Það sem tekur við eftir starfslok

Þegar Hólmfríður K. Gunnarsdóttir hætti að vinna og fór á eftirlaun skrifaði hún vinkonu sinni langt bréf, nokkurs konar leiðbeiningar um það, hvernig best sé að haga sér þegar fólk hættir að vinna. Við fengum leyfi til að birta kafla úr bréfinu.

Elsku vinkona.

Ég lofaði að „kenna þér“ að „hætta í vinnunni“ og ætla að standa við það þótt hvorugt sé rétt, þ.e. að ég ætli að kenna þér né að við séum hættar í vinnu. Þú ert löngu farin á eftirlaun og þekkir það betur en ég, við erum áreiðanlega hvorug hætt að vinna og ég get ekkert kennt þér vegna þess að mennirnir eru eins misjafnir og þeir eru margir, það sem einum hentar á ekki við hinn. Ég ætla því aðeins að nefna nokkur atriði til umhugsunar fyrir okkur báðar í tilefni af þessum tímamótum, því að tímamót eru það, hvernig sem á málið er litið.

Vinkona mín og frænka, sem fór á eftirlaun nokkru á undan mér, fór á námskeið til að læra að „hætta að vinna“. Þar var henni sagt að það væri í góðu lagi að líta á fyrstu þrjá mánuðina sem langt sumarfrí, úr því væri skynsamlegt að koma sér upp einhvers konar skipulagi eða reglu. Þetta tók ég nokkuð bókstaflega því að í sumar naut ég þess að vera í fríi, fór í langan göngutúr á hverjum morgni en lét klukkuna reyndar vekja mig alltaf klukkan átta því að það á ekki vel við sálarlífið hjá mér að sofa fram eftir nema um helgar. Sumarmorgnarnir voru yndislegir og ég kom heim endurnærð og lífsglöð.

Næsta skref, samkvæmt námskeiðinu, er að hugsa hvernig maður vill haga lífi sínu þegar þessu „fríi“ lýkur. Þú hefur stundum sagt að þú eigir engin áhugamál eða tómstundagaman. Ég veit ekki fyrir víst hvort það er raunin eða hvort þú hefur bara ekki gert þér ljóst hvað gleður þig. Það er ágætt að hugsa svolítið um það. Ég fyrir mitt leyti hef gaman af að vera með börnum mínum og barnabörnum, þýða, lesa, skrifa, glíma við orð, prjóna, búa til mat, leysa erfiðar krossgátur, tala við vini mína, hlusta á skemmtilega fyrirlestra, fara í bíó, horfa á sjónvarp, vinna í garðinum, fara í gönguferðir með skemmtilegu fólki o.fl., o.fl. Ég er búin að gera það upp við mig að ég þarf ekki að lesa leiðinlegar bækur og þarf ekki heldur að lesa allar bækur orði til orðs. Oft finnst mér fínt að lesa lauslega og ná bara efninu. Ég hef mest gaman af góðum ævisögum og fræðiritum, segi það kinnroðalaust án þess að blygðast mín fyrir að hafa mun minna gaman af skáldsögum. (Bestu ævisögurnar eru t.d. ævisaga Agötu Christie, Karenar Blixen, Sadats, Mandela, Rogers Vadims …). Ég get ekki sagt með sanni að ég hafi gaman af líkamsrækt en mér finnst hún nauðsynleg fyrir mig til að halda mér í sæmilegu formi. Ég hef tröllatrú á því að hreyfing og styrktaræfingar séu nauðsynlegar fyrir heilsuna.

Vinkona mín, sem fékk krabbamein í fyrra, segist hafa heitið sér því að gera aldrei framar neitt sem henni þykir leiðinlegt. Hún hafi því ákveðið að fara aldrei framar í leikfimi né aðra líkamsrækt. Þetta er nokkuð snúið, finnst mér, því að líkamsrækt miðar að því að halda heilsu og það er markmið í sjálfu sér hvort sem það er leiðinlegt eða skemmtilegt.

Heilsan er lykilatriði fyrir alla. Um er að ræða bæði andlega og líkamlega heilsu. Þarna verða allir að finna sér þá leið sem þeim best hentar en markmið allra er þó hið sama – þ.e. góð heilsa.

En hvað um tómstundirnar?

Laxness á að hafa sagt að ekkert sé leiðinlegra en að skemmta sér og ég fyrir mitt leyti er svolítið á sömu skoðun. Þess vegna verð ég að hafa eitthvað sérstakt fyrir stafni, eitthvað að fást við, og það heillar mig ekki að læra golf sem veitir þó mörgum mikla lífsfyllingu. Ég held að það sé hollt og gott að hugsa sig vandlega um og gera upp við sig hvernig við kjósum að verja þeim tíma sem fram undan er. Kristín Marja Baldursdóttir sagði að Halldór Guðmundsson hefði sagt við sig þegar hún var að gefast upp á að verða rithöfundur: „Taktu þér fimm ár í þetta, þú sérð aldrei eftir því.“ Nú höfum við, ég og þú, kannski ekki fimm ár upp á að hlaupa til að prófa okkur áfram en eitt ár gæti hentað til að þreifa fyrir sér um framtíðina. Í þessu sambandi má kannski líka hugsa um það að leiðin að markmiðinu er um leið takmarkið eins og vel kemur fram í sögu Sigurðar Nordal Ferðin sem aldrei var farin (ég tel hugmyndina að sögunni reyndar fengna að láni hjá þeim sem skrifaði Inn innvígði – en það er önnur saga).

