Maggie er enginn hefðarköttur

Kötturinn, Maggie, er harðákveðinn í að halda út þótt hún þurfi að stikla um heitt blikkþakið brennandi undir þófunum. Og hún leiðir okkur inn í sýningu Borgarleikhússins á Köttur á heitu blikkþaki eftir Tennessee Williams. Þetta verk er auðvitað löngu orðið klassískt. Það er margrætt og flókið en kjarninn er fjölskylda í krísu, fjölskylda sem ekki getur talað saman, nær ekki að mynda tengsl og fæstir í neinu sambandi við eigin tilfinningar.

Texti Tennessees er lipur, fyndinn, dramatískur en aldrei skýr. Hér liggur allt í undirtextanum, því sem er gefið í skyn. Uppsetningin er áleitin, næstum óþægileg á stundum, við erum bókstaflega inni í svefnherbergi Maggie-ar og Bricks og meðal okkar sitja aðrir fjölskyldumeðlimir. Nándin er stundum yfirþyrmandi en einmitt hana skortir fjölskylduna. Höfundur gaf sjálfur þau fyrirmæli að á sviðinu væri tvíbreitt rúm og hér er farið eftir þeim. Rúmið situr í miðjunni og allt í kring er raðað áhorfendabekkjum. Leikurinn fer síðan fram í rúminu og í kringum það.

Söguþráðurinn er í stuttu máli sá að fólkið er samankomin til að fagna sextugsafmæli fjölskylduföðursins. Hann er ævinlega nefndur stóri pabbi og er maður sem reif sig upp úr sárri fátækt til auðs og valda. Hann er ruddi, tekur ekki tillit til tilfinninga eins eða neins og útdeilir í krafti þess valds sem peninarnir veita honum athygli, sinni og ást ef hann er fær um að veita ást. Stóra mamma, kona hans, sér ekkert annað en hann. Hún snýst um hann eins pláneta um sólina og hans eftirlæti er jafnframt hennar. Synirnir eru tveir, Cooper, rólegur, ábyrgur fjölskyldufaðir sem alltaf hefur þurft að sætta sig við að standa í skugga bróður síns, Brick, fyrrum íþróttastjörnu, sem nú virðist stefna að því einu að drekka sig í hel. Konur þeirra bræðra, heita May og Maggie og fram kemur að þær eiga það sameiginlegt að vera friðlausar eins og kettir á heitu blikkþaki. Við sögu kemur einnig prestur úr nálægri sókn, fjölskylduvinur. Hlutverk hans er helst það að létta andrúmsloftið og Halldór Gylfason gerir það einstaklega vel. Einnig heyrum við af börnum þeirra Coopers og May en sjáum þau aldrei.

Flókið verk með margræða merkingu

Byrjum á Maggie. Hún segist vera köttur en hún er enginn hefðarköttur. Maggie er flækingsköttur og kann að komast af á götunni en veit líka, eins einn slíkur, að fyrr eða síðar gufa bjargirnar upp, hún mun eldast og þá verður ekki eins auðvelt að komast af. Þess vegna ætlar þessi köttur að lenda á fótunum, tryggja sér afkomu það sem eftir er. Ásthildur Úa Sigurðardóttir bókstaflega neistar í hlutverki Maggie-ar. Hún er grimm, öskureið, örvæntingarfull og svo ákveðin að það jaðrar við þráhyggju. Hingað til hefur Maggie getað notað kynþokka sinn og fegurð til að koma sér áfram en það virkar ekki á Brick. Hann er fullkomlega skeytingarlaus gagnvart henni og hún reynir af öllum mætti að vekja með honum einhver viðbrögð, ná fram einhverjum tilfinningum en hann er fullkomlega kaldur. Það eina sem hreyfir við honum er nafn Skippers, besta vinar hans sem er nýdáinn.

Þetta flókna verk var skrifað árið 1955 og hér er margt í forgrunni. Er Brick samkynhneigður eða glímir hann bara við djúpa sorg vegna andláts besta vinar síns og svika eiginkonunnar? Voru þeir Skipper og Brick elskendur eða náðu þeir aldrei að viðurkenna ást sína hvor á öðrum og nú er það orðið of seint? Er Brick gagnkynhneigður en þjáist jafnframt sorginni af sektarkennd vegna þess að hann gat ekki veitt vini sínum þá ást sem hann þráði og sú þrá kostaði hann lífið? Þessum spurningum er ekki svarað og ekki heldur hvers vegna þeir Brick og stóri pabbi eiga það sameiginlegt að þeir geta ekki trúað nokkur geti elskað þá.

