Nýjar íbúðir fyrir eldra fólk halda áfram að hækka í verði

Margir vilja minnka við sig húsnæði þegar aldurinn færist yfir og losna við viðhald á eldra húsnæði og jafnvel stóra garða.  Nýjar íbúðir sem eru ca. 120-130 fermetrar að stærð, í lyftuhúsum með bílskýli eru ofarlega á vinsældarlistanum hjá þessum hópi.  Fasteignasali sem Lifðu núna ræddi við, sagði lítið um að hægt væri að fá slíkar íbúðir undir 50 milljónum króna og verð þessara íbúða hækkaði stöðugt. Það er kannski huggun harmi gegn, að verð á sérbýli hefur hækkað aftur, en þó alls ekki jafn mikið og nýju íbúðirnar.  En það er ástæða til að halda því til haga að þeir sem vilja minnka við sig, geta að sjálfsögðu keypt eldri íbúðir á lægra verði en nýju íbúðirnar sem greint er frá í  þessari grein.

Enn hægt að gera góð kaup í Mánatúni

Við ræddum við nokkra fasteignasala og spurðum um verð íbúða í nokkrum nýbyggingum sem hafa verið vinsælar hjá eldra fólki.  Í þeim samtölum kom fram að það er hægt að fá 120 fermetra íbúð ásamt stæði í bílskýli  í Mánatúni í Reykjavík á rúmar 52 milljónir króna og sambærileg 130 fermetra íbúð þar kostar rúmlega 56 milljónir króna. Einn fasteignasalinn sagði að þarna væri hægt að gera góð kaup. Íbúðirnar væru óvenju vandaðar og miðsvæðis, fyrir þá sem vildu búa nálægt hringiðu mannlífsins.  Þarna eru 8 nýjar íbúðir eftir.

Lundur í Kópavogi

Lundur í Kópavogi

Skuggahverfið dýrasta hverfi á Íslandi

Lundur í Kópavogi er vinsælt hverfi.  Íbúð sem er milli 120 og 130 fermetrar kostar ásamt bílskýli rúmar 60 milljónir króna. Skuggahverfið í Reykjavík er hins vegar dýrasta íbúðahverfi landsins.  Þar má að vísu fá nýja íbúð allt niður í 55 milljónir króna, en þá er það íbúð á jarðhæð. Það skiptir máli varðandi íbúðirnar í Skuggahverfinu á hvaða hæð þær eru.  Íbúð af ákveðinni stærð á jarðhæð, kostar þannig helmingi minna en íbúð af sömu stærð á 16 hæð.  Þegar komið er upp á efri hæðir, kosta íbúðir sem eru milli 120 og 130 fermetrar um og yfir 100 milljónir króna.

Sjálandið að verða uppselt

Sjálandshverfið í Garðabæ er að verða fullbyggt. Þar á einungis eftir að reisa eitt fjölbýlishús með íbúðum fyrir sextíu plús, en það er við hliðina á hjúkrunarheimilinu Ísafold.  Enn eru óseldar íbúðir í nokkrum húsum sem standa við sjóinn. Þegar íbúðir í Sjálandshverfinu eru komnar í 130 fermetra kosta þær almennt 60 milljónir og þar yfir, en íbúðir á efstu hæðum húsanna þar með aukinni lofthæð fara í 75 milljónir og „áfram upp úr öllu valdi“, eins og einn fasteignasalinn komst að orði.

Ódýrari íbúðir í Kópavogi

Staðsetning íbúða skiptir miklu uppá verðið og þannig er hægt að fá nýlegar íbúðir í Kórahverfinu í Kópavogi á góðu verði, eða íbúðir af þeirri stærð sem rætt hefur verið um í þessari grein, fyrir 43-45 milljónir króna.  Fasteignasalarnir segja að það sé nægt framboð nýrra íbúða fyrir þá sem eru komnir yfir miðjan aldur og vilja minnka við sig, en það vanti helst íbúðir fyrir yngra fólkið.

Einbýlishúsin hækka í verði en nýju íbúðirnar hækka meira

Það eru margir verktakar sem stíla íbúðabyggingar sínar upp á eldra fólk „sem á peninga“.  Oft eru þessir peningar í húsum sem eldri kynslóðin byggði á sínum tíma, húsum sem seljast í dag fyrir svipað verð og það kostar að kaupa nýju íbúðirnar í lyftuhúsunum. Verð á sérbýli hefur að vísu verið að hækka eins og áður sagði, en nýju íbúðirnar hafa hækkað enn meira síðustu misserin. Við Skógarveg í Fossvogi er nýtt hús ætlað þessum markhópi.  Það stendur norðan við Lund í Kópavogi.  Þar kostar 120 fermetra íbúð á fyrstu hæð tæpar 64 milljónir króna.

 

Ritstjórn nóvember 17, 2016 10:50