Minningar Helga Tómassonar ballettdansara

Ragnhildur Erla Bjarnadóttir

Maður fyllist solti við að lesa ævisögu Helga Tómassonar enda með ólíkindum hvernig ungur strákur frá Íslandi tekst með eindæma atorku að verða einn fremsti ballettdansari heims.  Aðeins fimm ára gamall hrífst hann af dönsurum úr Konunglega ballettflokki leikhússins í Kaupmannahöfn sem heimsóttu Vestmannaeyjar en þar bjó Helgi fyrstu ár ævi sinnar.  Átta ára hefur hann ballettnám við Listdansskóla Þjóðleikhússins og fimmtán ára er hann ráðinn sem sumar ballettdansari í Tívolí í Kaupmannahöfn.  Ekki komst hann að hjá Konunglega leikhúsinu því sá skóli var einungis fyrir Dani á þeim tíma.  Fyrir atbeina velgjörðarmanns hans í Kaupmannahöfn er honum boðin námsdvöl við þekktan bandarískan ballettskóla í New York.  Í fyrstu alþjóðlegu ballettkeppni heims sem haldin var í Moskvu hlaut Helgi silfurverðlaun sem varð til þess að honum var boðin staða aðaldansara við New York City Ballet sem var mikill heiður. Þar var Helgi næstu fimmtán árin og hlaut mikinn og einstæðan frama. Það var svo árið 1985 sem Helgi var ráðinn listrænn stjórnandi San Francisco Ballettsins en þá hafði hann lagt skóna á hilluna 43 ára gamall.  Undir stjórn Helga hefur flokkurinn orðið að einum fremsta dansflokki heims.

Að fylgjast með Helga frá unga aldri er áhrifamikið og heillandi.  Hann varð að leggja meira á sig en félagarnir þar sem hann var útlendingur og samkeppnin var gríðarlega hörð.  Helgi gaf aldrei eftir enda elskaði hann að dansa og var til í að leggja allt í sölurnar til að ná árangri sem ballettdansari.  Hann var aðeins 33 ára þegar honum tjáð að hann myndi aldrei dansa að nýju svo þjáður og illa var hann farinn í baki en Helgi náði sér á strik með viljastyrk og þrotlausum æfingum. 

 Helgi átti í raun þrjá feður og þegar hann er unglingur og farinn að verða hrifinn af stelpum sagði móðir hans honum hver blóðfaðir hans væri.  Helgi varð ósegjanlega glaður yfir því að Tómas skyldi ekki vera blóðfaðir hans því hann hafði aldrei verið honum góður.  Haukur stjúpfaðir Helga reyndist honum mjög vel alla tíð og með honum eignaðist Dagmar, móðir Helga, soninn Guðjón Inga.  Á fullorðinsárum kynntist Helgi svo hálfsystrum sínum föður megin.

Bókin er einstaklega vönduð.  Prentuð á gæðapappír, vel upp sett og hana prýðir fjöldinn allur af fallegum myndum.

Textabrot úr bókinni.

Ég er sennilega að verða fimm ára þegar pabbi kemur heim seint að kvöldi og hefur hátt.  Þau mamma skiptast á orðum og ég skynja spennuna í andrúmsloftinu þar sem ég ligg í rúminu mínu án þess að skilja hvað fer fram.  Nú þegar ég kalla fram minninguna veit ég að pabbi er vel við skál.  Allt í einu stendur hann við rúmið mitt og á næsta andartaki er kodda kastað yfir andlitið á mér og þrýst að.  Eftir nokkurt hark þrífur mamma í koddann, lyftir mér upp úr rúminu og segir: “Hlauptu upp að Hlíðarenda og vertu þar í nótt.”  Og ég hleyp út í myrkrið þennan stutta spöl yfir túnið, berfættur og á náttfötunum.

Ritstjórn febrúar 13, 2018 09:49