Máttur snertingarinnar

Máttur snertingarinnar er mikill og mun meiri en margir gera sér grein fyrir. Vitað er að meðvitundarlausir sjúklingar skynja snertingu og að lítil börn ná ekki að þroskast nema komið sé við þau. Nudd hefur alla tíð verið mikilvægur þáttur í vellíðan manna og allir kannast við það að nudda auma bletti í því skyni að draga úr sársauka. Víða um heim er nudd notað í lækningaskyni ekkert síður en lyf en á Vesturlöndum var líknandi máttur nuddsins ekki viðurkenndur fyrr en á allra síðustu áratugum.

Seint á áttunda áratug síðustu aldar uppgötvaði bandarískur sálfræðingur að fyrirburar þyngjast hraðar séu þeir nuddaðir. Tiffany Field var þá aðstoðarprófessor og vann á mæðradeild háskólasjúkrahússins í Michigan. Hún hafði sjálf eignast dóttur fyrir tímann og reynsla hennar af umönnun barns, sem ekki var fullburða, varð til þess að hún bauð sig fram til að aðstoða á vökudeild fæðingardeildarinnar. Daglega barðist starfsfólkið við að tryggja það að fyrirburarnir næðu að þyngjast nóg til þess að þeir gætu farið heim með foreldrum sínum. Meltingarvegur fyrirbura er iðulega óþroskaður og þeir eiga því erfiðara með að nýta sér næringu en fullburða börn.

Tiffany hóf að skoða aðferðir mæðra í dýraríkinu við að hlúa að ungum sínum og komst að því að þétt og stöðug snerting er mjög mikilvæg í þroskaferli ungra dýra. Hún fann rannsóknarniðurstöður frá Duke háskóla sem sýndu að rottuungar höfðu mikla þörf fyrir að móðir þeirra sleikti þá. Vísindamönnunum tókst hins vegar að líkja eftir þeirri snertingu með votum málningarpensli þegar móðirin var ekki til staðar og koma ungunum til þroska þótt móðirin hefði dáið frá þeim. Tiffany lagði því til við samstarfsfólk sitt að það reyndi svipaða aðferð.

Börnin sem voru nudduð þyngdust mest

Lærður nuddari var fenginn til að nudda hóp fyrirbura í fimmtán mínútur á dag. Niðurstöður þessarar tilraunar voru hreint ótrúlegar. Fyrirburarnir sem fengu nudd náðu að þyngjast 47% meira en hinir sem ekkert nudd fengu og þeir fóru að jafnaði heim af sjúkrahúsinu sex dögum fyrr en hin börnin. Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að fyrirburarnir sem fengu nudd hefðu þyngst hraðar vegna þess að nuddið hefði örvað framleiðslu hormóna sem örva meltinguna.

Þessi rannsókn varð hins vegar til þess að vekja áhuga Tiffany á mætti snertingarinnar og því hversu mikinn þátt hún á í vellíðan manna. Hún hefur helgað líf sitt rannsóknum á því hvernig nudd stuðlar að betri líðan. Um þessar mundir er hún yfirmaður rannsóknarstofnunar Miami University á snertingu (Touch Research Institute). Meðal þess sem hún og samstarfsfélagar hennar hafa rannsakað eru áhrif nudds á HIV-smitaða, fíkniefnaneytendur, börn kókaínfíkla, krabbameinssjúklinga og stressaða starfsmenn heilbrigðisstofnana.

Rannsóknarhópurinn hefur sýnt fram á að nudd eykur afköst og einbeitingu manna við vinnu, dregur úr sársauka og minnkar meðgöngukvilla. Nudd eykur gleði- og vellíðunarboðefnin serótónín og dópamín í líkamanum. Þegar manneskja er nudduð slaknar á stífum vöðvum, liðböndum og sinum. Það gerir það að verkum að líkaminn eykur framleiðslu hormóna sem aðstoða við upptöku á fæðu. Auk þess dregur nudd verulega úr stressi og þá minnkar framleiðsla stera í líkamanum. Um er að ræða barkstera m.a. hýdrókortisón. Þessir sterar auka tilfinningalega og líkamlega streitu og draga úr hæfni manna til að einbeita sér.

Reglulegt nudd bætir margt meinið

Nýlegar rannsóknir hafa einnig sýnt að sterar hafa slæm áhrif á ónæmiskerfið og menn verða viðkvæmari fyrir sjúkdómum. Þetta bendir til þess að nudd og aðrar aðferðir til að draga úr streitu geti gert menn betur undir það búna að sigrast á bakteríum, vírusum og öðrum sjúkdómsvöldum í umhverfinu. En ekki síður getur þetta gert það að verkum að nudd hjálpi mönnum að ná bata eftir erfið veikindi. Tiffany Field og aðstoðarmenn hennar eru um þessar mundir að rannsaka hvort nudd geti hjálpað sjúklingum með brjóstakrabbamein til að ná heilsu aftur og HIV-smituðum að halda góðri heilsu.

