Nokkrar staðreyndir um kynslóð X

Í fjölmiðlum er talsvert fjallað um hópa fólks sem fætt er frá lokum seinni heimstyrjaldar og fram undir 1980. Í Bandaríkjunum er átt við svokallaða baby boomers, kynslóðina sem fædd er á árunum 1946 til 1964 og hins vegar generation X. Fólk sem fæddist á árunum 1964 til 1980. Í þeim hópi er fólk sem orðið er fimmtugt. Bandaríkjamenn sem fæddir eru á árunum 1965 til 1980 standa nú frammi fyrir aðstæðum sem tengjast starfi, efnahag og fjölskylduhögum sem getur gert þeim lífið erfitt segir, greinahöfundurinn Lynnette Khalfani-Cox. Hún fjallar um X kynslóðina í Bandaríkjunum í nýlegri grein á vefnum aarp.org. Lifðu núna endursagði og stytti.

 Kynslóð X í skuldafeni

Hinn dæmigerði fulltrúi kynslóðar X skuldar að meðaltali um 15,2 milljónir íslenskra króna eða 125.000 bandaríkjadali. Inni í þeirri tölu eru húsnæðisskuldir, kreditkortaskuldir, bílalán, námslán og aðrar persónulegar skuldir. Meðalskuldir fullorðins Bandaríkjamanns eru 88.000 dali eða um 10,7 milljónir íslenskra króna.Þeir sem eru eldri en kynslóð X skulda að meðaltali um 87.400 dali um 10 milljónir króna. Svokallaðir Millennials, fólk sem er fætt á árunum 1980 til aldamóta, virðist tregari til þess að taka lán en þeir sem eldri eru og skulda að meðaltali um 52.000 dali eða 6,3 milljónir króna.

Bera ábyrgð á foreldrum sínum

Kynslóð X ber ekki aðeins ábyrgð á eigin börnum heldur þarf fólk úr þeim hópi oft að hjálpa öldruðum foreldrum sínum. Það skýrir líka hvers vegna um helmingur X kynslóðarinnar heldur því fram að þeir þurfi að taka mun meiri fjárhagslega ábyrgð heldur en afar þeirra og ömmur þurftu að gera. 39% hópsins telja jafnframt að þeir muni aldrei ná að njóta þess fjárhagslega öryggis sem kynslóð foreldra þeirra naut. Þau eru svartsýn á fjárhagslega framtíð sína. Það að framfleyta fjölskyldu á meðan laun og vinnumarkaður staðna hefur valdið því að stór hluti kynslóðar X er áhyggjufullur yfir framtíðinni. Einn af hverjum fimm sér eftirlaunaaldur sem fjarlægan draum og telja að þau geti aldrei hætt að vinna. Fjórðungur kynslóðarinnar telur að ógjörningur sé að leggja fyrir til efri áranna nema kreditkortaskuldir séu greiddar upp fyrst. Sérfræðingar andmæla þessu og segja að kynslóð X verði að athuga málið betur því vel megi leggja fyrir þó aðrar skuldir séu greiddar niður á sama tíma. Kynslóð X  er  þó ljóst að það er að þeirra ábyrgð að leggja fyrir til elliáranna og að hvorki vinnuveitandi þeirra eða ríkið munu sjá um þau.

 Vilja sveigjanleika í starfi

Kynslóð X vill jafnvægi og sveigjanleika. Þegar fólk af kynslóð X undirbýr eftirlaunaárin er alveg á hreinu að fæst þeirra sjá fyrir sér hefðbundið líf eldra fólks, eins og að spila golf alla daga eða leika við barnabörn. Þó þau ætli sér að vinna lengur en forverar þeirra, býst X kynslóðin  við því að störf sem unnin verða á seinni hluta ævinnar verði sveigjanlegri, og gefi þeim meira, eins og tilgang og félagsleg tengsl. Meirihlutinn segist vilja vinna á efri árum, ekki af fjárhagslegi nauðsyn, heldur til að viðhalda tengslum og andlegu heilbrigði“ segir hún.

 

Ritstjórn júlí 18, 2016 09:27