„Lofaði að kenna barnabarninu á Tiktok“

Við sem erum orðin vel miðaldra og sérdeilis lífsreynd vitum að daður, viðreynsla og heitar ástríður fara ekki í aldursbgreinarálit, heldur þvert á móti. Á besta aldri flækjast krakkagormarnir ekki lengur fyrir okkur, mögulega stöku barnabarn sem má þó alltaf skila til foreldranna ef þarf að skreppa á stefnumót.

En … sumt fólk verður reyndar heimakærara með aldrinum, jafnvel strax fyrir þrítugt, og þessi grein er eiginlega fyrir það. Þannig að ef einhver sætur eða sæt býður þér út á föstudagskvöldi, þú nennir alls ekki en kannt ekki við að segja það, þarftu að finna haldbæra ástæðu. Hér má finna nokkrar vel valdar afsakanir. Sumar þeirra losa þig sennilega endanlega við aðdáandann en aðrar getur þú notað oftar en einu sinni, einhverjar jafnvel við önnur tilefni, til dæmis ef þú vilt sleppa við gönguferð í blindbyl með heilsufríkinu í vinahópnum.

Til að sýna kurteisi væri gott að byrja með því að segja: „Mikið væri það gaman en …“ eða „Sama og þegið en …“ eða „Ég vildi að ég kæmist en …“

og svo velurðu afsökun við hæfi hér fyrir neðan:

„Ég þarf að endurflokka í sokkaskúffunni, það getur ekki beðið.“

„Kemst ekki. Ég á stefnumót við Gísla Martein á föstudögum.“

„Ég fór að hugsa um himingeiminn og tímann og er gjörsamlega útkeyrð/ur.“

„Ég finn ekki tennurnar.“

„Ég fer í mánaðarlega baðið mitt á föstudagskvöldum og það er einmitt í kvöld.“

„Ég var að muna eftir Black Sabbath, svo ég kemst ekki.“

„Sjúkraþjálfarinn kemur um kvöldmatarleytið til að kenna mér að ganga almennilega frá göngugrindinni!“

„Eins og hárið á mér var fínt í morgun er það ekki þannig lengur.“

„Ég á von á póstsendingu í kvöld sem ég má ekki missa af.“

„Ég fékk mér rækjusamloku í hádeginu og hún fór þannig í mig að ég þori ekki úr húsi!“

„Barnabörnin sem ég fæ ekki að hitta nema vera edrú og öryggisfulltrúi sé með, koma í kvöld.“

„Ég fer aldrei út í roki.“

„Jólabókaflóðið var að bresta á, ég verð mjög upptekin/n næstu mánuði.“

„Netflix var að spyrja hvort ég vildi ekki horfa á næsta þátt.“

„Síminn minn er bara með 3% hleðslu.“

„Ég lofaði vinkonu að endurskipuleggja ísskápinn hennar með henni.“

„Ég fékk mér bara skyrdós í hádeginu og er að drepast úr hungri svo ég get ekki talað við þig.“

„Ég var búin að lofa dóttursyninum að hringja í hann í kvöld.“

„Ég fór ekki í göngutúr í morgun, ekki heldur í gærmorgun, ekkert allan þennan mánuð. Ég ætti líklega að fara í kvöld.“

„Ég er með búkonuhár á hökunni svo ég fer eflaust aldrei framar út úr íbúðinni minni.“

„Ég ætla að fylgjast með leið 57, Mjódd – Akureyri-ferðinni á rauntíma á Klappinu.“

„Ég kíkti á Facebook-síðuna þína, þú átt vini / vinkonur sem eru miklu sætari en þú.“

„Ég var að lesa um einkenni botnlangabólgu og ætla ekki að hreyfa mig í kvöld.“

„Ég lofaði að kenna barnabarninu á Tiktok.“

„Ég hef verið að hugsa um að elda oftar. Í kvöld virðist vera rétti tíminn til að byrja á því.“

„Það er rigning.“

„Ég var að horfa á þátt á YouTube um karla sem fara í bikinívax, ég ætla aldrei í lífinu aftur á stefnumót.“

– – – – – – – – –

Aðrar afsakanir

Við getum reyndar ekki mælt með eftirfarandi afsökunum sem við fundum á netinu:

„Við ákváðum að fá okkur kaffi saman á Starbucks einn morguninn . Hann sendi mér skilaboð um að hann hefði fengið martröð og væri enn í svo miklu áfalli að hann treysti sér ekki til að koma.“

„Hún sagði að textaskilaboðin mín um að hittast hlytu að hafa lent í rusl-pósthólfinu. Fram að því hafði hún séð öll mín skilaboð og svarað þeim og þess vegna gætu þau ekki lent þar allt í einu, eins og flestir vita.“

„Hún komst ekki af því að páfagaukurinn hennar hafði fengið hjartaáfall.“

„Hann afboðaði sig hálftíma fyrir annað stefnumótið og bar fyrir sig væga innhverfu, hvað sem það nú er.“

„Hún sagðist hafa lent í umferðaróhappi og kæmist ekki. Því til sönnunar sendi hún mér mynd af löskuðum bíl sem hún hafði greinilega fundið á Google.“

Guðríður Haraldsdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn október 17, 2023 07:00