, allt þorpið Furnes stendur í eldgíg og ekki nema nokkur hundruð ár síðan þar gaus síðast – heldur eru í hótelgarðinum náttúrulaugar, stór laug með heitu vatni, brúnu af járni og öðrum efnum (gæti kallast Brúna lónið) og stórir og skemmtilegir heitir pottar. Ekkert nýtt fyrir Íslending kannski en þetta var samt mjög ólíkt því sem ég þekkti að heiman.

Brúna lónið. Bunurnar eru mismunandi kraftmiklar, sumar eins og öflugt vatnsnudd.

Garðurinn og böðin eru opin almenningi (gegn gjaldi) á daginn en á kvöldin og alla nóttina geta hótelgestir nýtt sér þetta. Það var sérstök upplifun að fara í laugina alein seint að kvöldi; dauf lýsing, rétt nóg til að maður sæi hvar laugin var. Svo er líka innisundlaug, nudd og fleira.

Hótelið er flott hús í art deco-stíl en með öllum nútímaþægindum og ég naut þess að vera þar en aðalástæðian til þess að ég hefði gjarna viljað vera lengur en eina nótt var þessi ótrúlega fallegi og gróskumikli garður sem umkringir það. Ég hefði líka verið til í að fara í gönguferðir um þorpið og nágrennið en til þess vannst ekki tími.

Úr hótelgarðinum.

Ég hafði ætlað að taka rútu til Furnes báðar leiðir en almenningssamgöngur á Azoreyjum eru ekkert sérstakar, leigubílar hins vegar tiltölulega ódýrir, og þegar ég komst að því að leigubíll frá Ponta Delgada til Furnes (45 km) kostar ekki nema 40 evrur hvora leið tók ég þann kostinn – ég var jú að fara að gista á flottu hóteli.  Svo er fínt veitingahús þarna, þar sem ég borðaði um kvöldið. Ellefu gestir en heilir sex einkennisklæddir þjónar að snúast í kringum mann.

Kvöldverður á veitingahúsi hótelsins.

Þarna á hótelinu skrifaði ég líka lokasetningarnar í fyrsta uppkastinu að næstu skáldsögu minni. Mér hefur gengið afskaplega vel að skrifa á eyjunum, eins og reyndar þegar ég var álíka lengi í Norður-Portúgal í fyrravetur. Kannski er eitthvað í andrúmsloftinu hér, ég veit það ekki, en þó er fátt sem minnir á Ísland á 18. öld.

En þessi sólarhringur  í Furnas var frábær endir á mánaðardvöl á Azoreyjum.