Marínerað lambakjöt á spjóti

Lambaspjót fyrir 4-6:

Óhætt er að segja að hægt sé að slá í gegn með þessu dýrega grillspjóti og kalda sósan sem uppskriftin er að passar sérlega vel með.

700 g lambalundir

1 tsk.  cayenne pipar

30 g möndlur

2 msk. fljótandi hunang

4 msk. appelsínusafi

3 msk. ólífuolía

1 1/2 msk. rifin engiferrót

2 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð

2 skalotlaukar

2 msk. ferskt kóríander

salt og svartur pipar

1 rauð paprika, skorin í hæfilega bita

150 g sveskjur

Skerið lambalundirnar í hæfilega bita og látið í skál. Blandið öllu öðru hráefni nema papriku og sveskjum saman í skál og maukið með töfrasprota eða matvinnsluvél. Hellið maukinu yfir kjötið og blandið vel. Breiðið plastfilmu yfir skálina og látið kjötið standa þannig og marínerast í kryddblöndunni í a.m.k. 30 mínútur. Setjið paprikubitana saman við í skálina með kjötinu og látið kryddblönduna þekja þá. Þræðið upp á grillpinna kjöt, papriku og sveskju til skiptis. Grillið spjótin í 10 mínútur eða eftir smekk og þykkt kjötbitanna. Berið fram með bökuðum kartöflubátum eins og finnast hér á síðu Lifðu núna, jógúrtsósunni sem hér er uppskrift að og góðu salati.

Jógúrtsósa:

2 dósir hrein jógúrt

2 msk. sítrónusafi

1 hvítlauksrif, pressað

1/2 tsk. cayenne pipar

2 msk. kóríanderlauf

1/2 agúrka, skorin í bita

salt og pipar að smekk

Setjið jógúrt í skál ásamt sítrónusafa, hvítlauk, cayenne pipar og kóríander og blandið saman. Bætið agúrkubitum út í og kryddið með salti og pipar. Látið sósuna bíða í ísskáp í a.m.k. klukkustund áður en hún er borin frem með grillspjótunum.

Ritstjórn maí 22, 2020 07:46