,,Vanessa mín myrka“ –  umdeildasta skáldsaga metoo bókmenntanna

Sagan er um 15 ára gamla stúlku, Vanessu Wye, sem kemst inn í metnaðarfullan heimavistarskóla á skólastyrk á meðan aðrir nemendur koma frá efnamiklum heimilum. Hún er því snemma utanveltu í skólanum og þegar vinkona sem hún eignast þar fer að vera með samnemanda þeirra upplifir Vanessa höfnun. Þar með hafði skapast rétt andrúmsloft fyrir einn af kennurunum til að sækja á Vanessu og það átti eftir að móta líf hennar það sem eftir var.

Vanessa upplifir stolnu stundina þegar kennarinn segir henni að hún sé öðruvísi og merkilegri en hinir nemendurnir og að það sé bara allt í lagi að vera einfari. Þessi maður, sem hún ber virðingu fyrir, sér í henni það sem enginn annar sér og Vanessu líður vel með það.

Var hún valdalaus ung stúlka sem var misnotuð eða var hún stúlka sem hafði framvinduna í hendi sér?

Var  líf hennar sagan af einhverju ljótu og skítugu eða var hún það fallegasta sem Vanessa gat hugsað sér?

Þessi saga er sögð út frá sjónarhorni Vanessu og saga hennar varpar upp spurningunni: Er þetta ástarsamband eða ekki. Vanessa segir sjálf: ,,Ég þarf svo á því að halda að þetta sé ástarsaga því ef þetta er ekki ástarsaga, hvað er ég þá?“

Þessi skáldsaga vekur upp verulega óþægilegar spurningar sem er fengur fyrir bókaklúbba að taka fyrir.

Skáldsagan Vanessa mín myrka, eða my dark Vanessa, er fyrsta útgefna verk Kate Elizabeth Russell. Höfundurinn dregur upp flókna mynd af vítinu sem kynferðisofbeldi áskapar fórnarlömbum sínum og spyr áleitinna spurninga.

Úr bókinni:

Hann snertir hnéð á mér með fingurgómunum og bíður þess að ég víki mér undan. Þegar ég geri það ekki leitar höndin lengra, upp lærið og utan um mjaðmirnar. Hann tekur um mittið á mér og það ískrar í stólfótunum þegar hann dregur mig til sín. Ég andvarpa og halla mér að honum, líkami hans er eins og fjall.“

,,Brjóta í honum hjartað? Ég? Ég reyni að ímynda mér hvernig það væri að hafa slíkt vald. Að hafa hjarta hans á mínu valdi, geta gert við það sem mér sýnst. En jafnvel þótt ég sjái það fyrir mér, slá og pumpa blóði í lófa mér, þá er það samt sem áður við stjórnvölinn. Hjartað í honum er húsbóndinn hér, leiðir mig áfram, rykkir mér til og frá þar sem ég sit föst og get ekki sleppt.“

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn júní 28, 2022 12:00