Við vitum lítið um bakgrunn stóra pabba, einungis það að hann kom allslaus til landareignarinnar, réði sig ráðsmann þar og lagði á sig ómælt erfiði til að koma henni rækt og gera hana arðbæra. Samkynhneigt par átti landareignina og arfleiddi ráðsmann sinn af henni. Stóri pabbi elskar ekkert nema þetta land og son sinn Brick. Óljóst er hins vegar hvort Brick elskar föður sinn. Í það minnsta gefur hann lítið af sér þegar stóri pabbi reynir að nálgast hann af vanmætti en í fullri einlægni. Brick hrekur hann frá sér rétt eins og Maggie. Ekki hvað síst í þessu felst margræðni textans og hver og einn verður að komast að eigin niðurstöðu.

Örvæntingarfull tilraun til að tengjast

Sigurður Ingvarsson leikur Brick og er sannfærandi þótt maður skynji ekki nægilega vel þá djúpu örvæntingu sem hann glímir við. Það skín í hana á stundum en það varir ekki lengi. Hilmir Snær Guðnason nær hins vegar fullkomlega að skila ráðaleysi og örvinglan stóra pabba. Hann elskar þennan son og reynir allt hvað hann getur að nálgast hann, mynda tengsl en það er of seint og þessi tilfinningaskaddaði maður hefur einfaldlega ekki tólin sem þarf. Áhorfandinn hefur í senn hálfgert ógeð á honum vegna grimmdar hans gagnvart Cooper, May og stóru mömmu og kitlandi samúð því hann er virkilega að reyna sitt besta til að bjarga Brick. Kannski liggur vanmáttu þeirra feðga til að nálgast hvor annan í því hversu líkir þeir eru, báðir ófærir um að gefa og þiggja ást. Hver svo sem grunnurinn er að því hjá stóra pabba er nokkuð ljóst að Brick er hvorki getur né vill horfast í augu við sjálfan sig.

Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikur stóru mömmu og þar sjáum við aðra útgáfu af ketti, þessi er gamall og feitur. Hann hefur misst hvasst bit klóa sinna en reynir enn, hans úrræði eru undirgefni. Hann þráir að fá að eyða því sem eftir er ævinnar í notalegri hlýju við arininn og tryggð hans liggur hjá þeim sem getur tryggt honum pláss þar. En hér kemur fleira til, stóra mamma elskar líka mann sinn, í það minnsta segir hún það. Hann trúir því ekki en áhorfendur trúa því og það gefur persónu, sem annars væri beinlínis ógeðfelld, dýpt. Katla Margrét nær að leika hárfínt á þessi mörk og vinna vel með þau.

Vegna þess hversu mikil nándin er í þessari sýningu hvílir það þungt á leikurunum að skapa skilning, fá persónurnar til að lifna og halda athygli áhorfenda. Þessum leikhópi tekst það frábærlega og meira að segja Cooper og May, sem þau Hákon Jóhannesson og Heiðdís C. Hlynsdóttir leika, ná að vekja hlýhug og samlíðan. Þeirra örvænting er svo sár því þau eiga aldrei sjéns. Það er alveg sama hvað þau gera Brick verður ævinlega vegi fyrir þeim og ekkert fær haggað því. Sú staðreynd er ekki hvað síst það sem gerir þessa sýningu svo áhrifamikla. Allir þekkja togstreitu innan fjölskyldna, samkeppni um ást og athygli foreldranna og sumir vita hvað það er að standa í skugga uppáhaldsbarnsins. May er einnig líkt við kött en hún er læða með kettlinga og högnann sinn sem hún ver með kjafti og klóm. Köttur á heitu blikkþaki er frábærlega vel unnin sýning sem hreyfir við áhorfendum og skilur þá eftir ígrundandi, jafnvel meyra og sorgmædda yfir hversu erfitt það getur verið að eiga og skapa góð fjölskyldutengsl.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 5, 2025 07:00