Ræða vinnuna á kvöldin í heita pottinum heima

„Ég er ómögulegur ef ég er ekki að gera eitthvað, ég verð að vinna“, segir Guðmundur Sigurvinsson sem er elsti starfsmaður fjölskyldufyrirtækisins Heyrnartækni, en hann er 75 ára gamall. „Ég byrjaði að vinna hér árið 2012, en hafði áður aðstoðað Björn við að hanna lógóið fyrir fyrirtækið, sem var stofnað árið 2001“, segir hann. Guðmundur starfaði lengi á teiknistofu Rafmagnsveitu Reykjavíkur og sá meðal annars um hönnun bæklinga og ársreikninga. „Þá vann ég hjá pabba á sumrin með skólanum og teiknaði raflagnir og heimtaugar í Reykjavík“, grípur Anna Linda dóttir hans fram í samtalið, en blaðamaður er kominn í heimsókn til að spjalla við þau um fjölskyldufyrirtækið og hvernig það er, að vinna nær eingöngu með fjölskyldunni.

Samstillt hjón

Þau segjast vera samstillt, hjónin Anna Linda Guðmundsdóttir og Björn Víðisson eigendur Heyrnartækni. Það er eins gott því þau vinna saman alla daga. Guðmundur faðir hennar, vinnur sem sagt líka hjá fyrirtækinu og nýlega gekk Magnús bróðir Önnu Lindu einnig til liðs við Heyrnartækni.  Guðmundur vann síðast sem deildarstjóri hjá Orkuveitunni áður en hann lenti í fjöldauppsögn eftir hrun, en hann átti þá eftir tvö ár  í eftirlaunaaldurinn. „ Pabbi þrífst á því að vinna og fór þá að vinna á bensínstöð, þrátt fyrir að kaupið þar væri lægra en atvinnuleysisbætur“, segir Anna Linda.

Björn veitir ráðgjöf

Var ánægður með Oticon heyrnartækin

Björn, eiginmaður Önnu Lindu, stofnaði fyrirtækið árið 2001, eða fyrir 22 árum.  Það má rekja sögu þess aftur til þeirrar staðreyndar að faðir Björns, Víðir Páll Þorgrímsson var mjög heyrnarskertur. Hann fékk miklar eyrnabólgur sem barn og fór á sínum tíma í eyrnaaðgerð til Þýskalands. Þegar Víðir þurfti heyrnartæki leist honum ekki á að þurfa að bíða í  yfir tvö ár, eftir að fá tæki hjá Heyrnar- og Talmeinastöðunni. Hann rak fjölskyldufyrirtækið Tösku- og hanskabúðina ásamt eiginkonu sinni Jóhönnu Haraldsóttur og var á þessum tíma mikið í viðskiptum í Danmörku. Hann vissi af danska heyrnartækjaframleiðandanum Oticon og fór til þeirra til að fá sér heyrnartæki. „Þá kviknaði sú hugmynd að fá umboð fyrir Oticon hér á landi“, segir Anna Linda.

Fyrsta einkarekna heyrnartækjastöðin

Björn segir að faðir hans hafi verið sér innan handar við að fá umboðið. „Pabbi sagði Oticon frá því að sonur hans á Íslandi hefði áhuga á þessu og þeim leist vel á það væri fjölskylda sem sýndi rekstrinum áhuga og það hafði talsvert að segja að við höfðum báðir glímt við heyrnarvandamál og að ég hafði menntun á heilbrigðissviði „Ég fer til Danmerkur og fæ þar mikla þjálfun og kennslu hjá Oticon og ræð síðan heyrnarfræðing til að vinna með mér við stöðina. Við vorum fyrsta einkarekna fyrirtækið í þessari grein og þetta var rosaleg barátta. Það vantaði til dæmis reglugerðir og við vorum í stöðugum viðræðum við yfirvöld vegna þessa“, segir Björn en á næstu 3-5 árum bættust fleiri einkarekin fyrirtæki við. „Til að byrja með  var til dæmis engin niðurgreiðsla á heyrnartækjum hjá einkareknum stöðvum“, segir hann.

