Losti, auður og morð

Flestir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna hvernig þau Robert Redford og Meryl Streep gerðu ástarævintýri Karenar Blixen og Denys Finch Hattons ógleymanlegt í myndinni, Out of Africa. Margt bendir þó til að ekki hafi allt verið jafn fallegt og rómantískt í samfélagi þeirra í Kenýa og látið er að liggja í myndinni. Á þriðja áratug þessarar aldar flutti töluvert af bresku aðalsfólki til Afríku. Aðallega voru á ferð yngri synir og dætur aðalsmanna sem sóttust eftir meiri auði og völdum en þau áttu von á heima í föðurgarði. Flest þeirra settust að í Kenýa og fljótlega fór að bera á því að hömlur og siðir bresks samfélags voru látnir lönd og leið þegar út var komið. Bretar í Kenýa urðu brátt frægir af endemum í heimalandinu gamla og sögur bárust yfir hafið af siðleysi þeirra í kynferðismálum og óseðjandi losta. „Ertu gift eða býrð þú í Kenýa?“ var spurning sem breskar konur af yfirstétt spurðu hvor aðra í gamni. Bresku innflytjendurnir höfðu aðallega keypt land meðfram Wanjohi ánni í Aberdare fjöllum og var landsvæðið þekkt undir gælunafninu Hamingjudalur.

Beryl Markham var glæsileg og sjálfstæð kona. Hún leyfði sér margt sem ekki hefði verið liðið heima í Bretlandi.

Kókaín og morfín voru tekin inn jafn frjálslega og glas af kampavíni en sá eðaldrykkur var vinsæll í Muthaiga klúbbnum í Nairobi en nafnið eitt nægir til að hrollur fari um siðapostula í Bretlandi enn þann dag í dag. Eitt var þó jákvætt við hið mikla frelsi sem innflytjendurnir leyfðu sér, kvenfrelsi og jafnrétti var þar meira en annars staðar. Beryl Markham ein af íbúum Hamingjudals var þekkt flugkona á sinni tíð og hún var fyrst kvenna til að fljúga ein vesturleiðina yfir Atlandshafið. Hún var einnig þekkt fyrir að hoppa úr einum karlmannsfaðminum í annan og sagt var að hún hefði sofið hjá að minnsta kosti tólf mönnum á örfáum mánuðum. Beryl tók við af Karen Blixen í rúmi Denys Finch Hattons og átti hin síðarnefnda margar andvökunætur vegna afbrýðisemi og vanlíðunar. Beryl þótti bráðfalleg og afskaplega vel gefin. Hollywood leggur nú á ráðin um að gera mynd eftir ævi hennar og sagt er að Julia Ormond hafi hreppt hlutverk Berylar.

Alice de JanzéÖnnur kona Alice de Janzé, amerísk að uppruna en gift frönskum greifa, var einnig framtaksamari en konur yfirleitt á þessum tíma. Hún varð ástfangin af Raymond nokkrum de Trafford af írskum aðalsættum. Hann var spilafíkill og drakk ótæpilega en hún elskaði hann af öllu hjarta. Alice varð fræg um alla Evrópu þegar hún skaut sjálfa sig og elskhuga sinn á Gare du Nord í París eftir að hann sagði henni upp. Þau voru bæði illa særð en lifðu af og giftust seinna.

Inn í þetta andrúmsloft flutti Sir Jock Delves Broughton með ungu brúðina sína, Díönu. Sir Jock, sem var 57 ára, þótti myndarlegur en leiðinlegur fram úr hófi, veiklyndur og hégómagjarn. Kona hans var ekki nema 27 ára, ómótstæðileg ljóska með ísblá augu og einstaklega fallegt bros. Hún féll strax inn í hópinn í Kenýa og ekki skemmdi að hún leit svo á að hjónaband hennar væri eingöngu að nafninu til og heimtaði að þau svæfu í sitt hvoru herberginu. Hann var aftur yfir sig ástfanginn af konu sinni og var sagt að hann vonaði stöðugt að samband þeirra yrði nánara.

Sir Jock

Honum varð ekki að ósk sinni því þau höfðu ekki dvalið í mánuð í Hamingjudal þegar kona hans var orðin yfir sig ástfangin af jarlinum af Erroll. Hann var sérlega myndarlegur, aðlaðandi og þótti einstaklega skemmtilegur. Líkt og fleiri þar um slóðir var hann frjálslyndur í kynferðismálum og hafði átt ótal ástmeyjar þar á meðal Beryl Markham. Hann var tvígiftur en þegar hann hitti Díönu var hann nýlega skilinn við seinni konuna. Erroll lávarður kærði sig augljóslega lítið um fleiri hjónabönd og kaus því að velja sér eingöngu ríkar, giftar konur sem rekkjunauta. „Til fjandans með eiginmenn,“ var hann vanur að hrópa hlæjandi í vinahópi þrátt fyrir að eiginmaður nokkur hafði hýtt hann með svipu á járnbrautarstöð í Narobí.

Erroll lávarður

Erroll og Díana urðu fljótlega óaðskiljanleg en augljóst flestum að Sir Jock var langt frá því ánægður með ástandið. Hann var þó harðákveðinn í því að sleppa ekki konu sinni en tilfinningarrótið varð til þess að hann drakk óhóflega og tók inn morfín til að geta sofið. Eftir að hann hafði rifist heiftarlega við Erroll lávarð sá hann að sennilega fengi hann engu breytt um samband hans og konu sinnar. Um tíma leit svo út fyrir að hann hefði gefist upp við að berjast á móti. „Hann er svo ágætur að það er ólykt af því,“ sagði Erroll við vini sína.

