Tengdar greinar

Magnea J. Matthíasdóttir skáldkona

Magnea J. Matthíasdóttir skáldkona var umdeildur rithöfundur á Íslandi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þá komu út bækur eftir hana sem vöktu gríðarlega athygli. Bækur eins og Hægara pælt en kýlt, Sætir strákar og Göturæsiskandidatar.Magnea segir að það hafi ekki verið neinn dans á rósum að vera „bersögull“ rithöfundur á Íslandi á þessum tíma, en í bókagagnrýni var hún sögð vera það. Hún varð fyrir miklu áreiti. „Ég var forviða á því hvernig fólk hagði sér, það hringdi til dæmis og jós yfir mig svívyrðingum“, rifjar hún upp. „Fyrir þremur árum kíkti ég í bækurnar aftur og gat ekki séð hvað var svona svakalegt í þeim“.

Magnea byrjaði að þýða sögur og bækur um tvítugt og eftir skáldsöguskrifin sneri hún sér að þýðingunum. „Ég  hef verið að þýða alla tíð, alveg frá því ég uppgötvaði hvað það er gaman. Það er virkilega skemmtilegt að glíma við texta sem maður hefur ekki skrifað sjálfur“, segir hún. Þessi áhugi Magneu varð til þess að hún tók meistarapróf í þýðingarfræðum í háskólanum og er núna komin í doktorsnám í faginu. Þegar hún er spurð hvort hún eigi einhverja uppáhaldsbók sem hún hafi þýtt segir hún að það sé yfirleitt sú bók sem hún er að þýða hverju sinni. „Ef bók er vel skrifuð verður maður gagntekinn af henni. Ég er núna að þýða mjög fína bók eftir Yuval Noah Harari, sem heitir á ensku Sapiens – Brief History of Human Kind  og mun líklega koma út á næsta ári.

Magnea hefur ekki skrifað skáldsögu síðan Sætir strákar komu út. Hún segir að viðbrögðin við bókunum hafi verið þannig að sér hafi fallist hendur. „Ekki gagnrýnin, en lætin í sumu fólki drógu mér kjark og gleðina við að skrifa. Ég hef að mestu skrifað fyrir skúffuna síðan. Þar á ég drög og hálfskrifaðar sögur, en ég hef að vísu stundum birt ljóð eða smásögur í tímaritum. Árið 2008 kom út eftir mig eins konar jólabók, vísnakverið Jólasveinar – af fjöllum í fellihýsi. Að öðru leyti hef ég lítið verið að troða hugarfóstrunum upp á aðra,“ segir hún. Magnea hefur alla tíð unnið með texta á einn eða annan hátt. Hún var lengi prófarkarlesari og vann við heimasíðugerð í 8-10 ár. Þegar fyrirtækið sem hún átti ásamt fleirum fór á hausinn í hruninu, hætti hún því og dreif sig í meistaranámið í HÍ og er stundakennari í þýðingarfræðum í dag samhliða doktorsnáminu.

Magnea á tvö uppkomin börn og sex barnabörn. „Þau eru yndisleg. Ég var svo heppin að fá barnabörnin í tveimur „hollum“. Fyrst þrjá stráka og svo komu seinna þrjú til viðbótar og sú yngsta var að byrja í skóla. Þegar maður horfir á þau, veit maður til hvers maður var að þessu“, segir hún að lokum.

Ritstjórn október 10, 2018 14:32