Í ár er áberandi ferskur blær á sumartískunni. Létt efni, bjartari litir, stuttar buxur, míní pils, míní toppar og hlýrabolir og -kjólar einkenndu tískupallana hjá stærstu húsunum í ár. Þessa er þegar farið að gæta í hvernig áhrifavaldar og áberandi fólk klæðir sig. Karlarnir eru djarfari í litavali og léttklæddari en oft áður og konurnar kjósa að setja saman fatnað á nýstárlegan og spennandi hátt.
Stuttbuxur fylgja alltaf sumrinu en að þessu sinni eru þær ekki úr gallaefni eða bómull. Nú er engu líkara en menn og konur hafi klippt neðan af dragtarbuxunum og klæðst jakkanum við. Blazer-jakkinn er reyndar notaður við allt í sumar. Hann á að vera víður og stór en pilsið við eða buxurnar mun minna. Þetta skapar skemmtilega og nýstárlega þversögn en tískuhönnuðir hafa alla jafna gaman af að leika sér með andstæður. Við stuttu pilsin og buxurnar er svo parað áberandi skóm eða stígvélum. Við stuttu flíkina er svo valin toppur, oft hlýralaus bolur sem nær ekki niður í mitti. Þetta höfum við séð áður en er alltaf sumarlegt og fallegt.
Pastellitir eru vinsælir í ár en núna eru þeir bjartari og líflegri en oft áður. Það er ferskur blær á þessum bláu, bleiku, gulu og grænu flíkum. Þær minna svolítið á skál fulla af ávaxtabrjóstsykri eða blöðrur í barnaafmæli. En hvort þær vekja skemmtilegar minningar úr æsku eða ekki er minnsta kosti nokkuð víst að allir hljóta finna fyrir léttleika og gleði íklæddir svona fallegum litum.
Fylgihlutir eru áfram mittistöskur, umslög og strigaskór. Ökklastígvél halda vinsældum sínum og hælaskór í pastellitunum koma sterkir inn. Slæður og klútar um hálsinn eða þrædd i gegnum beltishankana á buxunum er einnig flott og ef valdir eru daufari litir er þetta mjög spennandi og flott leið til að koma skærum pastellit að og lífga þannig upp á heildarútlitið.
Mínímalistar geta líka glaðst
Þótt áhyggjuleysi og gleði einkenni sumartískuna að mestu fá mínímalistar og hinir melankólísku líka eitthvað fyrir sinn snúð. Leður heldur velli og svartir einfaldir leðurjakkar við hvíta skyrtu og svartar leggings er hátíska um þessar mundir. Strangleiki einkenndi fyrirsæturnar sem gengu pallana í þessum klæðum. Hárið sleikt aftur og uppsett í fullkomin hnút. Stílhreint skart og skapar línur hvert sem litið er. Það eru ekki allir fyrir kúlutyggjó-liti og stelpuleg pils.
Hlýrar og hlýraleysi
Hlýralausir toppar eru vinsælir en einnig alls konar hlýrabolir og -kjólar. Nú er um að gera að leyfa öxlunum að njóta sín. Auk þess eru reimar þræddar í gegn um nokkrar lykkjur í baki eða framan á flíkum akkúrat málið og setja svip á bæði kjóla, blússur og boli. Þetta er sniðug leið til að sýna hold án þess að ganga of langt. Hver og einn ræður hversu fast hann dregur saman og hvort hann bindur reimarnar eða leyfir þeim að vera lausum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.