Íbúðin fer ekki í að borga hjúkrunarheimilið

Almannatryggingakerfi er flókið og margslungið og meðal annars hefur gætt nokkurs misskilnings varðandi kostnaðarþátttöku fólks á hjúkrunarheimilum. Sú skoðun heyrist stundum að menn missi allar eigur sínar fari þeir á hjúkrunarheimili. Staðreyndin er sú að þeir sem hafa hærri tekjur greiða meira í kostnaðarþáttöku en hinir sem hafa lágar tekjur.  Hámarkið sem einstaklingur greiðir á hjúkrunarheimili er tæpar 424 þúsund krónur á mánuði. Fasteignir og aðrar eignir sem fólk á hafa engin áhrif á það hversu mikið þeir greiða. Hins vegar hefur það áhrif á kostnaðarþátttöku og réttindi til ellilífeyris hvaða tekjur fólk hefur af eignunum. Fjármagnstekjur eru t.d. vextir af innistæðum í bönkum, arður eða söluhagnaður af hlutabréfum eða öðrum eignum og leigutekjur.

Eignir og skuldir skipta ekki máli

Rétt eins og varðandi ellilífeyrinn skiptir máli hvaða tekjur fólk hefur, en eignir og skuldir hafa engin áhrif á rétt manna í almannatryggingakerfinu. Tryggingastofnun fylgir skattframtali, þannig að það sem telst til tekna þar, telst einnig til tekna hjá TR. Þannig skipta eignir og skuldir fólks engu máli varðandi ellilífeyri og heldur ekki gagnvart kostnaðarþáttöku á hjúkrunarheimilum.

Ef fólk á skuldlaust  hús eða íbúð þegar það fer á hjúkrunarheimili, hefur það ekki áhrif á hversu háa upphæð það greiðir þar í  dvalarkostnað.  En um leið og eignirnar fara að skila tekjum, hækkar það sem viðkomandi einstaklingur greiðir.  Það á til dæmis við, ef hús eða íbúð hans eða hennar er leigð út og af henni myndast leigutekjur.  Ef eignin er hins vegar seld, hefur andvirði hennar í peningum ekki áhrif á það sem greitt er á hjúkrunarheimilinu ef undanþága er frá greiðslu söluhagnaðar vegna íbúðarhúsnæðis samkvæmt skattframtali, en ef það sem fékkst fyrir eignina er sett á banka og fer að skila vaxtatekjum hafa þær áhrif á greiðslurnar. 

Vextir af innistæðum og söluhagnaður hlutabréfa hafa áhrif

Þetta eru í stórum dráttum áhrifin á kostnaðarþátttökuna samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar. Eignir og skuldir hafa heldur ekki áhrif á ellilífeyri, en vextir af innistæðum í bönkum eða söluhagnaður af hlutabréfum teljast fjármagnstekjur og hafa áhrif á upphæð ellilífeyris. Þeir sem hafa samtals meira en um 544 þús. kr. í mánaðartekjur, til dæmis úr lífeyrissjóðum, af atvinnutekjum eða fjármagnstekjum, fá hins vegar engan ellilífeyri frá TR. Fyrir þá sem búa einir og eiga rétt á heimilisuppbót er enginn réttur til staðar hjá TR ef tekjur fara samtals upp fyrir um 552 þús. kr. á mánuði.

Almennt ráðleggja fjármálasérfræðingar fólki að skulda sem minnst þegar það fer á eftirlaun. Flestir lækka í tekjum við það að byrja á ellilífeyri, miðað við þær tekjur sem þeir höfðu áður.

Kostnaðarþáttaka fer eftir tekjum

Almennt er miðað við að fólk á hjúkrunarheimilum hafi að lágmarki rúmar 95.500 krónur í ráðstöfunarfé, en ráðstöfunarféð er háð tekjum og fellur niður þegar tekjur ná 114.580 kr. á mánuði.  Þeir sem eru með tekjur undir 95.548 kr. á mánuði greiða ekkert í kostnaðarþátttöku. Sjaldgæft er að einstaklingar greiði enga kostnaðarþátttöku.

Hér fyrir neðan eru tvö dæmi um það hvað fólk þarf að greiða fyrir dvöl á hjúkrunarheimili, miðað við mismunandi tekjuforsendur.

  • Lífeyrissjóðstekjur 400.000 kr. á mánuði og 10.000 kr. í fjármagnstekjur á mánuði  – þátttakan er 214.207 kr./mán.
  • Lífeyrissjóðstekjur 200.000 kr. á mánuði og 100.000  kr. í fjármagnstekjur á mánuði – þátttakan er 158.447 kr./mán.

Hægt er að kynna sér réttindi til ellilífeyris í reiknivél lífeyris,  hér á vef TR

Þar er  einnig reiknivél sem reiknar út þátttöku í dvalarkostnaði á dvalar- og hjúkrunarheimilum miðað við mismunandi forsendur í tekjum.

 

Ritstjórn nóvember 27, 2019 07:59