Tengdapabbi hvatti hana til náms

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan þetta var og Anna Linda, sem er hjúkrunarfræðingur að mennt,  starfaði ekki með Birni í fyrirtækinu til að byrja með. Hún vann á þeim tíma í lyfjageiranum sem sölu- og markaðsstjóri hjá Pharmaco og seinna Vistor. „Tengdapabbi var oft búinn að nefna við mig hvort ég vildi ekki fara að læra heyrnarfræði og vinna hjá fyrirtækinu. Mig langaði til þess en það var vissulega dálítið stökk að fara af fjölmennum vinnustað yfir í lítið fyrirtæki. Því til viðbótar reyndist vandasamt að finna hentugt nám í þessum fræðum, án þess að þurfa að flytja af landi brott í nokkur ár.  Svo tók ég þessa ákvörðun, að fara að vinna með eiginmanni mínum. Tengdaforeldrar mínir unnu saman alla tíð en það eru ekki öll hjón sem geta unnið saman á sama vinnustað, en það hefur gengið mjög vel hjá okkur. Ég kom hér inn í fyrirtækið árið 2006 og fer fljótlega að leita að námi í heyrnarfræðum.  Ég fékk góðan stuðning frá Oticon í Danmörku, þjálfun hjá þeirra færu sérfræðingum og svo sótti ég líka frábær námskeið hjá bresku heyrnarfræðisamtökunum.  Ég klára síðan nám í heyrnarfræði í Edinborg og hélt áfram í viðbótarnámi við háskóla í Cambridge“, segir hún.

Anna Linda mátar heyrnartæki viðskiptavinarHafa bæði ástríðu fyrir vinnunni

En hvernig er það að vinna saman alla daga og koma svo heim og  halda kannski áfram að ræða um vinnuna þar?  „Það er mjög gott að Anna Linda er oftast bara rúman hálfan dag á stofunni“ segir Björn og kímir. „Við erum að vinna í sitt hvoru verkefninu í sitt hvoru herberginu, en við erum samstillt“. Þau segjast stundum setjast í heita pottinn á kvöldin og ræða vinnuna. Þau hafi mikla ástríðu fyrir vinnunni og að gera stöðugt betur. Þau séu bæði vakin og sofin yfir fyrirtækinu. „Við reynum stundum að hnippa hvort í annað og segja;, „Eigum við ekki að hætta að tala um vinnuna og taka okkur frí í kvöld?“, segir Anna Linda og brosir. Hún sinnir ýmiss konar verkefnum heiman frá, en Björn kemur heim um kvöldmatarleytið og er þá búinn á stofunni.

Gervigreindin öflug í heyrnartækjum

Magnús Guðmundsson bróðir Önnu Lindu er búinn að vinna hjá fyrirtækinu í tæp tvö ár. Honum finnst það alveg eðlilegt að vinna með systur sinni og föður. „Við erum lítil fjölskylda og erum í góðu sambandi. Þetta small allt saman þegar ég byrjaði, þó efasemda hafi gætt í byrjun um hvernig þetta myndi ganga, hafa aldrei orðið neinir árekstrar eða hnökrar hérna“, segi hann. „Það er í vinnslu að fara í nám og með því að vinna hér opnast fleiri möguleikar á að sækja sér menntun í þessum geira“. Magnús segist vija afla sér menntunar, hugsanlega sem heyrnarfræðingur eða sem sérfræðingur í tækninni, svipað því sem Björn er að vinna við í dag.  Það séu tækninýjungar í  boði á markaðinum og hann hafi mikinn áhuga á þeim. „Ég er yngstur hér og hef gaman af tækninýjungum, það er komin mjög öflug gervigreind í heyrnartækin og gaman að spá í framtíðina í þessum geira“, segir hann. Anna Linda systir hans segir að hann hafi blómstrað í starfinu „Mér finnst hann hafa vaxið mjög í þessu starfi, er fljótur að læra og tileinka sér nýjungar og er algjörlega ómetanlegur starfskraftur fyrir okkur“, segir hún.

