Ókeypis heyrnartæki í viku

Það var sólskin, daginn sem ég dreif mig í heyrnarmælingu hjá Heyrnartækni í Glæsibæ og ég var mjög spennt að vita hvort ég þyrfti heyrnartæki, þegar ég snaraðist út úr bílnum. Ég vissi að ég var búin að tapa mikið heyrn á hægra eyra og það gerðist uppúr síðustu aldamótum.  Anna Linda Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og annar eigenda fyrirtækisins tók á móti mér og ég settist gegnt henni við skrifborð. Á borðinu lágu lítil heyrnartæki. Hún rekur fyrirtækið ásamt eiginmanni sínum Birni Víðissyni. Það er hægt að fá heyrnarmælingu ókeypis hjá þeim og þau lána fólki líka heyrnartæki til prufu endurgjaldslaust í viku, eins og fleiri fyrirtæki bjóða líka.

Anna Linda Guðmundsdóttir tilbúin í heyrnarmælinguna

Heyrnartækin púkaleg?

Ég varð svolítið áhyggjufull, því það átti að halda uppá 45 ára stúdentsafælið í mínum árgangi um helgina. Yrði ekki hálf púkó að mæta þar með heyrnartæki? Hefði ég ekki átt að velja einhverja aðra viku? Ég bar þetta undir Önnu Lindu sem sagði mér að þetta væru óþarfa áhyggjur, því tækin væru orðin svo lítil. „Tækin voru stærri og meira áberandi alveg fram til 2007“, sagði hún og bætti við að það ár hefði orðið bylting í framleiðslu heyrnartækja. Þá hefði lögun tækjanna verið breytt og örmjór vír sem gengi inn í hlustina verið tengdur við þau. „Ég skil vel þessar áhyggjur, að fólk óttist að það geti verið  púkalegt að vera með heyrnartæki og það er þess vegna sem framleiðendur vilja mæta þessum kröfum og gera tækin eins nett og hægt er, án þess þó að fórna hljóðgæðunum“, sagði hún.  Ég prófaði að setja tæki í eyrað á mér og kíkti í spegilinn – og viti menn það sást ekki neitt.

Guðmundur Sigurvinsson í afgreiðslunni

Tók úr sér tækin og heyrði ekkert

En fyrst þurfti ég að fara í heyrnarmælingu, til að ganga úr skugga um að ég þyrfti í raun heyrnartæki, en fyrst var eyrað skoðað. „Það er ekkert óvenjulegt að sjá“, sagði Anna Linda og setti heyrnarmælingatæki inní eyrun á mér og vísaði mér inní lítið hlýlegt herbergi, þar sem ég sat með tæki í höndunum og átti að ýta á hnapp þegar ég heyrði hljóð. Ég gerði þetta samviskusamlega og svo var prófað að hafa stöðugan hávaða á, til að  „blokkera“ betra eyrað á meðan það verra var mælt. Þetta gekk allt að óskum og mér var vísað fram á biðstofu. Næst átti ég að fara til Björns sem er tækjasérfræðingurinn í fyrirtækinu, sem er fjölskyldufyrirtæki og faðir Önnu Lindu sem er kominn á eftirlaunaldur var í móttökunni daginn sem ég mætti þarna. Á biðstofunni sat par.  Ég sagði þeim að ég væri blaðamaður sem ætlaði að prófa heyrnartæki. „Ég er búin að taka úr mér heyrnartækin og heyri ekki neitt“, sagði konan þá, en maðurinn sem var með henni sagði kíminn á svip, að stundum væri gott að heyra ekkert.

Ekki gott að gera ekki neitt

Björn tók á móti mér og var með heyrnarritin mín í tölvunni. Allt klárt. Heyrnarskerðingin sem ég er með er hins vegar óvenjuleg, því ég heyri lága tíðni verst. Yfirleitt er það öfugt og aldurstengd heyrnarskerðing byrjar þannig að hæsta tíðnin dettur út.  Allt á þetta rætur að rekja til beinanna í miðeyra sem geta farið að kalka. En, Björn sagði að heyrnartæki myndi hjálpa mér. „Þú heyrir mjög illa með þessu eyra og þannig er það búið að vera í fimmtán ár“, sagði hann um hægra eyrað á mér. Þetta var auðvitað ekki gott afspurnar og ég ekki búin að gera neitt í málinu, en þá gerist það að sögn Björns að heilinn hættir að reikna með að ég heyri hægra megin og eyrað fer að daprast. „Það er slæmt að ganga með svona mikla heyrnrskerðingu lengi. Þetta er eins og vöðvi sem er ekki notaður“, sagði hann. „Nú þarf heilinn að venjast því uppá nýtt að heyrnin komi frá hægri. Það tekur tíma að þjálfa þetta upp“.