Nudd með þéttingsföstum en mjúkum strokum sem vara stöðugt í a.m.k. fimmtán mínútur gefur bestan árangur. Auk þess geta allir verið sammála um að gott nudd eykur vellíðan og slökun í líkamanum. Það þarf því sennilega engan að undra það að af óhefðbundnum lækningaaðferðum er nudd sú aðferð sem flestir nýta sér og allir eru sammála um að gagnist. Læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn eru hiklaust farnir að vísa sjúklingum til nuddara þegar þeir telja að það gagnist. Hægt er að bæta mjög líðan bakveikisjúklinga, gigtarsjúklinga og þeirra sem þjást af síþreytu með því að senda þá reglulega í nudd. Þar fyrir utan hefur rannsóknarhópurinn í Miami fundið vísbendingar um að sykursýkissjúklingum, hjartasjúklingum og öðrum sem þurfa að gangast undir langvarandi lyfjameðferð nýtist lyfin betur fari þeir í nudd. Máttur mannlegrar snertingar er augljóslega mikill og sjálfsagt fyrir alla að notfæra sér hana.

Nudd, strokur og kit

Flestir hafa heyrt um margar mismunandi tegundir af nuddi og víða er hægt að panta kínverskt nudd, japanskt nudd, sjúkranudd, fótanudd og íþróttanudd. Heilsuræktarstöðvar, sjúkraþjálfunarstöðvar, heilsuhæli af ýmsu tagi og snyrtistofur auglýsa gjarnan ýmsar tegundir af nuddi. Hér á eftir verða taldar nokkrar þekktar aðferðir við að nudda.

Sænskt nudd eða sjúkranudd: Þessi aðferð var þróuð af sænska fimleikaþjálfaranum, Per Henrik Ling, í byrjun nítjándu aldar. Aðferð hans hefur notið mikilla vinsælda og er kennd í hefðbundnum nuddskólum. Um er að ræða heilnudd sem miðar að því að slaka á öllum vöðvum og auka vellíðan líkamans. Nuddarinn byrjar á höfðinu og nuddar líkamann í klukkustund með löngum, léttum strokum. Síðan tekur hann sára og auma vöðva og hnoðar þá hvern fyrir sig. Eitt af einkennum sænsks nudds er að nuddarinn slær gjarnan með handarjaðrinum á vöðvana, líkt og um létt karate högg sé að ræða. Í sænsku nuddi fær nuddarinn hita í hendurnar með volgum nuddolíum sem gjarnan innihalda ilmkjarnaolíur. Olíurnar miða að því að auka slökun og nudda húðina án minnstu núningsmótstöðu.

Japanskt nudd shiatsu: Þetta er japönsk útgáfa af hinni ævafornu kínversku nálarstunguaðferð. Shiatsu hefur stundum verið kallað nálarstunga án nála. Nuddarinn þrýstir þéttingsfast á ýmsa nálarstungupunkta á líkamanum og fylgir eftir helstu orkuflæðirásum líkamans sem kallast meridians. Handtök hans nefnast chi sem á japönsku þýðir fingurþrýstingur en sumir shiatsu nuddarar nota þó einnig olnbogana, hnén og jafnvel iljarnar til að þrýsta með. Tilgangurinn með nuddinu er að koma jafnvægi á orkuflæði í líkamanum. Í shiatsu eru ekki notaðar olíur og skjólstæðingurinn er í víðum fötum.

Fótanudd: Skjólstæðingar fara eingöngu úr skóm og sokkum, enda eru fæturnir sá líkamshluti sem aðallega er nuddaður. Fótanudd á rætur að rekja til Forn-Egypta en fótanuddarar nota fingurna til að leysa orku líkamans úr læðingi með því að þrýsta á ýmsa punkta í fótunum. Sagt er að ýmsir orkupunktar í fótunum vísi til ákveðinna líffæra eða svæða í líkamanum. Örvun fremst á tánum dregur til að mynda úr bólgum í nef- og ennisholum að sögn fótanuddara. Nudd af þessu tagi er einnig oft beitt á hendurnar þótt algengara sé að nudda fætur manna.

Íþróttanudd: Þetta er djúpt og kröftugt nudd þar sem nuddarinn einbeitir sér að vöðvum sem eru undir álagi í þeirri íþróttagrein sem skjólstæðingurinn stundar. Maraþonhlauparar þurfa til dæmis oft á því að halda að hásinarnar séu nuddaðar vel en tennisleikarar eru slæmir í upphandleggjum og öxlum. Íþróttanuddarar beita ýmist viðhaldsmeðferð til að halda vöðvum skjólstæðinga sinna mjúkum og sveigjanlegum eða forvarnarnuddi sem miðar að því að koma í veg fyrir íþróttameiðsl og flýta bata ef meiðsl verða.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.