Áskrifendum fjölgaði um 100% á fimm árum

Um fjögur þúsund manns eru með fasta áskrift að tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu og hefur sala áskriftarkorta aukist um rúmlega 100% frá árinu 2009. Mesta aukningin varð þegar hljómsveitin flutti í Hörpu árið 2011 eða um 62% milli ára. Margrét Ragnarsdóttir markaðs- og kynningarstjóri Sinfóníunnar segir að það hafi gengið mjög vel að halda áskrifendum eftir þetta stóra stökk, þótt sala áskriftarkorta hafi dregist lítillega saman árið eftir.

Meðalaldur áskrifenda 57 ár

Flestir eru áskrifendur að rauðu tónleikaröðinni, en þá kaupa menn miða á sjö tónleika yfir veturinn. Áskriftirnar eru misdýrar eftir því hvar menn sitja í húsinu, en ódýrustu áskriftarmiðarnir í rauðu röðinni kosta rúmlega 19.000 krónur. Ef setið er í almennum sætum í sal kostar áskriftarmiðiðnn fyrir veturinn 28.560 krónur. Meðalaldur þeirra sem eru með áskriftarkort er 57 ár. Margrét segir það hugsanlega skýrast af því að tónlistarsmekkur fólks breytist með auknum þroska og aldri enda hafi menn þá oft betri tíma til að spá í tónlistina, en á unga aldri.

Vínartónleikarnir vinsælastir

Margrét segir að oft byrji menn á því að gerast áskrifendur að grænu tónleikaröðinni sem sé með léttari tónlist en sú rauða. Vínartónleikarnir séu yfirleitt vinsælustu tónleikar Sinfóníunnar, en fernir slíkir eru haldnir. Það eru söngvararnir Garðar Thor Cortes yngri og Dísella Lárusdóttir sem syngja á Vínartónleikunum í vetur. En aðsókn sé líka mikil, ef þekkt tónverk eru á dagskrá, þekktir stjórnendur eða einleikarar. Það hafi til dæmis verið eftirsótt að komast á tónleika með píanóleikurunum  Evgeny Kissin og Víkingi Heiðari Ólafssyni sem spila  á tónleikum Sinfóníunnar  á næstunni.

Sinfónían spilar með öðrum

Á síðasta ári sóttu 74.000 gestir tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar, en þeirra á meðal er skólanemendur á öllum aldri sem er boðið á sérstaka tónleika í Hörpu. Margrét segir gestina á öllum aldri. Sinfóníuhljómsveitin hafi líka haldið tónleika með öðrum sem hafa verið vinsælir, svo sem hljómsveitinni Skálmöld og tónlistarmanninum Páli Óskari.

 

 

 

Ritstjórn ágúst 29, 2014 17:12