Eru köld böð eins heilsusamleg og sagt er?

Á fyrsta degi ársins er orðinn fastur liður að sýna fólk í sjósundi í Nauthólsvík. Stemningin er mikil, margir klæða sig upp á og allir fullyrða að ekkert jafnist á við að dýfa sér í ískaldan sjóinn. En er það svo? Eru köld böð sú heilsu- og raunbót sem þeir sem ástunda þau fullyrða að þau séu?

Margir telja sjóböð og köld böð mikla meinabót.

Stór hópur fólks stundar orðið sjóböð og sjósund hér á landi og Íslendingar eru ekki einir um þetta. Víða á Bretlandi eru kuldalegar strendur landsins krökkar af fólki í sundfötum á hverjum degi og víða annars staðar er hið sama upp á teningnum. Líkamsræktarstöðvar hafa keppst við að bæta köldum pottum við úrval þeirra lífsgæða sem njóta má eftir æfingar og ótal fjölmiðlar hafa fjallað um gildi kaldra baða. Aðferðin er að setjast eða dýfa sér ofan ískalt vatn í 5-15 mínútur.

Vitað er að köld böð draga úr bólgum og verkjum. Þau hafa um aldir verið notuð við tognun, harðsperrum og öðrum stoðkerfisvandamálum. Iðkendur kaldra baða og sjóbaða telja hins vegar að þau séu auk þess góð fyrir blóðrásina, lyfti andanum og mýki húðina, stuðli að blóðsykursjöfnun, séu góð við svefnvandamálum og bæti meltinguna. Enn hafa vísindamenn hins vegar ekki staðfest allt þetta, hvað varðar andlegt heilbrigði og betri húð eru þeir hikandi.

Þeir segjast líka vita meira um hætturnar af köldum böðum en ávinninginn. Vitað er sjokkið við að fara ofan í ískalt vatn getur valdið hækkuðum blóðþrýstingi, auknum hjartaslætti og oföndun. Þetta eykur hættuna á hjartaáfalli og heilablóðfalli sé viðkomandi einstaklingur í áhættuhópi hvað þessa sjúkdóma varðar. Ef sjokkið er mikið er ákveðin hætta á að fólk drukkni ef það er að synda í djúpu vatni. Kuldaexem getur líka myndast á húðinni og það veldur bæði óþægindum og kláða. Kuldinn getur einnig brennt húðina, valdið kalsárum. Löng og viðvarandi köld böð geta valdið taugskemmdum vegna þess að kuldinn dregur úr blóðflæði um líkamann og taugarnar fá því ekki næga næringu.

Það er vissulega óþægilegt að fara ofan í ískalt vatn en flestir virðast venjast því ágætlega. Líkaminn verður hins vegar fyrir ákveðnu áfalli við að fara úr ískulda í hita, fyrst minnkar blóðflæðið um líkamann í viðleitni hans til að halda hitanum inni en síðan flæðir blóðið um æðarnar þegar aftur er farið í hita. Þetta hjálpar við að mýkja stirða vöðva og draga úr bólgum en getur haft áhrif á hjarta og æðakerfi einkum ef fólk er veikt fyrir. Það gildir því sennilega það sama um köld böð og sjóböð eins og allt annað að hóf er best á öllu.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn janúar 4, 2024 07:00