Margrét Kristjana Sverrisdóttir átti snarpan stjórnmálaferil sem hófst árið 1998, þegar hún varð framkvæmdastjóri þingflokks Frjálslynda flokksins sem faðir hennar Sverrir Hermannsson stofnaði. Hún varð jafnframt varaþingmaður Reykjavíkur og sat á þingi um tíma vorið 2000. Auk þess varð hún varaborgarfulltrúi Frjálslynda flokksins í Reykjavík í kosningum 2002 og 2006. Hún sat í borgarstjórn frá ársbyrjun 2007, var formaður mannréttindaráðs og kjörin forseti borgarstjórnar þegar nýr meirihluti Framsóknarflokks, Samfylkingar, VG og F-listans tók við og sat sá meirihluti í 100 daga.
Fyrir Alþingiskosningarnar 2007 tók Margrét þátt í að stofna nýjan stjórnmálaflokk, Íslandshreyfinguna, sem barðist fyrir náttúruvernd, og er hún enn varaformaður flokksins en Ómar Ragnarsson formaður. Flokkurinn náði ekki manni á þing. Eftir hrun, árið 2009, gengu Margrét og samherjar hennar í Íslandshreyfingunni í Samfylkinguna. Hún var formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar 2015-2017, en dró sig að mestu í hlé frá virku stjórnmálastarfi árið 2018.
Margrét var lengi virk í starfi Kvenréttindafélags Íslands; hún tók sæti í framkvæmdastjórn félagsins árið 2000, varð varaformaður árið 2003 og gegndi formennsku í félaginu 2008-2011.
Sérfræðingur hjá Rannís
Margrét, sem er fædd árið 1958, hefur frá árinu 2008 gegnt starfi sérfræðings á mennta- og menningarsviði Rannís, þar sem hún sinnir verkefnum á sviði fullorðinsfræðslu í Erasmus+ menntaáætlun Evrópusambandsins og er verkefnisstjóri EPALE, (Electronic Platform for Adult Learning in Europe), vefgátt fullorðinsfræðslu í Evrópu. Einnig leiðir hún verkefni sem er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og kallast Menntun til sjálfbærni, en með því er unnið að samþættingu umhverfisverndar og skólastarfs.
Á yngri árum starfaði Margrét lengi við uppeldis- og umönnunarmál, meðal annars sem starfsmaður og síðar forstöðumaður félagsmiðstöðvanna Fellahellis og Vitans. Í áratug, 1982-1992, vann hún sem sjálfboðaliði að málefnum fatlaðra og 1993-1998 var hún verkefnisstjóri menningarverkefnisins Ungt fólk í Evrópu.
Framhaldsnám í þýðingarfræðum
Þegar Lifðu núna náði tali af Margréti var hún önnum kafin að vinna námsverkefni í þýðingarfræðum, enda stutt í lok vorannarinnar. „Ég var á leið til Danmerkur í námsleyfi árið 2020 þegar Covid skall á. Fyrst ég komst ekki út, lá beint við að nýta námsleyfið til að fara aftur í Háskóla Íslands og ég valdi þýðingarfræði sem framhaldsnám ofan á B.A. prófið mitt í íslensku,“ útskýrir Margrét. Hún sinnir náminu með fullri vinnu, og segist því ekki komast yfir meira en eitt eða tvö námskeið á önn. Hún sé þó nánast búin að ljúka öllum skyldukúrsum, og því styttist í að hún geti hafið vinnu við lokaverkefnið.
Spurð hvort námsvalið tengist því að það styttist í að hún geti farið að huga að starfslokum svarar hún: „Það er óhætt að segja það, ég hef reynslu af þýðingum og vildi gjarnan byggja ofan á hana.“ En ætlar hún þá að leggja stund á bókmenntaþýðingar þegar hún hættir í fastri vinnu?
„Já, ég er orðin 63 ára og er alla vega farin að leggja drög að starfslokum og stefni á að minnka starfshlutfallið smám saman á næstu árum,“ segir Margrét. Kórónuveirufaraldurinn hafi gerbreytti viðhorfi allra til fjarvinnu og hún sé svo heppin að geta sinnt starfi sínu mikið í fjarvinnu, í samstarfi við fólk innanlands, á meginlandi Evrópu og á Norðurlöndunum.
Stefna á rólegra líf á Eyrarbakka
„Við hjónin höfum síðustu árin unnið hörðum höndum að því að byggja hús á Eyrarbakka og ætlum bráðum að flytja í það dásamlega þorp við sjóinn,“ segir Margrét ennfremur um áformin framundan. Nýja húsið er byggt þannig að það falli alveg inn í götumynd gömlu húsanna í þorpinu „Við stefnum á rólegra líf þar næstu árin og svo eigum við gamlan bóndabæ á Ísafirði og Vestfjarðataugin er sterk. Við eigum tvö uppkomin börn, Kristján Sævald og Eddu, og njótum þess að vera með okkar fólki. Vonandi endist okkur líf og heilsa til að ferðast og stunda útivist og veiðar sem við höfum mjög gaman af. Og mig bókstaflega sundlar af hamingju á handfæraveiðum,“ segir Margrét að lokum.
Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.