Mikilvægt að nota heyrnartækin alla daga

„Fyrir nokkrum árum fóru menn að átta sig á tengslum milli heyrnarskerðingar og heilabilunar“, segir Anna Linda Guðmundsdóttir heyrnarfræðingur hjá fjölskyldufyrirtækinu Heyrnartækni í Glæsibæ.

“Þetta er málefni sem ég ræði oft við fólk sem kemur til mín í heyrnarmælingu og ráðgjöf en margir virðast hafa heyrt af þessum tengslum og vilja vita meira. Í sumum tilfellum er þetta eitthvað sem ýtir við fólki að slá því ekki endalaust á frest að fara að nota heyrnartæki.  Mér finnst mikilvægt að útskýra fyrir fólki að ómeðhöndluð heyrnarskerðing sé vissulega einn áhættuþáttur fyrir heilabilun, en það er þó ekki þannig að hægt sé að setja samansem merki milli heyrnarskerðingar og heilabilunar”, bætir hún við

Í grein sem birt var í Læknablaðinu Lancet árið 2020 kemur fram að heyrnarskerðing er einn sterkasti áhættuþátturinn fyrir heilabilun.  Höfundar greinarinnar skoðuðu fjölda rannsókna til að meta áhættuþætti heilabilunar, sem við getum mögulega haft áhrif á, og benda á að notkun heyrnartækja virðist draga úr áhættu á heilabilun hjá þeim sem eru með skerta heyrn.

Anna Linda segir niðurstöður eldri rannsókna bendi til þess að því verri sem heyrnarskerðing sé, og sé hún ómeðhöndluð, verði líkurnar á því að fá heilabilun meiri.

„Það hafa verið vísbendinar um að heyrnartækjanotkun geti bætt þarna úr. Árið 2021 birtust niðurstöður stórrar rannsóknar sem styðja það að notkun heyrnartækja geti mögulega hægt á ferlinu, það er hjá einstaklingum sem eru greindir með með væga vitræna hrörnun.  Í vor kom svo fram önnur mjög stór rannsókn sem styrkir enn frekar stoðum undir mikilvægi þess að nota heyrnartæki til að minnka hættu á heilabilun. Með þessa vitneskju finnst mér ekki annað hægt en að reyna að hvetja fólk til að vera duglegt að nota heyrnartæki“, segir hún og bendir á, að á heimasíðu Alzheimersamtakanna sé heyrnarskerðing nefnd sem áhættuþáttur fyrir heilabilun og fólk sem heyrir illa hvatt til að nota heyrnartæki.

Mikilvægt að koma sér upp rútínu með heyrnartækin

Það er ekki gott að nota heyrnartækin einungis við ákveðin tækifæri að sögn Önnu Lindu. „Við hvetjum fólk til að nota heyrnartækin á hverjum degi. Sumir nota tækin stopult en það er betra fyrir heilann ef notkunin er regluleg, þannig að hann þurfi ekki í hvert skipti sem tækin eru sett upp að venjast ákveðnum hljóðum í umhverfinu uppá nýtt. Það er líka auðveldara fyrir þann sem notar tækin reglulega að venjast því að heyra alls kyns hljóð, eins og til dæmis suð eða nið frá rafmagnstækjum, skrjáf í úlpu eða yfirhöfn, og að heyra eigin rödd í gegnum heyrnartækin en margir finna fyrir því að röddin hljómar öðruvísi þegar þeir byrja að nota heyrnartæki”.

Anna Linda segir að hún ráðleggi öllum að setja heyrnartækin í eyrun, þegar farið er á fætur og taka þau úr sér fyrir svefninn. „Að koma þessu upp í rútínu alveg eins og með annað sem við gerum reglulega, eins og að bursta tennurnar“, segir hún.

Heilinn virkjar ný svæði ef heyrnin er döpur

„Heilinn okkar getur haft ótrúlega aðlögunarhæfni og þegar heyrnin er skert og hljóðið óskýrt þá förum við að nota önnur svæði í heilanum, til að hjálpa okkur að greina talmál, segir Anna Linda.  „Við reiðum okkur til dæmis meira á sjónina til að hjálpa okkur að heyra, en margir urðu til að mynda áþreifanlega varir við að heyrnin var farin að dala þegar upp kom sú staða að við þurftum að ganga með andlitsgrímu á Covid tímabilinu.  Allt í einu var ekki hægt að „sjá” hvað viðkomandi var að segja!  Rannsóknir hafa sýnt að ákveðin svæði í framheila virkjast, ef talmál sem berst til eyrans og þaðan upp til heilans, er óskýrt.  Þannig virðist heilinn „endurskipuleggja” sig til þess að bæta upp fyrir heyrnarskerðinguna og talið er að það auki álag við að hlusta og skilja, sem getur verið á kostnað þess að muna það sem sagt er”.

Fara stundum of seint af stað

Hún segir að því miður sé það stundum þannig að fólk sem hafi miðlungs eða mikla skerðingu á báðum eyrum, leiti aðstoðar of seint. Sumir eiga þá orðið í miklum erfiðleikum með að greina talmál og þá sé mikilvægt að stilla væntingum í hóf.  Meðferð með heyrnartækjum fylgi ákveðin endurhæfing, það sé ekki hægt að byrja á fullum styrk heldur þurfi oft á tíðum að skipta þessu upp í nokkur þrep, til að viðkomandi og heilinn venjist hljóðunum á ný.

 

Anna Linda er upphaflega hjúkrunarfræðingur sem bætti við sig heyrnarfræðinámi í Endinborg og Cambridge, en heyrnarfræði er ekki kennd hér á landi.

Rannsóknirnar sem vitnað er til í greininni eru:

Bucholoc, M. et al. 2021. Association of the use of hearing aids with the conversion from mild cognitive impairment to dementia and progression of dementia: A longitudinal retrospective study.  Alzheimers Dement (N Y). Feb 14;7(1):e12122.

Jiang, F. et al. 2023. Association between hearing aid use and all-cause and all-specific dementia: an analysis of the UK Biobank cohort. Lancet Public Health. pp. e329-38.

Lin, F.R. and Albert, M. 2014. Hearing loss and dementia – who is listening? Aging and Mental Health. 18(6), pp671-673.

Lin, F.R. et al. 2011. Hearing loss and incident dementia. Arch Neurol. Feb;68(2) pp.214-20.

Livingston, G. et al. 2020. Dementia prevention, intervention, and care: 2020 report of the Lancet Commission. The Lancet. Aug 8;396(10248), pp.413-446.

Ritstjórn september 13, 2023 06:30