Áður en þú veist af eru aukakílóin orðin 10

Bára Magnúsdóttir hjá Dansrækt JSB í Reykjavík segir að fólk fitni mest í janúar og ágúst. „Það er mánuðinn eftir jólin því fólk heldur áfram að leyfa sér að borða of mikið og mánuðinn eftir sumarleyfin, sem það sama gildir um“, segir Bára. Hún hefur í mörg ár haldið námskeið og hjálpað konum sem það vilja, að grennast, og nýlega voru tugir kvenna á fundi hjá henni, sem ætla að losa sig við aukakílóin. Hennar uppskrift er einföld. Ef fólk fitnar er það að borða meira en það þarf á að halda og þarf að temja sér að borða minna. Annars bætast aukakílóin smám saman við, það kemur eitt ár og svo annað og svo enn annað. Menn finna að þeir bæta á sig. „Æi þessi jakki er orðinn þröngur“, segja menn kannski án þess að gera nokkuð í málinu og eftir 10 ár eru aukakílóin orðin 10-15. „Ef þetta gerði ekkert til værum við ekki að tala um það, en þetta hamlar okkur“, segir Bára. Hún segir að kona í yfirþyngd vilji ekki fara í ákveðin föt og ekki fara í sólarlandaferðir. Þegar hún hins vegar ákveði að snúa af þessari braut og grennast þá geti hún klætt sig eins og hún vill og farið þangað sem hana lystir. Fyrsta skrefið til að grennast, sé að taka ákvörðun um að það og síðan þurfi að bretta upp ermar. „Við verðum að horfast í augu við hlutina“ segir Bára „og svo þarf að mæta, þetta er ekki fjarnám það verður að mæta á staðinn“. Bára segir að yfirþyngdin sé vond fyrir heilsuna, einkum stoðkerfið. Hún bendir á hversu mikilvægt það er að halda líkamanum í góðu formi, þannig að fólk geti gert það sem það langar til. Líkaminn sé stórkostlegur og það taki hann ekki langan tíma að megrast. Fólk finni svo hvað því líður miklu betur þegar það er komið í gott form.

Ritstjórn janúar 13, 2016 10:16