Helga Thorberg fullyrðir að konur á hennar aldri séu vannýtt auðlind en hún gefur nú kost á sér í fyrsta sæti í Norðvesturkjördæmi fyrir Sósíalistaflokkinn í næstu kosningum. Í viðtali fyrir nokkrum árum sagði Helga: „Ég brenn fyrir umhverfis- og loftslagsmálum og velti því fyrir mér hvort ég geti ekki látið að mér kveða á því sviði á næstu misserum.“ Síðan eru liðin nokkur ár og nú er Helga búin að finna sér pall til að standa á. Hún gekk í Sósíalistaflokkinn fyrir þremur árum og nú hafði uppstillingarnefnd flokksins samband við hana og spurði hvort hún myndi ekki vilja gefa kost á sér. „Þeir náðu mér með því að bjóða mér Norðvesturkjördæmi þar sem hjarta mitt slær,“ segir Helga en faðir hennar og afi voru Ísfirðingar.
Leikkona og garðyrkjufræðingur
Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem Helga lætur til sín taka í stjórnmálum því hún tók þátt í stofnun Kvennalistans og Kvennaframboðsins 1983. Nú, 38 árum síðar, hefur Helga enn brennandi áhuga og segist nú þar að auki vera reynslunni ríkari sem skipti miklu máli í pólitík. Loftslagsmálin og hlýnun jarðar séu stóru viðfangsefnin sem heimurinn þurfi að takast á við.
Helga er leiklistarmenntuð og garðyrkjufræðingur. Leiklistin hefur átt hug hennar og hún hefur í gegnum tíðina sett upp leikrit, rekið blómabúð og skrifað bækur. Og nú ætlar hún að láta til sín taka í pólitíkinni með það fyrir augum að ljá fólkinu í landinu rödd. Hún er um þessar mundir að ferðast um kjördæmið og safna meðmælendum með framboðinu. „Ég er að heyra í kjósendum til að fá upplýsingar um það hvað brennur á fólki,“ segir Helga. „Við eigum þetta land og það þarf að valdefla fólkið svo það hafi meira að segja um hvernig því er stjórnað. Raddir fólksins þurfa að heyrast.“
Segir mikið um flokkinn að velja konu á þessum aldri
Helga er orðin 71 árs og fagnar hverju árinu sem bætist við. Og á meðan hún getur orðið að gagni ætlar hún að gera það. „Það segir mikið um Sósíalistaflokkinn að velja konu á þessum aldri til að leiða lista,“ segir Helga og er hæstánægð með sinn flokk.. „Við konur sem höfum tíma, brennandi áhuga og reynslu þurfum að eiga okkar rödd í samfélaginu. Við erum vanar að taka til og vitum að skíturinn safnast í hornin. Hann safnast líka undir teppin og við kunnum að lyfta þeim upp og sópa undan. Ég vil hrista upp í kerfinu, sópa undan og raða á réttlátan máta aftur. Freka barnið á ekki að borða alla kökuna í afmælinu! Við kunnum að skipta jafnt svo allir fái sinn skerf. Ástandið eins og það er orðið í dag ofbýður mér og ég vil leggja mitt af mörkum til að leiðrétta stöðu þeirra sem minna mega sín.“
Gætir þess að nýta tímann og lifa lífinu
Helga segist vera fyrir löngu komin á þann stað að hún gæti þess að lifa lífinu lifandi. „Ég hef gert töluvert af því að ferðast úti í heimi gegnum árin. En undanfarin tvö ár hafa verið öðruvísi eins og allir vita og þá hef ég gert mikið af því að ferðast innanlands. Við það að ferðast um landið hef ég gert mér betur grein fyrir þörfinni að fólkið sem býr þar hafi rödd. Við verðum að efla atvinnugreinarnar á þessum stöðum, húsnæðismálin og heilbrigðismálin, grunnþarfir fólks þurfa að vera í lagi. Ég ætla glöð að leggja mitt lóð á vogarskálina,“ segir Helga hress í bragði.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.