 

Björn Víðisson

Sjúkratryggingar borga ekki fyrir þá sem heyra með öðru eyra

Björn sagði mér að Sjúkratryggingar myndu ekki greiða neitt í heyrnartæki fyrir mig, þar sem ég heyrði ágætlega með hinu eyranu. Það þótti mér hálf undarlegt.  Það þarf sum sé tvö eyru sem heyra illa, til að Sjúkratryggingar borgi í heyrnartækjunum. Þá fá menn 100.000 krónur í styrk frá Sjúkratryggingum, eða 50.000 á hvort eyra. Sum stéttarfélög eru með styrki til kaupa á heyrnartækjum og fyrir mjög tekjulágt fólk sem er komið á ellilífeyri, er hægt að sækja um styrk til TR til heyrnartækjakaupa. Það munar um allt, því tækin kosta sitt. Eitt stykki heyrnartæki af nýjustu gerð OPN 1, kostar 275.000 krónur, en 225.000 fyrir þann sem fær heyrnartækjastyrk frá Sjúkratryggingum.  En það eru til ódýrari tæki, allt niður í 104.000 krónur, sem gerir 54.000 krónur með niðurgreiðslunni. Og það þarf að ákveða hvernig tæki fólk vill fá. Er það mikið að fjárfesta í því allra besta þegar heyrnin er annars vegar?  Ef kaupa þarf eina tönn, svokallað innplant, hjá tannlækni kostar það í heildina um 300.00 krónur og jafnvel meira. Þetta er náttúrulega alltaf spurning sem hver og einn verður að svara fyrir sig.

Heyrnartæki í mismunandi litum

Á maður að velja það besta?

Ég ákvað að prófa besta tækið, úr því ég var að þessu. Björn stillti tækið í tölvunni „Nú er ég að forrita tækið fyrir þína heyrn“, sagði hann.  Hann sagði að ég myndi bara þurfa að kveikja og slökkva á því, en ekki að stilla það.  Það var nú eins gott.  Hann setti í mig tækið og sagði að ég ætti að vera með það allan daginn.  Setja það í eyrað á morgnana þegar ég burstaði tennurnar og taka það úr eyranu þegar ég færi að sofa. Tækið yrði félagi alla ævina. Hann sagðist ætla að byrja rólega, stilla tækið lágt í fyrstu en svo væri hægt að hækka, þegar heilinn færi að átta sig á að ég heyrði líka hægra megin. „Við hittumst svo eftir viku og metum stöðuna og aðlögum þetta að þinni upplifun“, sagði hann.

Að fá símann í heyrnartækið

Nútíma heyrnartæki er í raun lítil tölva. Það er mjög öflugt og býður uppá ýmsa möguleika. Til dæmis eins og þá að streyma efni í tækið úr Apple tækjum. Þá er hægt að hlusta á tónlist í heyrnartækinu og fá símann beint í tækið. Fyrir þá sem hafa sérstakan áhuga á tækjum má nota heyrnartækið til að kveikja ljós og taka öryggiskerfið af, svo dæmi séu tekin. Björn segir að það séu ekki allir að nota þetta allt, en hann geri þetta fyrir fólk, tengi símann og heyrnartækið, eða hljóðið úr sjónvarpinu og heyrnartækið. En það er nú kannski best að taka þetta í litlum skömmtum. Eitt er það líka sem þarf að gera, en það er að skipta reglulega um rafhlöður í tækinu.

Heyrnartækið sést nánast ekki neitt

Hljóðið ýkt í byrjun

Ég beið spennt þegar heyrnartækið fór í gang. Og viti menn, ég heyrði mun meira með hægra eyranu en áður. Þetta var samt svolítið eins og að hlusta í gegnum míkrafón. En það heyrðist hvorki bergmál né gjallandi. Björn sagði að hljóðið í gegnum heyrnartækið yrði ef til vill ekki nákvæmlega eins og það var án tækisins. Hann sagðist byrja með hljóðið óvenjulega lágt hjá mér. „Sumum finnst hljóðið í tækinu ýkt í byrjun en svo venst það og verður þá eðlilegt fyrir fólki“, sagði hann.  Skyldi ég hafa þolinmæði í þetta?

Veita þjónustu á landsbyggðinni

Heyrnartækni var stofnað árið 2001 og var þá fyrsta einkafyrirtækið sem var sett á stofn fyrir heyrnarmælingar og sölu heyrnartækja, en áður hafði Heyrnar og Talmeinastöð ríkisins verið eini aðilinn sem sinnti þessu.  Heyrnartækni er með þjónustu í Reykjavík og er líka með heyrnar og talmeinafræðing sem sinnir 20 stöðum á landsbyggðinni. Sú þjónusta hefur verið veitt síðan 2002.

Erna Indriðadóttir

Ritstjórn maí 10, 2017 11:42