Mælskur mannvinur

Varla myndu margir spá því að feimið og óframfærið barn myndi ná miklum frama í stjórnmálum eða yfirleitt á nokkru sviði er krefst þess að það komi fram á opinberum vettvangi. Eleanor Anna Roosevelt var þannig barn en náði engu að síður að skapa sér virt nafn á alþjóðavettvangi, ekki eingöngu sem forsetafrú Bandaríkjanna heldur einnig sem mannvinur, stjórnmálaskörungur og rithöfundur.

Eleanor Anna Roosevelt fæddist 11. október árið 1884 í New York. Foreldrar hennar voru Elliott Roosevelt og Anna Hall. Elliott var yngri bróðir Theodore Roosevelts sem var forseti Bandaríkjanna 1901–1909. Eleanor missti móður sína átta ára gömul en ef marka má sögusagnir var það ekki mikill missir því móðir hennar hafði eingöngu sýnt henni kulda að sögn þeirra sem til þekktu. Pabbi hennar var alkóhólisti og átti það til að hverfa dögum saman. Hann var sömuleiðis mikill kvennamaður og sagt var um hann að hann eltist við hvert pils. Tveimur árum síðar, eða árið 1894, var hann einnig látinn, sennilega af völdum drykkju, og eftir það ól móðuramma Eleanor hana upp.

Á unglingsárunum var Eleanor svo feimin að hún lokaði sig inni í skáp frekar en að hitta fólk. Amma hennar sendi hana til Englands í skóla og þar gekk hún í hinn virta kvennaskóla Allenswood. Skólastýran þar, Madame Souvestre, kom auga á hvað í ungu konunni bjó og hún gerði sitt besta til að fullvissa hana um að leiðtogahæfileikar hennar og gáfur væru óumdeilanlegar. Eleanor sagði síðar að það hefði haft lítil áhrif þá nema að því leyti að orð hennar hefðu glatt sig mikið.

Málverk af Eleanor sem á að sýna öll þau fjölmörgu svið sem hún beitti sér á og náði árangri í að bæta.

Tengdamamma vildi hana ekki

Eins og aðrar ungar yfirstéttarstúlkur á þeim tíma var Eleanor kynnt í samkvæmislífinu. Hennar samkvæmistímabil var veturinn 1902 og kynningardansleikur hennar var haldin á Waldorf-Astoria hótelinu. Hún hafði þó ekki mestan áhuga á samkvæmislífinu því fljótlega eftir að hún kom aftur til Bandaríkjanna gekk hún til liðs við góðgerðarsamtökin Junior League og einnig tók hún mikinn þátt í starfi bandarísku neytendasamtakanna. Í gegnum starf sitt sá hún með eigin augum misréttið og hinar ömurlegu vinnuaðstæður sem voru í bandaríska fataiðnaðinum. Hún heimsótti sömuleiðis fátækrahverfi borgarinnar og gerði sér grein fyrir að innflytjendur í Bandaríkjunum bjuggu við rýran kost.

Árið 1903 trúlofaðist hún frænda sínum Franklin Delano Roosevelt. Franklin og pabbi Eleanor voru fimmmenningar en móðir Franklins var af Deleno ættinni og var ekki par hrifin af trúlofuninni. Hún gerði allt hvað hún gat til að telja son sinn af því að giftast Eleanor og taldi að þessi feimna, ófríða og hægláta stúlka ætti eftir að verða dragbítur á framabraut sonarins. Sjálfur sagði Franklin að frænka hans og unnusta væri hlý, full af lífsorku og skilningi. Unga parið gifti sig því tveimur árum síðar þrátt fyrir andstöðu móður hans. Theodore Roosevelt, fyrrum forseti leiddi, brúðina inn kirkjugólfið og tók að sér föðurhlutverk gagnvart henni við brúðkaupið.

Franklin útskrifaðist frá lagadeild Columbia háskóla og fékk umsvifalaust stöðu hjá virtri lögmannsstofu á Wall Street, Carter, Ledyard og Milburn. Lögmannsstörfin þóttu honum hins vegar heldur leiðinleg þegar til kom og því þurfti hann ekki mikla hvatningu frá Theodore frænda sínum áður en hann ákvað að bjóða sig fram til öldungadeildar Bandaríkjaþings árið 1910. Eleanor reyndist honum þá strax betri en enginn og sagt var að hún hefði verið hans helsta hjálparhella og kosningastjóri upp frá því.

Eleanor með manni sínum Franklin Delano en hún var alltaf mjög ástfangin af honum.

Fann ástarbréf til mannsins síns

Meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð gat Eleanor ekki setið aðgerðalaus og starfaði hún því með Rauða krossinum. Hún heimsótti m.a. særða hermenn á sjúkrahús og hvatti þá til að láta ekki deigan síga og uppskar bæði ást þeirra og aðdáun fyrir vikið.

Eleanor var alla tíð mjög ástfangin af manni sínum og það var henni mikið áfall þegar hún fann árið 1918 dágóða hrúgu ástarbréfa sem einkaritari hennar, Lucy Mercer, hafði skrifað manni hennar. Af bréfunum var augljóst að Franklin endurgalt tilfinningar einkaritarans og á milli þeirra var ástarsamband. Eleanor bauð manni sínum skilnað en hann kvaðst ekki vilja hann og lofaði að slíta sambandinu. Roosevelt hjónin voru áfram gift en um líkamlegt samband var ekki að ræða á milli þeirra eftir þetta. Þau áttu saman sex börn og voru góðir vinir. Lucy Mercer giftist síðar en eftir lát eiginmanns hennar tóku hún og Franklin upp ástarsamband að nýju og hún hjúkraði honum þegar hann lá banaleguna árið 1945.