„Föst vinna“ er að sumu leyti, að mér finnst, eins og meðferð á geðdeild. (Ég vann í þrjú ár á geðdeild og þekki því þar til.) Vinna hjá öðrum er fastur rammi þannig að þú þarft ekki að hugsa nema takmarkað um það hvernig þú hagar lífi þínu. Það er auðvitað svolítið skrítið, ef ekki erfitt, að missa þennan ramma. Um leið tekur hann af okkur völdin yfir dögunum sem þó eru taldir hjá okkur öllum.

Hólmfríður kemur víða við í bréfinu, bendir til að mynd á að sumir velji það að reyna að létta undir með öðrum, þegar meiri tími er til umráða.Og hér kemur annar kafli úr bréfinu.

Ég held að það sé öllum hollt að hitta annað fólk og helst reglulega. Að missa tengslin við vinnufélagana finnst mörgum það erfiðasta við að hætta í föstu starfi. Skiptir þá ekki öllu hvernig hópurinn var heldur hitt að hafa ekki lengur fastan hóp til að hitta sem á eitthvað sameiginlegt. Sumir leysa þennan vanda með því að leita í félagsstörf, taka þátt í klúbbum af ýmsu tagi, vera í leikfimihópi eða prjónaklúbb.

Vinkona mín, sem var reyndar líka vinnufélagi, var um það bil 25 árum eldri en ég en við urðum miklar vinkonur þar til dauðinn aðskildi okkur. Hún kenndi mér margt, meðal annars það að gott væri og skynsamlegt að umgangast fólk á öllum aldri ekki hvað síst þegar aldur færist yfir mann sjálfan. Það er ekki endilega æskilegt að snúa sér þá alfarið að félagslífi aldraðra, þótt það henti sumum.

Hún sagði að eldra fólk yrði að halda sér meira til en það hefði áður komist upp með. Hún lifði samkvæmt þessu, var sjálf alltaf fín og falleg að utan sem í sálinni. Það er líka mikilvægt fyrir flesta að hafa huggulegt og snyrtilegt í kringum sig, gleyma ekki að kveikja á kertum í skammdeginu og njóta   tónlistar og blóma eins og tök eru á.

Hólmfríður bendir líka á að það sé gott að hafa eitthvað til að hlakka til, þó ekki sé nema til þess að lesa góða bók á kvöldin. Hún nefnir líka að það sé gott að eiga sér fyrirmyndir og bendir á Vigdísi Finnbogadóttur í því sambandi. Sumir bregði líka á það ráð að fara að læra eitthvað nýtt, annað hvort að gamni sínu eða til að hafa fasta punkta í firlverunni og verk að vinna. En að lokum kemur hér niðurlag bréfsins.

Eins og þú sérð hef ég ekki minnst á þann möguleika að stunda launaða vinnu sem auðvitað er  til í dæminu ef tækifæri býðst, nú eða hefja sjálfstæðan atvinnurekstur sem margir gera. Nægir að nefna Jórunni sem var með Jórunnarbúð fram á tíræðisaldur og fór með leigubíl til og frá í vinnu á hverjum degi. Hún var falleg hún Jórunn, með blúndukragann og kertaljósið í búðinni sinni.

Lífið er dýrmætt, heilsan fyrir öllu. Meðan við höfum hvort tveggja í lagi er gaman að hugsa um það hvernig dögunum verði best varið. Svo er sagt að á hinsta degi jarðlífsins séu fáir sem óski þess að þeir hefðu verið lengur fram eftir í vinnunni.

Nú er ég fyrir löngu komin út á hálan ís, ef ekki einnættan, því að ég nefni hér ýmis dæmi sem kannski eiga alls ekki við þig né þína hugsun. En þá á ég mér þá afsökun að bréfið er ekki aðeins frá mér til þín heldur ekki síður til sjálfrar mín á þessum tímamótum okkar beggja.

Höfundur bókarinnar Leitin að tilgangi lífsins telur hverjum manni nauðsynlegt að hafa eitthvað til að lifa fyrir. Hvað það er sé á hinn bóginn einstaklingsbundið.

Til að leiða þig fyrstu sporin gef ég þér bókina hans, sem hefur orðið svo mörgum til gagns og gleði, um leið og ég óska þér til hamingju með afmælið og framtíðina.

Þín einlæga vinkona,

Hólmfríður.

Ritstjórn nóvember 19, 2019 07:20