Vilja helst ættleiða Kollu

Kolbrún Harðardóttir hefur staðið vaktina í móttökunni hjá Heyrnartækni nánast frá upphafi en hún er þó ekki með nein fjölskyldutengsl við Björn og Önnu Lindu. Það sama á við um  Árna Hafstað, heyrnarfræðing hjá Heyrnartækni, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu  í liðlega 20 ár.  Hann byrjaði upphaflega hjá HTÍ á Akureyri og vann þar í nokkra mánuði eftir að hann lauk námi sínu í Kaupmannahöfn.  Hann gekk svo til liðs við Heyrnartækni árið 2002 og smám saman bættust við fleiri staðir á landsbyggðinni sem Árni sá um að þjónusta.  Þetta framlag Árna til landsbyggðarinnar er ómetanlegt þar sem ljóst er að það hafa ekki allir tækifæri eða getu til að ferðast til Reykjavíkur til að sækja sína þjónustu.  Árni var ekki staddur hjá Heyrnartækni í Glæsibæ, þar sem viðtalið fór fram, en kom og sat fyrir á mynd nokkrum dögum síðar.

Starfsmannahópurinn við innganginn hjá Heyrnartækni

„Mér sýnist við vera fjarskyld Kollu og Árna í 9. og 10. ættlið þó svo að mér finnist stundum eins og Kolla og pabbi séu náskyld, því þau eru svo ansi lík með margt.  Við höfum nú stundum sagt í gamni að við ættum kannski bara að ættleiða hana“ segir Anna Linda og hlær. Guðmundur og Kolla eru góðir félagar, en hann kom fyrst inn í fyrirtækið til að leysa hana af í fæðingarorlofi fyrir 11 árum. Kolbrún gerir grín að því að það hafi verið reynt að para sig við karlana á staðnum, en ekki vð Önnu Lindu. „Það er kannski fyrir komandi kynslóðir að reyna það “, segir hún hlæjandi.  Henni finnst hún sannarlega ekki vera útundan í fjölskyldufyrirtækinu „ þá væri ég ekki hér“ segir hún. „Ég er búin að vera hér í 20 ár og það er hugsað svo vel um mig að ég get alveg hugsað mér að vera hér 20 ár í viðbót. Gunnar Dofri sonur minn vann hér við þrif meðfram námi og ég á 10 ára dóttur sem kemur stundum með mér í vinnuna. Það er verið að ala hana upp sem framtíðarstarfsmann“, segir hún og skellihlær.

Kann vel við sig með ungu fólki

En langar Guðmund, sem er faðir tveggja starfsmanna á staðnum, aldrei til að grípa inní ef honum finnst þau vera að gera einhverja vitleysu?  „Það er afskaplega gott að vinna með þeim, bara mjög fínt. Ég er ekki að rekast í þeim, það er frekar að þau stjórni mér! Ég kann vel við mig með ungu fólki og finnst gaman að fara á námskeið með fólki á svipuðum aldri og barnabörnin mín eru“, segir hann. Verkefni Guðmundar eru margvísleg. Hann fyllir á lagerinn og kemur snemma á morgnana til að gera allt klárt fyrir daginn. Ef eitthvað er bilað, gerir hann við það ef hann getur. „Svo sé ég um sendiferðir, sæki mat fyri liðið og hita kaffið. Á laugardögum kíki ég hingað til að athuga hvort allt sé í lagi og geri klárt fyrir mánudaginn. Ég hef alltaf gert þetta, líka þegar ég var hjá Orkuveitunni. Mér finnst, að þegar maður er í vinnu, eigi maður alltaf að haga sér eins og maður sé að vinna í sínu eigin fyrirtæki“, segir Guðmundur.

Á borðnu í kaffistofunni bíður okkar girnilega kaka frá Íslandsbanka. Tilefni kökusendingarinnar er að Heyrnartækni var á dögunum valið framúrskarandi fyrirtæki í sínum stærðarflokki hjá Creditinfo, rétt eins og síðastliðin fimm ár.

 

Ritstjórn nóvember 12, 2023 07:00