Diana Selves Broughton

Sir Jock bauð síðan til kvöldverðar í Muthaiga klúbbnum þar sem hann stóð upp úr sæti sínu og skálaði fyrir elskendunum. Næsta dag fannst Erroll lávarður dauður í bíl sínum úti í skurði. Hann hafði verið skotinn í hálsinn. Samband hans og Díönu hafði staðið í tæpar sjö vikur. Sir Jock var handtekinn og ákærður fyrir morð en á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi veltu innflytjendur í Kenýa því alvarlega fyrir sér hvort hann væri í raun sekur.

Blöð í Bretlandi og Bandaríkjunum slógu morðinu upp á forsíðu og þar hófust ekki síður umræður um sekt eða sakleysi Sir Jocks. Díana var nánast frávita af sorg vegna dauða elskhuga síns og trúði vinum fyrir því að hún tryði tæplega þeim yfirlýsingum eiginmanns síns að hann væri saklaus. Þrátt fyrir það stóð hún með manni sínum og réð lögfræðing til að verja hann. Réttarhöldin vöktu heimsathygli og flestir meðlimir Muthaiga klúbbsins stóðu með Sir Jock. Díana fékk allt illa umtalið, hún var stimpluð lauslætisdrós og drykkja hennar tíunduð. Hún lét slúðrið ekki á sig fá, konan sú, heldur kom á hverjum degi í réttarsalinn í glæsiflíkum og var aldrei í sömu flíkinni tvisvar þær fimm vikur sem réttarhöldin stóðu yfir.

Muthaiga-klúbburinn í Nairobi.

Sir Jock var sýknaður vegna skorts á sönnunum og margir töldu að morðið hefði yfirbragð hefndar afbrýðisamrar konu. Meðal þeirra sem nefndar voru sem líklegir sökudólgar voru Alice de Janzé ekki hvað síst vegna þess að hún var búin að sýna að hún hikaði ekki við að kenna elskhugum sínum lexíu ef þeir sviku hana, Gwladys Delamere sem var sögð syrgja Erroll frá því að ástarævintýri þeirra lauk og sagan segir að hún hafi aldrei komist yfir hann, June Garberry var enn ein og einnig var Díana sjálf nefnd til sögunnar því Erroll var þekktur fyrir allt annað en tryggð og ævintýri hans entust yfirleitt ekki lengi. Alice de Janzé drap sig átta mánuðum eftir að Erroll var myrtur. Hún vafði túrban um höfuð sitt, lagðist upp í blómum skreytt rúm sitt og skaut sig.

Eftir réttarhöldin fóru þau Díana og Sir Jock til Indlands og ætluðu að hvíla sig hjá vinum sínum. Hún lýsti ferðinni sem algjörri martröð og samband þeirra var orðið þeim báðum óbærilegt. Vantraust og iðrun gagntók bæði. Afleiðingar hneykslisins voru þó meiri en þau höfðu gert sér grein fyrir. Fólk forðaðist þau. Enginn heilsaði þeim á götu og þeim var bönnuð innganga í Muthaiga klúbbinn. Þrátt fyrir niðurstöðu réttarins þótti ekki fullsannað að Sir Jock væri saklaus og margir veltu því sama fyrir sér með Díönu.

Djinn höllin sem Erroll lávarður bjó í áður.

Eftir útskúfun þeirra úr samfélaginu tóku þau á leigu hús Errolls lávarðar hina íðilfögru Djinn höll við Naivasha vatnið. Líkt og til að halda í minninguna um manninn sem var myrtur hékk málverk af Erroll uppi í húsinu. Hjónin lifðu í einangrun við vatnið en Díönu tókst samt að komast í kynni við og hefja ástarsamband við Gilbert Colvile sem var besti vinur Errolls. Colvile var einn stærsti nautabóndi Kenýa og vellauðugur. Sir Jock hélt áfram að drekka og heiftarlegar skapsveiflur hans urðu brátt alkunna. Með hjálp Colviles og samúðar almennings tókst Díönu að ná aftur fyrri stöðu sinni meðal íbúanna við vatnið.

Að lokum hélt Sir Jock til Englands yfirkominn af þunglyndi og vanlíðan. Þar játaði hann fyrir tveimur vitnum að hafa drepið Erroll bókaði sig síðan inn á hótel og sprautaði sig með of stórum skammti af morfíni. Eftir dauða hans giftist Díana Colvile sínum og sýndi honum ástúð það sem eftir lifði ævinnar. Hann á móti keypti Djinn höll handa henni til að sýna að hann skildi hversu djúpar tilfinningar hennar í garð Errolls höfðu verið. Síðar varð hún ástfangin af Tom Delamere og skildi við Colvile. Sagt var að hann hefði séð ósköpin öll eftir henni en Díana og nýji maðurinn reyndust honum vinir í raun og samband hans við þau bæði var náið og gott.

Díana náði fljótlega að endurreisa virðingu sína innan breskrar yfirstéttar sem Lady Delamere og bjó alla tíð í Kenýa. Hún var þó ætíð umrædd í slúðurdálkum dagblaðanna en hvort fyrsti maður hennar raunverulega drap Erroll eða hvort það var verk forsmáðrar konu hefur aldrei þótt fullsannað. Skrifaðar hafa verið margar bækur um morðin og þennan hóp fólks sem braust svo rækilega undan siðvenjum samtíma síns.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.