Fyrsti sjúkraflugmaðurinn á Íslandi

Á meðal jólabókanna þetta árið er bókin Björn Pálsson – flugmaður og þjóðsagnapersóna, eftir Jóhannes Tómasson. Björn var frumkvöðull í sjúkraflugi á Íslandi og starfaði við það frá 1949 til dauðadags, 1973. Á þeim tíma var hann kallaður „bjargvættur landsbyggðarinnar“. Hann var oft eina von sjúkra og slasaðra úti á landi, hann fór í loftið þótt veðurútlitið væri allt annað en gott til flugs, svo ekki sé nú minnst á lendingarstaðina, sem sumir voru varla meira en „lófastærð“.

„Ég man að eitt sinn var hann kallaður til að sækja mjög sjúkan mann að Breiðabólstað á Fellsströnd,“ sagði Sveinn, sonur Björns. „Þar var um að ræða lendingarsvæði sem var afgirt tún, 4–500 metrar að lengd, sem hafði verið merkt og settur upp vindpoki. Þar sem svartamyrkur var lagði hann fyrir viðkomandi hvernig þeir skyldu standa að því að lýsa upp lendingarstaðinn. Hann flaug tveggja hreyfla flugvélinni TF-VOR í þetta sinn og þegar þangað kom höfðu menn raðað bílum við enda túnsins sem lýstu upp fyrirhugað lendingarsvæði. Þegar hann setti niður vængbörðin í aðfluginu til að geta komið hægar inn til lendingar snerist flugvélin mjög skyndilega á aðra hlið. Drifarmurinn í tjakknum hægra megin hafði þá brotnað þannig að vængbarðið sat eftir þeim megin á miðri niðurleið. Hann gerði sér strax grein fyrir hvert vandamálið var, brást hart við og náði að draga vinstra barðið strax upp þar til að jafnvægi náðist. Eftir á taldi hann sig hafa komist í hann krappan þarna.

Þar sem túnið var allt of stutt til lendingar án vængbarðanna varð hann að snúa frá og það tókst vel. Hann hafði þá samband við flugstjórn og sagði þeim hvernig komið var. Einnig að hann myndi reyna lendingu á Kambsnesi við Búðardal þar sem var litlu lengri flugbraut og bað um að þeim skilaboðum yrði komið til fólksins á Breiðabólstað. Hann flaug þangað og náði að gerðum nokkrum tilraunum að lenda heilu og höldnu á Kambsnesi í myrkrinu, án lýsingar á svörtum melnum og auðvitað án vængbarðanna. Þar beið hann svo sjúklingsins og flutti hann til Reykjavíkur.

Austfirðingur í húð og hár

Björn Pálsson var fæddur árið 1908 að Ánastöðum í Hjaltastaðaþinghá og ólst þar upp, en einnig á Hauksstöðum í Jökuldal, Sleðabrjót í Jökulsárhlíð og Arnhólsstöðum í Skriðdal. Það var einmitt á síðastnefnda staðnum sem fyrstu lengstu flugferðinni hans var heitið, en þá flaug hann „hringinn“ til að kynna tilvonandi eiginkonu sína, Sveinu Sveinsdóttur, fyrir foreldrum sínum og lenti þá á hálfgrónum sandeyrum fyrir neðan bæinn. Þaðan lá leið þeirra síðan yfir til Fáskrúðsfjarðar þar sem systir Sveinu bjó ásamt fjölskyldu sinni.

Að sjálfsögðu er sagt frá þessari sögulegu flugferð í bókinni og eins mörgu sem tengist Austurlandi, s.s. einni erfiðustu björgunarflugferð hans, sem var til Norðfjarðar í brjáluðu veðri.

Hér á eftir verður gripið aðeins meira niður í bókina:

Súrefnistækin björguðu konunni

Í byrjun september 1950 var Björn Pálsson beðinn um að fljúga með

súrefnistæki frá Slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli vestur á Reykhóla vegna konum í barnsnauð. Flugið tók 55 mínútur og var lent skammt frá húsinu þar sem konan

lá. Hún var þá „orðin blá, svo var af henni dregið“. En skömmu eftir að tækin voru

tekin í notkun var konunni auðveldara um andrardráttinn. Læknirinn á Reykhólum

sagði við Morgunblaðið að það hefði „bjargað lífi hinnar ungu konu hve skjótt

tækin komu“.