Hún var einnig mikill talsmaður kvenréttinda og var meðlimur í samtökunum League of Women Voters sem hafði það á stefnuskrá sinni að auka þátttöku og frama kvenna í pólitík. Hún var einnig í samtökum kvenna í atvinnulífinu og barðist þar fyrir því að bæta vinnuaðstöðu kvenna, meðal annars saumakvennanna sem hún hafði kynnst þegar hún vann með neytendasamtökunum. Hún stofnaði einnig með hjálp félaga sinna í Demókrataflokknum stúlknaskóla sem nefndur var Todhunter. Þar kenndi hún sjálf sagnfræði og um bandaríska stjórnkerfið. Á þessum tíma skrifaði hún einnig mikið, meðal annars grein í tímaritið Redbook sem hún kallaði Konur verða að læra að leika leikinn eins og karlmenn leika hann.

Franklin veiktist af lömunarveiki árið 1921 og var eftir það bundinn við hjólastól. Eleanor reyndist honum þá betri en enginn og hvatti hann til að halda áfram stjórnmálaferli sínum. Hún lét ekki standa við orðin tóm heldur ferðaðist enda á milli í þessu stóra landi og rak kosningaáróður fyrir mann sinn. Þar sem hann átti erfitt með að ferðast flutti hún ræður hans og talaði þannig til kjósenda fyrir hann. Árið 1932 fór Franklin svo í forsetaframboð á móti Herbert Hoover sem var sitjandi forseti um þær mundir. Roosevelt hjónin lögðu upp í kosningabaráttuna með áætlun um hvernig ætti að takast á við kreppuna sem þau kölluðu The New Deal eða Nýi samningurinn. Þrettán milljónir manna voru atvinnulausar og sjálfstraust Roosevelts og mælska kveikti með þeim nýja von. Roosevelt sagði: „Þessi mikla þjóð hefur mátt þreyja þorrann og góuna líkt og hún hefur áður gert, en nú mun hún lifna og blómgast.“

Bauð aðeins blaðakonum

Franklin var kosinn með miklum meirihluta atkvæða og þau hjónin fluttu í Hvíta húsið. Þar varð Eleanor fyrst allra forsetafrúa Bandaríkjanna til að halda blaðamannafund en hún átti eftir að halda þrjú hundruð slíka á meðan á valdatíma manns hennar stóð. Auk þess að halda blaðamannafund bauð hún þangað eingöngu blaða- og fréttakonum því hún vissi að með því móti neyddi hún ritstjóra og aðra yfirmenn fjölmiðla til að gefa konunum sem annars voru mjög valdalitlar á ritstjórnum tækifæri til að skrifa alvörufréttir. Árið 1935 byrjaði hún svo að senda frá sér daglegar yfirlýsingar, sem hún kallaði My Day (Dagurinn minn), og birtust þær í flestum fjölmiðlum Bandaríkjanna og hún hélt þessum skrifum áfram þar til hún dó árið 1962.

Á fjórða áratugnum helgaði hún sig að mestu málefnum verkalýðsins. Hún hrinti af stað byggingu verkamannabústaða fyrir kolanámumenn í Vestur-Virginíu og hún var ein þeirra sem stofnaði landssamband „The National Youth Administration“ sem ætlað var að tryggja að mannréttindi væru ekki brotin á ungu fólki á vinnumarkaði. Hún vann einnig ötullega við hlið manns síns að mörgum mannréttindamálum og var milligöngumaður milli hans og margra baráttusamtaka.

Eleanor var ætíð samkvæm sjálfri sér og hreinskilin og til marks um það sagði hún sig úr Daughters of the American revolution kvenréttindasamtökunum eftir að þær neituðu Marion Anderson, sem var þeldökk söngkona, um inngöngu. Hún sendi þeim harðort skammarbréf þar sem hún sagði meðal annars: „Ykkur var gefið tækifæri til að leiða bandarískar konur á upplýstan og menntaðan hátt en ég sé ekki betur en að samtökum ykkar hafi mistekist hrapallega.“ Og Eleanor gerði betur en það því hún bauð Marion Anderson að koma og syngja opinberlega á tröppum Lincoln minnismerkisins í Washington.

Eftir dauða Franklins árið 1945 bauð Harry S. Truman forseti Eleanor að gerast sendifulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún þáði boðið og helgaði sig þar mannréttindamálum og barðist mjög fyrir því að allar aðildarþjóðirnar tryggðu þegnum sínum lágmarks borgaraleg réttindi. Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1946 þar sem tillaga um málefni flóttamanna var rædd, lenti hún í miklum kappræðum við sovéska sendifulltrúann. Líta má svo á að Eleanor hafi unnið þær kappræður því atkvæðagreiðsla um tillöguna fór henni í hag. Hún var einnig fylgjandi stofnun Ísraelsríkis og hvatti Truman til að leggja því máli lið. Hvort hún hefði verið jafnhrifin af Ísrael í dag er aftur efamál. Meðan Eisenhower var við völd dró Eleanor sig í hlé en tók við starfi sínu aftur þegar Kennedy var kosinn 1961. Hún átti þó ekki langa starfsævi eftir það því hún dó á heimili sínu 7. nóvember 1962 og var grafin við hlið manns síns í Hyde Park.

Magnaðar setningar sem hafðar eru eftir Eleanor Roosevelt:

„Þú eykur styrk þinn, kjark og sjálfstraust í hvert skipti sem þú raunverulega staldrar við og horfist í augu við óttann.“

„Þú getur sagt við sjálfan þig: Ég lifði af þessar hörmungar. Þú verður að gera það sem þú getur ekki gert.“

„Enginn getur stuðlað að því að þú fáir minnimáttarkennd án þíns samþykkis.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 8, 2025 07:00