Stefnumótaráð fyrir karla fimmtuga og eldri

Þú ert orðinn einhleypur á ný eftir 20 ár og Guð hjálpi þér, það er komið að því að hitta konur og eiga stefnumót. Hvar er best að byrja? Kannski með því að hafa samband við stelpuna sem þú varst svo skotinn í á menntaskólaárunum? Eða stelpuna í vinnunni sem þér fannst alltaf svo sæt? Eða áttu að skrá þig inná stefnumótasíðu? Ef þú ferð svo á stefnumót, hvers er  þá að vænta þegar kemur að kynlífi?

Þessi átta ráð gera lífið einfaldara fyrir þá sem eru aftur komnir út á stefnumótamarkaðinn.

  1. Sumt breytist ekki. Það hefur alltaf verið vandasamt að finna konur. Jafnvel þó stefnumótasíður séu orðnar margar, er það ennþá þannig. Notaðu hefðbundnar aðferðir. Kynningu í gegnum vini, farðu á blint stefnumót, stundaðu hreyfingu og félagslíf, því þar hittirðu líklega konur eða eignast vinkonu með svipuð áhugamál og þú, vinkonu sem kannski verður eitthvað meira en það þegar fram líða stundir. Það er líka hægt að hitta einhverja bara fyrir tilviljun. Segðu öllum sem þú þekkir að þú hafir áhuga á að hitta nýja konu. Biddu þá um að skipuleggja stefnumót með einhverrri sem þeir þekkja. Já notaðu bara allar aðferðir sem þér geta komið í hug.
  2. Tölurnar eru þér í vil. Fyrst slæmu fréttirnar: Karlar deyja yngri en konur. Góðu fréttirnar: Eftir því sem árin líða verða konur fleiri í eldri aldurshópum en karlarnir, sem kemur sér vel fyrir karlana og konurnar vita líka að þær eru færri en þeir. Það er ástæðan fyrir því að þær sitja ekki lengur við símann og bíða eftir að karlmaður hringi í þær. Ef kona hefur áhuga á þér, er líklegt að hún hafi frumkvæði að því að hafa samband við þig.
  3. Gúgglaðu sjálfan þig. Það munu konur gera og þess vegna ættir þú að gúggla þig til að athuga hvað það er sem þær munu finna. Reyndu að leiðrétta ef það eru einhverjar vitleysur um þig á netinu, eða vertu í það minnsta tilbúinn til að sanna að þú ert ekki kynferðisafbrotamaðurinn sem er alnafni þinn. Og ef þú ert byrjaður, skoðaðu þá Facebook síðuna þína vel. Þú vilt ekki að fólk verði hissa á því sem þar er að finna.
  4. Kostirnir við stefnumótasíður. Aðalkosturinn er að þar er gríðarlegt úrval kvenna á einum stað. Myndir á stefnumótasíðum auka svörun hjá körlum um 40%. Fyrir konur þýða myndirnar að svörunin þrefaldast. Annar kostur við síðurnar er að kynningar á fólki þar geta orðið kveikja að frekara umræðuefni. Auk þess að segja „þú ert reglulega sæt og átt heima rétt hjá mér“ geturðu bætt við að eins og konan sem þú ert að hafa samband við, leikir þú tennis og hafir ánægju af jazz tónlist.
  5. Ókostirnir við stefnumótasíður. Sumar konurnar þar eru jafn óútreiknanlegar og veðrið. Þær virðast hafa áhuga, en eftir nokkra tölvupósta gufa þær upp, eða símanum þeirra er lokað. Þær segjast ætla að hitta þig á ákveðnum stað, en mæta svo ekki. Hvers vegna? Hver í ósköpunum veit það? Ein kenningin er sú að margar séu hreint ekki einhleypar en vilji sannfæra sjálfar sig um að þær séu ennþá það aðlaðandi að þær geti pikkað upp mann eins og þig.  –  Þar að auki eru kynningarnar á stefnumótasíðunum oft hreinn skáldskapur. Athugun sem var gerð sýndi að sumir sögðust vera nokkrum sentimetrum hærri en þeir eru. Konur sögðust vera 10 kílóum léttari en þær voru. Flestir sögðust  á netinu vera óvenju aðlaðandi eða 72% kvenna og 68% karla. Fjögur prósent sögðust hafa meira en 28 milljónir króna í árslaun, en staðreyndin er sú að það er minna en 1% þeirra sem nota netið, sem er með svo háar tekjur. – Hérna er gott ráð. Segðu satt og rétt frá. Um leið og þú hittir konuna, sér hún hvað þú ert hár og hvað þú ert þungur – og líka hversu aðlaðandi þú ert.
  6. Vertu vel klæddur. Það getur verið að þú sért frábær, en ef þú lítur út eins og flækingur flýja konurnar eins og fætur toga. Vandinn er bara sá, að margir karlmenn hata að kaupa sér föt. Ef það á við um þig, leitaðu aðstoðar. Biddu vin þinn, eða kannski öllu heldur vinkonu, að koma með þér í verslunarleiðangur. Hugleiddu að fara bæði í fót- og handsnyrtingu. Gerðu ráð fyrir að eyða heilum degi – já herrar mínir, öllum deginum – og tveggja vikna tekjum í að taka sjálfan þig í gegn.
  7. Vertu með smokka á þér. Það er eitt sem kemur þæg ilega á óvart við stefnumót eftir fimmtugt, en það er að kynlífið er ekki jafn flókið og hjá yngra fólki. Eftir nokkur stefnumót, finnst flestum konum á þínum aldri í góðu lagi að stunda kynlíf með þér og er alveg sama þótt stinningin sé eitthvað lítil eða jafnvel engin. Samt sem áður vilja þær ekki smitast af kynsjúkdómum, þannig að þú skalt nota smokka á meðan þú ert enn á lausu.
  8. Stefnumót eru ekki það sama og pörun. Alveg eins og gullgrafarar þurfa að grafa í gegnum tonn af grjóti til að finna fáa gullmola, þarft þú líklega að fara á stefnumót með tugum kvenna áður en þú finnur þá einu réttu. Ef þú veist að ákveðið samband mun aldrei ganga upp, ekki eyða þínum tíma og hennar til einskis. Segðu henni bara „Mér þykir það leitt en ég er ekki skotinn í þér“ og vertu viðbúinn því að heyra þessa setningu margoft sjálfur. Þegar það gerist spurðu þá konuna „ Átt þú ekki einhverjar einhleypar vinkonur?

 Þessi grein er eftir Michael Castleman og birtist á bandaríska vefnum www.aarp.org, en Michael hefur skrifað fræðslubækur um kynlíf.

 

 

 

 

Ritstjórn september 30, 2020 08:00