Sjúkraflug til Skotlands

Vísir segir frá því 22. júlí 1963 að Björn Pálsson hafi verið beðinn um að flytja veikan sjómann af breskum togara, sem settur hafði verið í  land í Færeyjum, til Skotlands. Ekki hafði verið unnt að senda sjúkraflugvél frá Skotlandi og því var leitað til Flugfélags Íslands sem var ekki með tiltæka vél en benti á Björn til verksins. Daginn eftir er sagt nánar frá ferðinni sem hafði gengið vel. Flugmaður með Birni var Þorsteinn Jónsson og Friðrik Einarsson læknir var einnig með í för. Flogið var með tvo Breta frá Færeyjum til Edinborgar, veikan sjómann og mann sem hafði handleggsbrotnað. Í frásögn Morgunblaðsins af fluginu 24. júlí er haft eftir Friðrik Einarssyni að Björn hefði verið eini maðurinn við Norður-Atlantshaf sem hefði getað veitt þessa þjónustu. Alþýðublaðið segir í frétt 23. júlí 1963 að þetta sé í fyrsta sinn sem íslensk sjúkraflugvél hafi verið fengin til að flytja sjúkling milli annarra landa en til Íslands.

 Kindur tróðu flugvöllinn

Í viðtali við Tímann 10. janúar 1968, í tilefni af sextugsafmæli Björns, segir hann frá ýmsu úr starfinu og rifjar meðal annars upp hversu ráðagóðir bændur í Húsafelli voru þegar hann var beðinn að sækja þangað sjúkling: „Það er gott að lenda þar á túnunum í auðu, en nú var mikill og laus snjór. Talað var um að ryðja með ýtu meðan ég væri á leiðinni, en þegar ég kom upp yfir hálsana sá ég engar ýtur og enga braut gerða á Húsafellstúnum. En við mér blasti önnur og kynlegri sjón. Húsfellingar ráku fjárhóp, líklega nokkur hundruð fjár, fram og aftur ákveðna braut á túninu. Ég flaug yfir nokkra hringi, og síðan var féð rekið frá. Ég lenti þarna á ágætri sléttri og harðtroðinni braut á snjónum eftir féð. Húsfellingar eru fjármargir, og þeim hafði dottið þetta snjallræði í hug að hleypa fé út úr húsum sínum til flugvallargerðar. Véltækin höfðu ekki farið í gang í frostinu.

Tvisvar með sama piltinn

Í viðtali við Sunnudagsblað Tímans 16. apríl 1967 segir Björn frá því þegar tilviljun ein réði því að lífi drengs var bjargað með sjúkrafluginu. Hann var beðinn að sækja veika konu til Hvammstanga, lenti á söndum í Miðfirði og bjó sig undir flugið til baka.

„Ég reyni venjulega að vera á undan sjúklingum á lendingarstað, svo ég geti stigið út úr vélinni og undirbúið móttöku sjúklingsins. Þá sé ég bifreið læknisins koma á geysihraða. Hún nemur staðar skammt frá vélinni, út snarast læknirinn og segir: Nú verðum við að fara eins og skot í bæinn.

En konan, sem ég er að sækja, segi ég.

Já, hún verður að vera eftir. Ég er hérna með slasaðan dreng. Hann datt fyrir ljá á dráttarvél og missti annan fótinn um hnéð og er allur særður.

Við bárum drenginn strax út í vélina, og síðan beint í loftið. Læknirinn flaug  með suður og gaf drengnum blóðvökva á leiðinni. Á Reykjavíkurflugvelli beið sjúkrabifreið með súrefni og flugvélin var varla lent, þegar drengurinn, meðvitundarlaus og blóðrunninn, var kominn í bílinn og honum ekið á sjúkrahús. Ég flaug svo með lækninn norður aftur og tók konuna frá Hvammstanga. Svona getur bilið verið mjótt milli heimanna tveggja. Drengurinn lifði, og ég sótti hann einhvern tíma seinna. Þá hafði hann verið á skíðum, dottið illa og lærbrotnað á fætinum, sem hálfur var fyrir. Ólánið virðist elta suma á röndum.“

Síðasta flugferðin

Björn Pálsson var 65 ára þegar hann fórst með flugvél sinni, Vorinu, þann 26. mars 1973, á leiðinni frá Akureyri til Reykjavíkur eftir vinnuferð þangað norður. Hann var ekki að fljúga í það skiptið en sat í farþegasæti. Með Birni fórust flugmaður hans og þrír samverkamenn  frá Flugmálastjórn.

Það eru sem sagt 50 ár frá því að Björn Pálsson lést, en í bókinni segir frá mörgum ferðum hans og afrekum, auk þess sem hún er prýdd fjölda ljósmynda.

Ritstjórn nóvember 9, 2023 12:00