Ekki bitur á bótum!

Sesselja komin til Tælands að hjóla, hlaupa og æfa bardagaíþróttina Muay Thai.

Sesselja Bjarnadóttir er ein af þessum fyrirmyndum sem flest okkar myndum vilja líkjast á einn eða annan hátt. Hún er komin á miðjan aldur, er 53 ára, og heldur áfram að taka óhrædd  þeim áskorunum sem lífið býður henni upp á. Sesselja er líffræðingur og hefur starfað í Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu undanfarin 12 ár. Líf hennar hefur verið, að eigin sögn, tiltölulega venjulegt. Hún kláraði nám, hóf sambúð og eignaðist barn. Fór í gegnum leiðinleg sambúðarslit sem var ákveðin áskorun að komast vel í gegnum. Nú sér hún að líf hennar varð miklu skemmtilegra en ef hún hefði haldið áfram í sambúð þar sem hvorugt var ánægt. Hún hafði alltaf átt sér þann draum að fara til útlanda í framhaldsnám og lét verða af því um leið og hún gat, fór ein með dóttur sína, þá sex ára gamla til Kaupmannahafnar og báðar græddu mikið á þeirri dvöl þegar upp var staðið. Sesselja hafði tekið BS í líffræði hér heima og tók masterinn svo úti. Landnýting með áherslu á þróunarlönd hét námið sem hún bætti við sig en Sesselja hefur alla tíð brunnið fyrir umhverfismálum og hélt að með starfi í ráðuneyti myndi hún geta lagt sitt af mörkum í þeim málum. Hún komst að því að kerfið er flókið og þungt í vöfum og ber mikla virðingu fyrir fólkinu í ráðuneytunum sem berst áfram og gefst ekki upp. 12 ár á þeim vettvangi var góður tími en nú vill hún láta öðrum eftir að halda baráttunni áfram. Hún fékk spennandi tækifæri sem hún er afar þakklát fyrir, ferðaðist gífurlega mikið og naut starfsins og samstarfsfólksins.

Sagði starfi sínu lausu

Vinnuferð í NYC.

“Ég fékk  bara allt í einu þessa óstöðvandi þörf fyrir að breyta til í lífi mínu.” segir Sesselja brosandi. “Ég hafði orðið fyrir nokkrum áföllum. Það höfðu verið veikindi í kringum mig, bakið hafði verið að angra mig, svo fótbrotnaði ég og álagið í vinnunni var mikið. Þegar þetta kom allt saman spurði ég sjálfa mig hvernig ég myndi helst vilja sjá líf mitt í framhaldinu og fannst augljóst að ég yrði að breyta til,” segir þessi hugrakka kona á miðjum aldri. Þegar hún hafði svo sagt upp vinnunni og fór að heyra viðbrögð annarra við þessari ákvörðun sinni segir hún að óneitanlega hafi farið um hana hrollur því mörgum hafi fundist þetta óráð. Yfirmaður hennar í ráðuneytinu var undrandi en Sesselja var búin að taka ákvörðunina og hélt sig við hana. “Ég fór allt í einu að heyra sögur af fólki á mínum aldri sem fékk hvergi vinnu af því það þótti of gamalt. Það er því miður nokkuð til í því en þegar ég hugsaði málið komst ég að því að á því væri ekki mikil hætta hvað mig varðaði. Það kemur til af því að mér er nokkuð sama hvaða vinnu ég myndi fá. Ég gæti til dæmis alveg hugsað mér að vinna sem öskukall sumarlangt ef ekkert annað fengist,” segir Sesselja og hlær og það merkilega er að hún er ekki að grínast með þetta. Hún segir að höfnunin sem margir verði fyrir komi til af því að þeir einskorði sig við störf sem þeir geti hugsað sér að vinna við og skoði ekkert annað. En þegar betur er að gáð sé fleira í boði en fólk heldur.

“Fyrst fannst mér mjög eftirsóknarvert að reyna að að vinna sjálfstætt ef ég gæti og er reyndar alveg á því enn þá.”

