Múmínálfar hér og hvar

Nýlega bárust fréttir af því að útbúinn hefði verið Múmínlundur í Kjarnaskógi í við Akureyri. Þar gefst börnum nú tækifæri til að heimsækja Múmínhúsið, heilsa Múmínsnáðanum og Snorkstelpunni og rifja upp boðskap þeirra um fjölbreytni, fjölmenningu og umburðarlyndi. Reyndar urðu sumir bæði hneykslaðir og reiðir og töluðu um brot á höfundarréttarlögum, enda kom á daginn að fyrirtækið sem hefur réttinn hafði samband og nú er búið að breyta nafninu á lundinum í Ævintýralund. En eitthvert múmínæði hefur gripið heimsbyggðina á undanförnum árum. Múmínbollar, skálar, diskar og hnífapör eru eftirsóttir safngripir, á Facebook taka menn próf til að athuga hvaða persónu úr bókunum þeir líkjast mest og sögur Tove Janson eru endurútgefnar víða meðal annars á Íslandi.

Árið 2017 var sett upp sýning á málverkum Tove í Dulwich Gallery í London. Á sama tíma mátti sjá á veggjum South Bank Centre nokkrar af frummyndunum sem hún teiknaði og málaði fyrir bækurnar um múmínálfana og í Kew Garden var lögð múmínslóð börnum og foreldrum þeirra til skemmtunar. Ótalmargir lögðu leið sína þangað og fetuðu sig frá Múmínsnáðana til Snúðs og þaðan til Múmínpabba og –mömmu. Japanir bættu um betur sama ár og settu upp Múmíngarð enda kallast einfaldleiki og fagurfræði múmínálfanna á við margt í menningu þeirra í austri.

Án efa hefur snjöll markaðssetning Arabia-postulínsfyrirtækisins eitthvað með þetta að gera. Vandað postulín með ámáluðum þessum áleitni og heillandi ævintýramyndum er einfaldega ómótstæðilegt. En fleira kemur til, boðskapur bókarinnar er jöfnuður og virðing fyrir bæði veranna hver fyrir annarri og allra fyrir náttúrunni. Einmitt það sem er flestum nútímamönnum er ansi hugleikið um þessar mundir.

Sjálfsmynd eftir Tove Jansson.

Dapurlegur tónn

Hingað til hafa hönnuðir Arabia einbeitt sér að fyrstu bókunum, endurgert Litlu álfana og stóra flóðið, Halastjörnuna, Vetraundur í Múmíndal, Pípuhatt galdramannsins, Minningar Múmínpabba og Örlaganóttina. Árið 2016 kom hins vegar á markað lína sem kallast á við síðustu bókina, Seint í nóvember. Það er níunda og síðasta bókin um múmínálfana en Tove skrifaði hana skömmu eftir að hún missti móður sína. Sagan ber þess vitni en þar er tekist á við erfiðar tilfinningar, missi, sorg og söknuð.

Í þessari síðustu bók er Múmíndalurinn auður. Enga álfa er þar að finna en allir aðrir íbúar dalsins vona að þeir birtist á ný. Þeir koma einn af öðrum til múmínhússins í leit að þeim og vonbrigðin eru mikil þegar engan er þar að finna. Hemúllinn, Fillifjónka, Mímla og Snúður setjast upp í húsinu og bíða. Það er eins og náttúran öll haldi niðri í sér andanum og þrái álfana horfnu. Teikningarnar sýna þessa kyrrstöðu, stöðnun og sterku tilfinningar einkar vel.

Reyndar eru mörg svipuð þemu í Minningar Múmínpabba svo hluti af línunni endurspeglar hana. Myndir Tove í báðum bókum draga fram þetta myrkur hugans og þrána eftir því sem einu sinni var. En af því Tove var í eðli sínu bjartsýn og glaðlynd ljómar vonin ávallt undir niðri og kemur víða upp á yfirborðið. Hinir ljúfu og umburðalyndu múmínálfar geta heldur aldrei orðið myrkar verur.

Tove var lærður myndlistarmaður. Foreldrar hennar voru bæði málarar og hún ólst upp í við sköpun og úrvinnslu hugmynda. Hún var aðeins fjórtán ára þegar fyrst var haldin sýningum á verkum hennar. Margir hafa orðið til þess að benda á hve ótrúlega næmlega henni tókst að draga upp tilfinningar og andrúmsloft í gegnum einfaldar myndskreytingar múmínálfabókanna. Nú er komið í verslanir nýtt múmínálfaleirtau með jólalegu þema og hjá Máli og menningu ný safnbók um þessar indælu verur Hvað gerðist þá? Bókin um Mímlu, Múmínsnáðann og Míu litlu. Þeir sem ekki þekkja álfana fá hér tækifæri til að kynnast þeim og hinir til að endurnýja kynnin.

„Enga álfa er þar að finna en allir aðrir íbúar dalsins vona að þeir birtist á ný. Þeir koma einn af öðrum til múmínhússins í leit að þeim og vonbrigðin eru mikil þegar engan er þar að finna. Hemúllinn, Fillifjónka, Mímla og Snúður setjast upp í húsinu og bíða.“

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.