Missið ekki verðskynið í fríinu

Það er mikilvægt að gera góða fjárhagsáætlun til að forðast vanhugsuð fjárútlát í fríinu. Þetta kemur fram í pistli eftir Gunnar Hákonarson á heimasíðu Íslandsbanka, en margir kannast við að peningarnir eru fljótir að fara í sumar- eða vetrarleyfinu. Gunnar telur einu gilda hvort menn ætla að ferðast innanlands eða utan, það sé gott að hafa fjárhagsáætlun klára áður en lagt er í hann. Um leið og hver dagur sé skipulagður sé hægt að áætla kostnað við hvern viðburð. Á netinu megi finna kostnað við aðgöngumiða að söfnum og skemmtigörðum.

Matarkostnaður oft vanmetinn

Einnig þurfi að huga að ferðakostnaði, ýmist á bíl, í flugi eða með lestum. Hann telur að matarkostnaður á ferðalögum sé gjarnan mjög vanmetinn. „Jafnvel þó svo að verðlag í sumum löndum sé lægra en hér, þá getur kostnaður farið úr böndunum þar sem fólk missir verðskyn og gerir mun betur við sig í mat og drykk en ella.“ Gunnar telur gott að deila ferðafénu niður í umslög þannig að fólk freistist síður til að eyða um efni fram – og varpar fram þeirri snilldarhugmynd að menn safni fyrir ferðalaginu í stað þess að taka lán fyrir því. Það er að vísu dálítið seint að ætla að fara að safna fyrir fríinu í ár núna, en má huga að því fyrir næsta ár.

Nokkur góð sparnaðarráð fyrir ferðalagið

  • Forðastu að kaupa minjagripi.
  • Ekki nota kreditkortið til að kaupa gjaldeyri úr erlendum bönkum, þeir taka oft og tíðum há gjöld fyrir slíkar úttektir.
  • Ekki kaupa tjaldvagn eða hjólhýsi nema þú notir það svo mikið að það borgi sig.
  • Kaupið góða ferðahandbók.
  • Pantið heimagistingu í stað þess að gista á hóteli.
Ritstjórn júlí 1, 2014 11:55