Í aukavinnunni á sjónum sem hvalaskoðunarleiðsögumaður.

Tók hásetaréttindi

Sesselja hefur um nokkurt skeið notað fríin sín til að vinna í ferðamennsku. Hún hefur t.d. farið í hvalaskoðunarferðir, bæði sem leiðsögumaður og háseti, en hún tók hásetaréttindi fyrir nokkru. Það eru alþjóðleg réttindi svo hún gæti ráðið sig sem háseta hvar sem er í heiminum.

Á leið til Tælands að æfa bardagaíþrótt

Sesselja er nú á leið til Tælands í æfingabúðir þar sem dagurinn byrjar á jóga og síðan taka við stífar æfingar í því sem kallað er “mixed martial arts” “Þegar bakið fór að angra mig og við hreyfingarleysið í tengslum við fótbrotið komst ég að því að ef ég ætlaði framvegis að eiga góð ár, yrði ég að vera duglega að hreyfa mig,” segir Sesselja. “Á miðjum aldri fer að bera á stirðleika og það er bara undir okkur sjálfum komið að halda okkur við. Jógað er mjög mikilvægt til að halda liðleikanum í líkamanum og það hefur hjálpað mér mjög mikið. Æfingabúðirnar eru á eyjunni Phuket þar sem dásamlegt er að vera. Þarna ætla ég að vera í þrjá mánuði og koma mér í gott líkamlegt form.”

Er með áætlun

Sesselja hefur, eins og margir Íslendingar, nýtt sér ferðamannasprengjuna á Íslandi. Fyrir utan að starfa í fríum sem leiðsögumaður í hvalaferðum hefur hún leigt hluta

Sesselja slakar á í æfingabúðunum á Phuket eyjunni.

hússins sem hún á til Air bnb gesta. Verðlagið í Tælandi er til dæmis þannig að fyrir fimm sólarhringa leigu á íbúðinni hér heima yfir áramótin getur hún borgað fyrir húsnæði í tvo mánuði þar. Í framtíðinni sér hún fyrir sér að hún muni annaðhvort búa hér í Reykjavík eða flytja austur á land þar sem hún á lítinn sumarbústað og fá sér vinnu þar. Hún hefur ekki ákveðið enn hvað hún ætlar að gera næsta haust en er með í bígerð að ná sér í skipstjórnarréttindi því það muni auka möguleika hennar enn frekar. “Þá gæti ég kannski keypt mér lítinn bát og farið með fólk í fuglaskoðun eða á sjóstöng o.s.frv. Þá væri ég komin með möguleika á að vinna sjálfstætt,” segir Sesselja og tilhlökkunin leynir sér ekki.

Þessi kjarkmikla kona er með mörg járn í eldinum og er búin að koma sér á þann stað í lífinu að geta verið sjálfs síns herra ef henni sýnist svo.

Er til í hvað sem er

Gönguferð i Færeyjum.

“Ef ég útilokaði störf sem væru í boði væru þau örlögin ráðin að verða bitur á bótum,” segir Sesselja. “Þegar ég lít yfir sviðið eru möguleikarnir svo margir og spennandi. En allt sem mig langar að gera byggist á að ég haldi heilsu og góðri hreyfifærni. Það er meðal annars þess vegna sem ég er að fara í æfingabúðirnar til Tælands.

“Eitt af því sem sannfærði mig um ég ætti að láta vaða núna að breyta til í lífinu, er sú sannfæring að ég er örugglega betur sett að gera þetta núna frekar en eftir einhver ár. Núna sé ég ótal tækifæri og enga ástæðu til að bíða með að breyta til!”

Gaman er að bæta við að síðan viðtalið var tekið hefur Sesselja tekið enn eina afdrifaríka ákvörðun um stefnu í lífinu því hún settist á skólabekk og fór í hjúkrunarfræði í HÍ. Af því að hún er þegar með háskólagráðu í líffræði getur hún tekið hjúkrunarfræðina á styttri tíma en ella.

Ritstjórn febrúar 15, 2019 08:33